Orden vann í hugmyndahraðhlaupi Gulleggsins og Landsbankans

Teymið Orden bar sigur úr býtum í hugmyndahraðhlaupi Gulleggsins og Landsbankans og hlaut að launum 150.000 krónur í verðlaunafé og sæti í 10 liða lokakeppni Gulleggsins.
Hugmyndahraðhlaupið er lausnamót sem var opið öllum háskólanemum á Íslandi en þar gátu nemendur myndað teymi og þróað nýsköpunarhugmynd út frá áskorunum sem fimm bakhjarlar Gulleggsins komu með.
Þeir bakhjarlar Gulleggsins sem tóku þátt í hugmyndahraðhlaupinu, sem haldið var 9.-10. janúar sl., voru ELKO, Háskólinn í Reykjavík, KPMG, JBT Marel og Reykjavíkurborg. Bakhjarlarnir kynntu raunverulegar áskoranir sem þátttakendur lausnamótsins spreyttu sig á að leysa þá tvo daga sem mótið stóð yfir í húsakynnum Landsbankans.
Sjö teymi tóku þátt í hugmyndahraðhlaupinu. Sigurteymið Orden skipuðu þau Haukur Hólm Gunnarsson, nemandi í hátækniverkfræði við Háskóla Íslands, Margeir Haraldsson, nemi í skapandi greinum við Bifröst og Sunna Guðlaugsdóttir, meistaranemi í menningarstjórnun við Bifröst.
Orden glímdi við áskorun frá JBT Marel. Verkefnið snerist um hvernig minni matvælaframleiðendur geti nýtt sjálfvirkni og snjallar tæknilausnir til að bæta gæði og auka rekstrarhagkvæmni. Orden kynnti hugmynd að hugbúnaðarlausn sem sameinar gögn úr mismunandi vélum og skynjurum og býður upp á sjálfvirka skýrslugerð. Lausninni er ætlað að draga verulega úr handvirkri vinnu við gæðaeftirlit og vottanir, sem hingað til hafa verið verulegur þröskuldur fyrir smærri fyrirtæki.
Við óskum Orden til hamingju með sigurinn og það verður spennandi að fylgjast með þeim í lokakeppni Gulleggsins!
Landsbankinn hefur verið stoltur styrktaraðili Gulleggsins frá upphafi. Umsóknafrestur í lokakeppni Gulleggsins er til miðnættis 29. janúar nk. en lokakeppnin mun fara fram 26. febrúar í Grósku.


















