„Knatt­spyrn­an er í stöð­ugri fram­för“

Kvennaknattspyrna hefur verið í sókn síðustu ár, ekki aðeins á Íslandi heldur um allan heim. Aðsókn að leikjum eykst, ný félög og deildir spretta upp og um leið eykst fjármagn og umfjöllun. Fótboltinn er líka betri og metnaðurinn mikill, það er fátt sem kemur í veg fyrir að kvennafótboltinn nái í skottið á karlaboltanum nema hugarfar, og það er að breytast.
7. júlí 2017

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu er nú að taka þátt í lokakeppni EM í þriðja sinn. Það voru tímamót þegar liðið tók þátt í fyrsta sinn fyrir 8 árum en þátttakan nú er kannski frekar staðfesting á þeim gæðum og stöðugleika sem íslensk knattspyrna hefur náð.

Guðrún Inga Sívertsen hefur fylgt íslenskri knattspyrnu í gegnum mikið vaxtarskeið, hún hefur verið í stjórn KSÍ í tíu ár og varaformaður sambandsins undanfarin tvö ár. Hún segist sjá greinilegan mun á umgjörð liðsins og kvennafótbolta almennt nú og fyrir átta árum. Áhuginn sé alls staðar meiri og stemningin önnur.

„Við erum að sjá ákveðinn stöðugleika, við erum með flottar fyrirmyndir og áhuginn fyrir liðinu er miklu meiri. Það var slegið áhorfendamet á Laugardalsvellinum á leiknum við Brasilíu núna í júní, sem þó var æfingaleikur. Það er ábyggilega margt sem kemur þarna inn en það að liðið sé að fara á sitt þriðja lokamót og svo árangur karlalandsliðsins í fyrra, það skiptir máli. Íslensk knattspyrna hefur öll eflst gífurlega síðustu árin.“

Guðrún Inga segir líka að uppbyggingin sé að styrkjast mikið, þátttakan er meiri, aðsóknin er meiri og um leið eykst peningamagnið í umferð. Hún segir fleiri fyrirtæki vilja tengja sig við kvennaknattspyrnu, það teljist jákvætt og það sé meiri virðing borin fyrir knattspyrnu kvenna almennt.

Það var miklu minni umfjöllun um knattspyrnuna áður, þegar ég var að spila náðum við því í gegn að úrslit í 1. deild kvenna yrðu birt á textavarpinu eins og úrslit í efstu deild. Svo var kannski stöku sinnum fjallað um leikina okkar í tíu-fréttum.“

„Maður er kannski ekki alltaf stoltur af sögunni, þær sem ruddu brautina fyrir okkur hinar sem komu seinna þurftu að leggja mikið á sig, en það skilaði sér. Við þurfum ekki að fara langt aftur, kannski fimmtán ár, til þess tíma þegar stelpurnar voru að ræða sín á milli hvernig hægt væri að vekja meiri athygli. Á sama tíma þarf að halda því til haga að saga kvennaknattspyrnunnar hér á landi er mun styttri en hjá körlunum.“

Enginn munur á knattspyrnu kvenna og karla

Þetta hefur breyst mjög hratt, nú hafa fjölmiðlafulltrúar KSÍ vart undan að svara fyrirspurnum um að fá landsliðskonur í viðtöl og heimsóknir. Þær eru flottar fyrirmyndir og nefnir Guðrún Inga að bæði strákar og stelpur biðji landsliðskonurnar um eiginhandaráritanir.

„Þær eru alvöru íþróttamenn sem leggja mikið á sig, setja sér háleit markmið og ná árangri. Það er enginn sérstakur munur lengur á knattspyrnu kvenna og karla, hann var kannski fyrir hendi, en hraðinn, tæknin, skemmtanagildið er allt það sama. Sumt fólk gerir sér kannski ekki grein fyrir því og verður þess vegna hissa þegar það kemur á leiki.“

Þessi uppgangur kvennaknattspyrnunnar skilar sér í margföldunaráhrifum. Árangurinn vekur áhuga, sem skilar meiri þátttöku í yngri flokkum, sem svo aftur skilar enn meiri árangri.

Velgengninni hér á landi má að miklu leyti þakka grasrótarstarfinu í yngri flokkunum segir Guðrún Inga. Á síðustu áratugum hafa mótast fagmannleg vinnubrögð sem hafa skilað sér ríkulega. Þjálfarar allt niður í yngstu flokka hafa fengið góða menntun, æfingadagskrár eru markvissar og skipulagðar og gervigrasvellir og yfirbyggð knattspyrnuhús hafa gert alla aðstöðu mun betri en áður var og sömuleiðis gert mögulegt að iðka knattspyrnu allan ársins hring. Þetta hefur skilað vissu forskoti á þjóðir þar sem enn tíðkast að foreldrar þjálfi yngsta íþróttafólkið og frekar er litið á knattspyrnu yngstu flokkanna sem tómstundir.

Kvennaboltinn í Evrópu stækkar hratt

En þetta er að breytast og segir Guðrún Inga að mikil þróun sé að eiga sér stað í kvennaboltanum erlendis.

Í Evrópu eru nú tæplega 1,3 milljónir skráðra kvenna í knattspyrnusamböndunum. Í skýrslu Evrópska knattspyrnusambandsins, UEFA, sem út kom í fyrra má t.d. sjá að sá fjöldi kvenna sem hefur knattspyrnu að atvinnu að hluta eða öllu leyti hefur ríflega tvöfaldast á fimm árum. Sömu sögu má segja um það fjármagn sem veitt er til kvennaknattspyrnu hjá aðildarlöndum UEFA. Kvennaknattspyrnunni er sem sagt að vaxa hratt ásmegin.

„Þegar við fórum fyrst út árið 2009 var verið að fjölga liðunum í lokakeppni EM í tólf, fjórum árum síðar var þeim fjölgað í sextán og nú er verið að ræða hvort fjölga eigi enn frekar. Ástæðan er sú að landsliðunum sem standast samanburð við bestu liðin er alltaf að fjölga.“

Tækifærin eru núna

Þetta þýðir auðvitað að samkeppnin er um leið að harðna og mun vafalaust gera svo áfram. Guðrún Inga segist mjög stolt af því hve vel hefur tekist til en að alltaf þurfi að hugsa fram á veginn.

„Auðvitað er ég stolt af því hvernig hefur gengið en þetta er gífurleg vinna fjölda fólks sem hefur skilað þessu – og við erum ekki hætt. Lykillinn að því að ná lengra er að halda áfram að hlúa að grasrótinni og stefna alltaf að því að ná lengra. Markmiðið hlýtur að vera að halda áfram að auka vinsældirnar, auka gæðin, fjölga iðkendum, auka tekjurnar og efla kvennaknattspyrnuna í heild sinni.“

Guðrún Inga segir að næsta markmið sé að komast á HM, hún segist hafa fulla trú á því að það sé hægt, og það fyrr en síðar. „Þegar maður horfir yfir leikmannahópinn sem er að spila núna, og yngri stelpurnar, þær sem eru að koma upp úr starfi félaganna, þá er það algjörlega raunhæft markmið. Ég er mjög bjartsýn, tækifærin eru klárlega til staðar og ég held við eigum eftir að sjá mjög jákvæða þróun. Það eru gríðarleg sóknarfæri, við þurfum bara að nýta þau rétt.“

Þú gætir einnig haft áhuga á
Ferðamenn á jökli
9. júní 2021

Tölum íslensku um sjálfbærni

Þegar nýjar hugmyndir, tækni eða aðferðir ryðja sér til rúms á Íslandi koma þær oft erlendis að og fagorðin eru gjarnan á ensku. Það er hætt við því að erlend fagorð torveldi okkur skilning á nýjungum og festi þær í einhverjum fílabeinsturni, sem er miður – nógu erfitt er samt að setja sig inn í umræðuna eða læra á ný tæki.
31. maí 2021

Fjárfestum í framtíðinni

Fjárfestar hafa í auknum mæli tileinkað sér aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga. Ekki að ástæðulausu, þar sem rannsóknir sýna fylgni milli góðs árangurs fyrirtækja í sjálfbærnimálum og arðsemi í rekstri til lengri tíma.
5. maí 2021

Hreystineistinn kveiktur hjá krökkunum

„Tilgangur Skólahreysti var að kveikja aftur þennan hreystineista sem okkur fannst vera að deyja út,“ segir Andrés Guðmundsson, sem stofnaði keppnina með eiginkonu sinni, Láru B. Helgdóttur, árið 2005. Skólahreysti öðlaðist fljótt miklar vinsældir meðal krakkanna og síðustu tíu árin hafa um 110 af 120 skólum á landinu tekið þátt í keppninni.
Vindmyllur í Búrfellslundi.
2. mars 2021

Græn fjármögnun er allra hagur

Hjá Landsbankanum hefur um árabil verið lögð áhersla á sjálfbærni. Undanfarið hafa stór skref verið tekin í grænni fjármögnun bankans og starfsemi síðasta árs hefur fengið alþjóðlega vottun á kolefnisjöfnun.
28. jan. 2021

Persónuvernd og öryggi barna á netinu

Fullorðnir bera ábyrgð á að börn fái að kynnast ólíkum miðlum og þeim tækifærum sem felast í net- og snjallsímanotkun. Foreldrar þurfa einnig að vera vakandi yfir því hvað börnin þeirra eru að gera á netinu.
Fjöll
27. jan. 2021

Ný fjármálaumgjörð vegvísir að sjálfbærri framtíð

Bankar víða um heim gefa í síauknum mæli út svokallaðar sjálfbærar fjármálaumgjarðir sem stýra fjármagni í átt að sjálfbærum verkefnum og skilgreina sjálfbær verkefni. Landsbankinn hefur nú bæst í hópinn og gefið út sjálfbæra fjármálaumgjörð í fyrsta sinn. En hvers vegna og hvað þýðingu hefur þessi útgáfa?
Guðrún Tinna Ólafsdóttir
18. jan. 2021

Svanni veitir góðum hugmyndum kvenna brautargengi

 „Svanni eflir konur í fyrirtækjarekstri og gerir þeim kleift að framkvæma góðar hugmyndir. Þannig stuðlar hann að nýsköpun og blómlegu atvinnulífi,“ segir Guðrún Tinna Ólafsdóttir, stjórnarformaður Svanna - lánatryggingasjóðs kvenna. Landsbankinn er bakhjarl sjóðsins sem hefur opnað fyrir umsóknir.
Dagatal Landsbankans 2021
22. des. 2020

Dagatal Landsbankans 2021: Tækniframfarir og samfélagsbreytingar

Aðlögunarhæfni mannskepnunnar er ótrúleg sem er ómetanlegt í heimi sem tekur jafn örum breytingum og sá sem við byggjum. Hugviti mannfólksins virðist lítil mörk sett og hraði tækniþróunar slíkur að erfitt getur verið að átta sig á því hversu mikið hefur breyst á stuttum tíma.
Starfsfólk í hjálparstarfi
18. des. 2020

Fólk vill láta gott af sér leiða

Hjálpar- og styrktarfélög hafa ekki farið varhluta af heimsfaraldri og öllum þeim nýju lögmálum og siðum sem heimurinn hefur þurft að tileinka sér árið 2020.
Vindmyllur
19. nóv. 2020

Mikilvægt að þekkja raunveruleg umhverfisáhrif banka

Í gegnum tíðina hafa umhverfisáhrif banka gjarnan verið talin smávægileg. Bankar eru að upplagi skrifstofufyrirtæki og rekstur þeirra krefst ekki beinnar notkunar á auðlindum eða mengandi efnum í stórum stíl. Bankar og aðrar fjármálastofnanir hafa því ekki verið sett undir sama hatt og verksmiðjur, flugfélög eða önnur starfsemi sem sýnilega hefur bein áhrif á umhverfið. Í dag er hinsvegar gerð skýr krafa um að bankar mæli og greini frá óbeinum umhverfisáhrifum sínum.
Vefkökur

Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur