Fyrirvarar

Fyrirvarar vegna verðbréfaviðskipta fyrir milligöngu Landsbankans hf.

Hér að neðan eru fyrirvarar Landsbankans vegna mismunandi tegunda verðbréfaviðskipta sem framkvæmd eru fyrir milligöngu bankans. Til viðbótar fyrirvörum þessum eiga við almennir skilmálar bankans um verðbréfaviðskipti sem og samningar þeir sem viðskiptavinir hafa gert um einstök viðskipti.

Verðbréfaviðskipti á grundvelli fjárfestingarráðgjafar eða eignastýringar, 15. gr. laga nr. 108/2007.

1. Viðskipti að undangenginni ráðgjöf.

Viðskiptin voru framkvæmd á grundvelli undangenginnar ráðgjafar starfsmanns Landsbankans sem var m.a. byggð á upplýsingum viðskiptavinar um fjárfestingamarkmið hans, þekkingu og reynslu af verðbréfaviðskiptum, sem og fjárhagslega stöðu hans. Ráðgjöfin byggði m.a. á framangreindum upplýsingum, öðrum upplýsingum sem komu fram í samskiptum viðskiptavinar og starfsmanns og eftir atvikum fyrri samskiptum. Markmið ráðgjafar er að gera viðskiptavini sem best kleift að taka ákvarðanir um viðskipti í sem bestu samræmi við fjárfestingarmarkmið sín og aðstæður að öðru leyti. Ráðgjöfin er veitt með hagsmuni viðskiptavinar í huga út frá fyrirliggjandi upplýsingum og í samræmi við góða viðskiptahætti. Í henni felst engin ábyrgð á árangri af þeim viðskiptum sem framkvæmd eru með beinum eða óbeinum hætti á grundvelli ráðgjafarinnar. Viðskiptavinur ber ábyrgð á veittum upplýsingum og ber skylda til að tilkynna Landsbankanum um breytingar á áður gefnum upplýsingum.

2. Viðskipti í ósamræmi við inntak ráðgjafar.

Viðskiptin voru framkvæmd að undangenginni ráðgjöf starfsmanns Landsbankans en voru í mikilvægum atriðum í ósamræmi við inntak ráðgjafarinnar. Ráðgjöfin var m.a. byggð á upplýsingum viðskiptavinar um fjárfestingamarkmið hans, þekkingu og reynslu af verðbréfaviðskiptum, sem og fjárhagslega stöðu hans. Ráðgjöfin byggði m.a. á framangreindum upplýsingum, öðrum upplýsingum sem komu fram í samskiptum viðskiptavinar og starfsmanns og eftir atvikum fyrri samskiptum. Markmið ráðgjafar er að gera viðskiptavini sem best kleift að taka ákvarðanir um viðskipti í sem bestu samræmi við fjárfestingarmarkmið sín og aðstæður að öðru leyti. Ráðgjöfin er veitt með hagsmuni viðskiptavinar í huga út frá fyrirliggjandi upplýsingum og í samræmi við góða viðskiptahætti. Við framkvæmd viðskiptanna nýtur viðskiptavinur takmarkaðrar réttarverndar.

Verðbréfaviðskipti á grundvelli annarrar þjónustu en fjárfestingarráðgjafar eða eignastýringar, 16. gr. laga nr. 108/2007.

1. Vara/þjónusta ekki talin viðeigandi (2. mgr. 16. gr.).

Á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga varðandi þekkingu þína og reynslu var það mat Landsbankans að viðskiptin væru ekki viðeigandi. Þrátt fyrir viðvörun Landsbankans var óskað eftir viðskiptunum en viðskiptin geta falið í sér áhættu sem samrýmist ekki þekkingu þinni og reynslu. Ekki er víst að þú getir gripið til ráðstafana til að meta eða stýra áhættunni sem í viðskiptunum felst. Við framkvæmd viðskiptanna nýtur viðskiptavinur takmarkaðrar réttarverndar.

2. Viðskiptavinur veitir ekki fullnægjandi upplýsingar.

Við veitingu þjónustu á sviði verðbréfaviðskipta er Landsbankanum skylt að óska eftir upplýsingum um þekkingu og reynslu viðskiptavinar til að meta hvort þjónustan sé viðeigandi. Þrátt fyrir að Landsbankinn hafi bent á að fyrirliggjandi upplýsingar væru ófullnægjandi til að meta hvort þjónustan væri viðeigandi og hvort viðskiptamaður gerði sér grein fyrir þeirri áhættu sem í viðskiptunum felst var engu að síður óskað eftir því að viðskiptin færu fram. Ekki hefur því verið hægt að leggja mat á hvort viðskiptin séu viðeigandi. Í ljósi þessa mælist Landsbankinn eindregið til þess að viðskiptamenn veiti þær upplýsingar sem óskað er eftir.

3. Viðvörun til viðskiptamanns vegna einfaldra fjármálagerninga.

Við framkvæmd viðskipta með einfalda fjármálagerningar (t.d. hlutabréf og skuldabréf sem skráð eru á skipulegum verðbréfamarkaði og hlutdeildarskírteini) er ekki gerð krafa um að lagt sé mat á hvort viðskiptin séu viðeigandi fyrir viðskiptamann. Ekki er því krafist upplýsinga um þekkingu og reynslu viðskiptavinar á sviði viðkomandi tegundar verðbréfaviðskipta.

4. Bein viðskiptafyrirmæli.

Viðskiptin voru framkvæmd án undangenginnar ráðgjafar. Viðskiptavinum stendur til boða ráðgjöf af hálfu Landsbankans vegna verðbréfaviðskipta. Framkvæmd viðskipta án undangenginnar ráðgjafar takmarkar þá réttarvernd sem viðskiptavinir kunna að njóta á grundvelli laga um verðbréfaviðskipti.


Kynntu þér málið

  • Fáðu aðstoð hjá ráðgjöfum í Verðbréfa- og lífeyrisráðgjöf í síma 410 4040
  • Sendu fyrirspurn á netfangið verdbrefaoglifeyrisradgjof@landsbankinn.is
  • Móttaka Verðbréfa- og lífeyrisráðgjafar er staðsett í Austurstræti 11, 1. hæð