Græn skulda­bréf: Fjár­fest í grænni fram­tíð

Hvað eru græn skuldabréf og af hverju hefur útgáfa og áhugi á þeim stóraukist á undanförnum árum? Hrefna Ö. Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri Markaða hjá Landsbankanum og Sigrún Guðnadóttir sérfræðingur hjá Mörkuðum Landsbankans, fjalla um græn skuldabréf og tækifærin og ágóðann sem í þeim felast.
13. nóvember 2018

Umhverfismál og losun gróðurhúsalofttegunda hafa verið í brennidepli á undanförnum árum. Árið 2015 skrifuðu fulltrúar 195 ríkja undir Parísarsáttmálann og skuldbundu sig til að grípa til aðgerða til að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda. Græn skuldabréf eru einn möguleiki til fjármögnunar á slíkum og öðrum umhverfisvænum verkefnum og hefur áhugi á grænum skuldabréfum aukist mikið eftir undirritun Parísarsamkomulagsins. Vinna ýmissa opinberra aðila og einkaaðila, ásamt alþjóðasamningum um aðgerðir til minnkunar gróðurhúsalofttegunda, hafa drifið markaðinn áfram. Heildarverðmæti útgefinna grænna skuldabréfa árið 2017 var um 155,5 milljarðar Bandaríkjadala, sem er 78% aukning frá árinu 2016. Heildarverðmæti útistandandi grænna skuldabréfa á heimsvísu er nú um 461 milljarðar Bandaríkjadala.

Sigrún Guðnadóttir sérfræðingur hjá Mörkuðum Landsbankans og Hrefna Ö. Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri Markaða hjá Landsbankanum

Fjármagnsmarkaðurinn í lykilstöðu

Fjármagnsmarkaðurinn er í lykilstöðu til að fjármagna umhverfisvæn verkefni og stuðla þannig að bættu umhverfi. Þrýst hefur verið á fjárfesta að beina fjármagni í græn verkefni og leggja þannig sitt lóð á vogarskálarnar til að ná megi langtímamarkmiðum á sviði umhverfis- og loftlagsmála. Innlendir og erlendir fjárfestar hafa því í auknum mæli gerst aðilar að reglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (PRI) og skuldbundið sig til að leggja áherslu á samfélagsleg og umhverfisleg sjónarmið í fjárfestingarákvörðunum, auk góðra stjórnarhátta þeirra fyrirtækja sem fjárfest er í. Erlendis hafa ríki, sveitarfélög, fjármálastofnanir og einkaaðilar gefið út græn skuldabréf til að fjármagna innviðauppbyggingu, vistvænar byggingar eða önnur verkefni sem hafa jákvæð umhverfisleg áhrif. Umhverfisáhrif undirliggjandi verkefna sem fjármögnuð eru með grænum skuldabréfum eru metin sérstaklega og gagnsæi og regluleg upplýsingagjöf til fjárfesta um framvindu verkefnis er lykilatriði.

Reynsla erlendis hefur sýnt að ávöxtun grænna skuldabréfa er ekki síðri en hefðbundinna skuldabréfa. Umframeftirspurn hefur verið til staðar við útgáfu á grænum skuldabréfum í ýmsum atvinnugreinum sem sýnir að áhugi fjárfesta er mikill. Erlendis hefur fjöldi fjárfestingasjóða sem fjárfesta einungis í grænum og sjálfbærum skuldabréfum aukist.

Hvað eru græn skuldabréf og græn verkefni?

Alþjóðleg samtök aðila á verðbréfamarkaði (International Capital Market Association - ICMA) hafa birt skilgreiningu á grænum skuldabréfum, útbúið verklag og leiðbeinandi viðmiðunarreglur sem markaðsaðilar hafa komið sér saman um. Þessi leiðbeinandi tilmæli kveða á um að útbúa skuli sérstaka umgjörð utan um græn verkefni (e. green bond framework - GBF). Viðmiðin eru valkvæð en flestir útgefendur velja að fylgja þessu verklagi. Markmiðið með samræmdu verklagi og stöðlum er að auðvelda fjárfestum að meta fjárfestingakosti og koma í veg fyrir grænþvottun (e. greenwashing), sem á sér stað þegar aðilar eða neytendur eru blekktir og látnir halda að tiltekin vara/þjónusta sé umhverfisvæn.

Samkvæmt skilgreiningu ICMA eru græn skuldabréf hvers kyns skuldabréfagerningar þar sem fjármunum er varið til að fjármagna eða endurfjármagna ný eða fyrirliggjandi græn verkefni, að hluta eða að fullu, og sem samræmast fjórum grunnstoðum viðmiða um græn skuldabréf (e. green bond principles -  GBP). Græn skuldabréf eru í eðli sínu hefðbundin skuldabréf en söluandvirði skuldabréfanna er eyrnamerkt tilteknu umhverfisvænu verkefni eða verkefnum.

ICMA er búið að skilgreina tíu yfirflokka af grænum verkefnum sem eru:

Sérstakir hliðarmarkaðir fyrir græn og sjálfbær skuldabréf hafa sprottið upp í erlendum kauphöllum. Skráning grænna skuldabréfa á slíka hliðarmarkaði á Norðurlöndunum hefur vaxið að undanförnu og hefur Nasdaq á Íslandi einnig opnað fyrir þessa leið.

Verklagið á að tryggja gagnsæi og reglulega upplýsingagjöf til fjárfesta

Verklagið í kringum græn skuldabréf er á þann hátt að útgefandi býr til umgjörð (GBF) utan um verkefnið sem skuldabréfunum er ætlað að fjármagna. Æskilegt er að útgefandi sýni fram á að umgjörðin sé í samræmi við markmið og stefnu félagsins um samfélagslega ábyrgð. Umgjörðin skal byggja á fjórum grunnstoðum GPB sem eru eftirfarandi:

  1. Ráðstöfun fjármuna
  2. Val og matsferli
  3. Stýring fjármuna
  4. Upplýsingagjöf

Í fyrsta lagi þarf útgefandinn að setja sér markmið og skilgreina þau grænu verkefni sem söluandvirði skuldabréfanna er ætlað að fjármagna. Í öðru lagi þarf útgefandinn að útbúa viðeigandi ferli og verklag um val á verkefni og sýna fram á hvaða umhverfislega ávinning verkefnið hefur í för með sér. Í þriðja lagi þarf útgefandi að greina frá því hvernig söluandvirði skuldabréfanna verður ráðstafað. Æskilegt er að söluandvirði grænna skuldabréfa sé ráðstafað inn á aðgreindan reikning til að tryggja rekjanleika. Í fjórða lagi þarf að upplýsa fjárfesta a.m.k. árlega um umhverfisáhrif og framvindu verkefnisins.

Óháður ráðgjafi í umhverfismálum er fenginn til að gera úttekt á umgjörðinni og meta hvort hún uppfylli grunnstoðirnar fjórar og hvort hún sé í takt við væntingar markaðarins um hvað telst vera grænt verkefni m.t.t. viðurkenndra staðla. Þetta verklag kemur til viðbótar við ferlið sem tengist hefðbundinni skuldabréfaútgáfu og fylgir þessu nokkur skriffinnska og viðbótarkostnaður. Engu að síður er mælst til þess að útgefendur fylgi fyrrgreindu verklagi vilji þeir skrá skuldabréfin sín á markaði sem eru sérstaklega ætlaðir grænum skuldabréfum.

Lagaumgjörðin enn í mótun

Lagaumgjörð um útgáfu á grænum skuldabréfum er enn í mótun en til stendur að bæta úr því. Hópur um sjálfbær fjármál á vegum Evrópusambandsins (High-level Expert Group on Sustainable Finance - HLEG) hefur unnið að skilgreiningu á grænum skuldabréfum í Evrópu (e. EU-green bond), sem gefa á út árið 2019. Sú skilgreining byggir að miklu leyti á fyrrnefndri skilgreiningu og leiðbeinandi viðmiðunarreglum ICMA.

Margvíslegur ávinningur fyrir útgefendur, fjárfesta og samfélagið í heild

Ávinningurinn við útgáfu á grænum skuldabréfum er margvíslegur. Fyrir útgefendur má nefna jákvæða ímynd og meiri líkur á aukinni  eftirspurn eftir skuldabréfum félagsins. Fyrir fjárfesta má nefna fleiri ábyrga fjárfestingavalkosti, aukið gagnsæi með reglulegri skýrslugjöf niður á þau verkefni sem söluandvirði skuldabréfa var ætlað að fjármagna og betri áhættustýringu, því utanaðkomandi óháður ráðgjafi leggur mat á umgjörð útgefanda. Fyrir samfélagið má nefna að langtímafjárfesting í verkefnum fyrir framtíðina og komandi kynslóðir stuðlar að bættu umhverfi.

Hvað með Ísland?

Tækifæri til útgáfu grænna skuldabréfa eru til staðar hér á landi. Þann 10. september 2018 birti ríkisstjórnin nýja aðgerðaáætlun í loftlagsmálum. Í henni kom fram að á næstu tólf árum þarf að ráðast í umfangsmikil verkefni ef Ísland ætlar að standa við Parísarsáttmálann. Endurnýjanleg orkuframleiðsla á Íslandi setur landið í áhugaverða stöðu sé litið til ýmissa verkefna sem hægt væri að fjármagna með útgáfu grænna skuldabréfa, s.s. uppbyggingar innviða fyrir rafbíla, almenningssamgöngur, endurvinnslu og endurnýjun bygginga, svo eitthvað sé nefnt. Íslenski markaðurinn er því miður enn sem komið er eftirbátur annarra Norðurlanda í útgáfu grænna skuldabréfa. Í dag er einungis einn íslenskur útgefandi á grænum skuldabréfum, þ.e Landsvirkjun, en á Norðurlöndunum voru 58 útgefendur (þar af 17 nýir útgefendur) með 149 útgáfur á árinu 2017. Uppsafnað heildarverðmæti grænna skuldabréfa á Norðurlöndunum var þá um 18,4 milljarðar evra.

Betur má ef duga skal. Allir þurfa að taka höndum saman ef Ísland ætlar að standa við Parísarsáttmálann og tryggja komandi kynslóðum betra umhverfi. Þetta á við um ríki, sveitarfélög, opinberar stofnanir, einkarekin félög og almenning.

Kemur til með að vaxa á næstunni

Útgáfa á grænum skuldabréfum mun aukast á komandi misserum, ekki síst vegna aukinnar vitundarvakningar í loftslags- og umhverfismálum og vegna þrýstings frá almenningi á að ríki, sveitarfélög, og einkarekin félög láti sig þessi málefni varða. Fjárfestar kalla eftir fjárfestingum á borð við græn skuldabréf en framboðið hefur hingað til ekki verið nægilegt.

Hjá Mörkuðum Landsbankans starfa sérfræðingar með áralanga reynslu af sölu, miðlun og skráningu skuldabréfa. Við bjóðum fyrirtækjum, sveitarfélögum og stofnunum alhliða þjónustu og ráðgjöf sem gerir þeim kleift að afla fjármagns á skuldabréfamarkaði. Við munum taka vel á móti og aðstoða þá sem vilja kanna jarðveginn fyrir útgáfu grænna skuldabréfa.

Þú gætir einnig haft áhuga á
Hamborgartréð tendrað í Reykjavík
29. nóv. 2023
Hamborgartréð - saga samfélagsbreytinga og þakklætis
Saga Hamborgartrésins er hógvær, en á vissan hátt bæði breytingasaga Reykjavíkur og falleg jólasaga gjafmildi og þakklætis.
Reykjastræti
16. nóv. 2023
Af hverju heitir hraðbanki ekki tölvubanki?
Hæ! Áttu eitthvað í handraðanum? Eða þarftu kannski að skreppa á Raufarhöfn? Geturðu notað kortið þitt í tölvubankanum? Vissir þú að þetta tengist allt peningum með einhverjum hætti?
Netbanki fyrirtækja
10. nóv. 2023
Bankakerfið er að opnast
Landsbankinn kynnti á dögunum nýjung í appinu sínu sem gerir fólki kleift að millifæra af reikningum í öðrum bönkum. Þessi þjónusta er alltaf háð samþykki viðskiptavina. Landsbankinn er fyrsti bankinn á Íslandi sem býður fólki að framkvæma aðgerðir í öðrum bönkum úr sínu appi.
9. nóv. 2023
Það styttist í jólin og jólastressið – eða hvað?
Jólin eiga að vera hátíð gleði og friðar en við upplifum oft að þau snúist að miklu leyti um neyslu og jólastress. Í aðdraganda jóla hættir mörgum til að sleppa sér í neyslunni og kaupa hluti sem hvorki þau sjálf, fjölskyldu eða vini vantar í raun og veru. Viljum við breyta þessu?
Sjálfbærnidagur 2023
8. sept. 2023
Sjálfbærnidagur 2023 – upptökur
Sjálfbærnidagur Landsbankans var haldinn í Grósku 7. september 2023. Á fundinum beindum við sjónunum að því sem íslensk fyrirtæki hafa verið að gera til að auka sjálfbærni í sínum rekstri og hvernig gera megi enn betur.
Myndlistarsýning
17. ágúst 2023
Hringrás – innsýn í listasafn Landsbankans
Sýningin Hringrás er úrval verka úr listasafni Landsbankans. Á sýningunni er kannað hvernig áhrif og innblástur þróast með mismunandi miðlum og í meðförum ólíkra kynslóða listafólks. Verkin endurspegla áherslu á ákveðnar listrænar hreyfingar, abstraktlist og geómetríska abstraksjón, hlutbundna og hlutlæga list, grafíska list (bæði ætimyndir og teikningar) og súrrealisma. Hringrás veitir innsýn í fjölbreytileika og breidd listasafns Landsbankans, þvert á framsetningarmáta og samhengi. 
Ungmenni úr Hinsegin félagsmiðstöðinni
10. ágúst 2023
„Baráttan er ekki búin fyrr en …“
Hinsegin félagsmiðstöðin verður með einn stærsta vagninn í Gleðigöngunni en hann er 14 metra langur og rúmar meira en 100 krakka. Þótt vagninn verði litríkur og glæsilegur er undirtónninn samt alvarlegur.
13. júní 2023
Líffræðilegur fjölbreytileiki lykillinn að farsæld – líka í fjármálum
Fjölbreytileiki lífríkis er ein sterkasta vörn okkar gegn frekari hlýnun, fyrst og fremst vegna þess að hin ýmsu vistkerfi binda kolefni. Vinna þarf samtímis að lausn á loftslagsvandanum og verndun fjölbreytileika lífríkisins.
24. maí 2023
Er fyrrverandi að fylgjast með fjármálunum þínum?
Viðskiptavinir Landsbankans, eins og annarra fjármálafyrirtækja, hafa lengi getað veitt öðrum aðgang að fjármálunum sínum. Algengt dæmi um þetta er þegar hjón eða fólk í sambúð veitir hvort öðru aðgang að reikningum hvors annars. Þannig fá þau betri yfirsýn yfir fjármálin, geta millifært, greitt reikninga og svo framvegis.
Hildur Kristín Stefánsdóttir
11. maí 2023
Tónlist fyrir Söngvakeppnina og bankann í sömu viku
Vörumerki Landsbankans fór í fínstillingu fyrr í vor sem fól meðal annars í sér að uppfæra hljóðheim bankans. Til að leysa það verkefni fengum við til liðs við okkur pródúserinn og tónlistarkonuna Hildi Kristínu Stefánsdóttur. 
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur