Landsbankinn gefur út nýja almenna viðskiptaskilmála
Landsbankinn hefur gefið út nýja almenna viðskiptaskilmála. Skilmálarnir uppfæra, skýra og sameina fimm helstu skilmála bankans um grunnþætti fjármálaþjónustu, þ.e. skilmála um innlánsreikninga, debetkort, netbanka einstaklinga, netbanka fyrirtækja auk almennra skilmála. Nýju skilmálarnir auðvelda jafnframt stafræn samskipti viðskiptavina við bankann. Þá er í skilmálunum kveðið á um vernd persónuupplýsinga til samræmis við nýja löggjöf um persónuvernd.
Nýju skilmálarnir taka gildi frá 12. júní 2018 gagnvart nýjum viðskiptavinum en frá 12. ágúst 2018 gagnvart núverandi viðskiptavinum. Ákvæði skilmálanna sem falla undir gildissvið laga um greiðsluþjónustu teljast vera rammasamningur um greiðsluþjónustu í skilningi þeirra laga. Skilmálarnir fela í sér breytingar frá eldri skilmálum sem varða ákvæði um rammasamning. Í samræmi við ákvæði laga um greiðsluþjónustu hefur núverandi viðskiptavinur rétt á að tilkynna bankanum um uppsögn rammasamnings fyrir 12. ágúst 2018 ef hann samþykkir ekki breytingarnar. Núverandi viðskiptavinur telst hafa samþykkt breytingarnar tilkynni hann bankanum ekki um annað fyrir 12. ágúst 2018.
Hér er hægt að nálgast nýju skilmálana:
Almennir viðskiptaskilmálar Landsbankans
Nýju skilmálarnir koma í stað eftirfarandi skilmála:
Almennir viðskiptaskilmálar Landsbankans hf.
Almennir skilmálar um stofnun og notkun innlánsreikninga
Viðskiptaskilmálar Landsbankans hf. fyrir debetkort