„Að­geng­is­mál ekki svarta­gald­ur fyr­ir ör­fáa“

Tækni sem upphaflega var stoðtækni er að gjörbreyta heimilum með raddstýringu og sjálfvirkni. Um leið er líf fólks með fötlun að gjörbreytast, það þarf síður að treysta á aðra eða leggja á sig ferðalög til að nota þjónustu. Birkir Rúnar Gunnarsson, sérfræðingur í aðgengismálum, segir tækifæri tækninnar óviðjafnanleg en að það skipti öllu máli að gera hlutina rétt.
Aðgengismál tákn
5. desember 2019 - Viðtal við Birki Rúnar Gunnarsson

Birkir Rúnar Gunnarsson er mörgum kunnur vegna afreka sinna í sundi á yngri árum. Hann lagði sundskýluna á hilluna um aldamótin og flutti sig yfir í fjármálageirann. Hann starfaði lengi í bönkum, m.a. hjá Glitni og bandaríska bankanum Wachovia sem báðir máttu játa sig sigraða í fjármálakreppunni fyrir rúmum áratug. Um það leyti söðlaði Birkir um og ákvað að beina kröftum sínum að aðgengismálum sem hann hafði lengi haft brennandi áhuga á. Birkir hefur sjálfur verið blindur frá fimm ára aldri en hann er einnig mikill tækniunnandi og aðgengismál tæknibyltingarinnar standa honum því mjög nærri.

Birkir segir tilganginn með aðgengismálum einfaldan: að ná til sem flestra viðskiptavina. Samkvæmt víðustu skilgreiningum eru um einn af hverjum fimm með einhvers konar fötlun. Þetta á auðvitað við um þá sem t.d. eru blindir eða heyrnalausir en sömuleiðis um fjölda annarra og þarfirnar geta verið mjög mismunandi.

„Við sem erum blind og sjónskert erum kannski áberandi í þessu. Við erum vön því að berjast, en þetta á við um svo marga, litblinda, fólk með minniháttar sjónskerðingu, fólk með parkinsonssjúkdóm og ýmsa sem eiga t.d. erfitt með að nota mús.“

Amazon Echo

Birkir notar Amazon Echo og sýndarhjálparann Alexu á heimili sínu til að stjórna lýsingu, tónlist og útvarpi og hefur í hyggju að kaupa sér raddstýrð heimilistæki þegar tæknin nær ásættanlegum gæðum miðað við verð.

Tæknin gjörbylting í lífi fólks með fötlun

Tæknin sem fólk með fötlun notar er að mestu leyti sú sama og aðrir nota, það notar sömu farsíma og tölvur en á annan hátt. Tæknin sem gerir símanum okkar kleift að skilja mannsraddir og gefa tækjunum okkar raddir var upphaflega hugsuð sem stoðtækni en er nú að ná almennri notkun með sýndarhjálpurum á borð við AlexuSiri og Google Assistant. Segir Birkir að lífið hafi í raun gjörbreyst þegar iPhone 3gs og Siri voru kynnt til sögunnar árið 2009 en þá var í fyrsta sinn hægt að stjórna farsímanum sjónlaust með viðunandi hætti.

„Ég bjó einn í framandi borg, í Charlotte, North Carolina. Þar þurfti ég að velja mér íbúðir með aðgengi að strætóleiðum til að komast í vinnuna. Þar sem almenningssamgöngur voru vægast sagt af verri endanum var úrvalið harla lítilfenglegt. Annaðhvort þurfti ég að búa í miðbænum þar sem leigan var himinhá, meira að segja á íslenskan mælikvarða, eða kúldrast í útjaðri suður Charlotte um 45 mín strætóferð frá skrifstofunni. Leigubílarnir voru lítið skárri. Það tók oftast um klukkutíma að fá bíl og það var mikið vesen að borga. Það var svo flókið að ferðast innanbæjar að flestar helgar skellti ég mér út á flugvöll og þaðan að heimsækja vini og fjölskyldu allt frá London til Los Angeles. “

„Nú er öldin önnur og mun betri. Ég ferðast til nýrra borga, nota Uber til að komast allra minna ferða og kemst alltaf hvert sem er og á hvaða tíma sem er,“

„Síminn veit alltaf hvar þú ert, hann veit hver þú ert, það er myndavél á honum og fingrafaralesari. Ef ég villist einhvers staðar eða tek vitlausa beygju þá gefur síminn mér gönguleið og ég finn leið til baka. Áður þurfti ég að treysta á vegfarendur og spyrja til vegar. Það sama má segja um að borga. Ég nota Apple Pay og skrifa undir með fingrafari og þarf ekki að vandræðast með blað og penna.“

„Ég ferðast til nýrra borga, nota Uber til að komast allra minna ferða og kemst alltaf hvert sem er og á hvaða tíma sem er.“

Snjallheimilatæknin sem nú er að ryðja sér til rúms kemur sömuleiðis að gagni. Birkir er sjálfur mikill tækniunnandi en hann er m.a. í hópi þeirra sem prófar og veitir ráðgjöf um nýja tækni frá Google, svokallaður „Google Trusted Tester“. Hann stofnaði einnig Blind Accessibility Tester Society ásamt Lucia Greco við Berkley háskólann (skammstafað BATS) sem er vefsvæði og póstlisti þar sem blindir aðgengissérfræðingar geta spurt spurninga og deilt reynslu sinni af ýmiskonar hugbúnaði.

Birkir notar Amazon Echo og sýndarhjálparann Alexu á heimili sínu til að stjórna lýsingu, tónlist og útvarpi og hefur í hyggju að kaupa sér raddstýrð heimilistæki þegar tæknin nær ásættanlegum gæðum miðað við verð. Nú þegar er hægt að nota tækni á borð við Alexu til að stjórna húshitun, útidyralæsingu og öryggismyndavélum með raddstýringu án þess að glíma við takka og skjái.

Birkir notar öpp til þess að fylgjast með fjármálum sínum. Það þarf ekki að fjölyrða um þau þægindi sem felast í því að geta haft yfirsýn yfir fjármálin án aðstoðar en Birkir bendir líka á að í raun sé þetta persónuverndar- og öryggismál. „Þetta getur verið viðkvæmt, þú vilt ekkert endilega biðja ráðgjafa í útibúi að lesa bankayfirlitið fyrir þig eða þurfa að treysta ókunnugum fyrir peningunum þínum.“

„Nú er hægt að stjórna öllu á netinu og fylgjast með. En við verðum að tryggja að þetta sé allt aðgengilegt því annars er þetta skref aftur á bak. Ef appið eða vefsíðan virkar ekki sem skyldi er í raun erfiðara en áður að nota þjónustuna því útibúin eru færri og lengra í alla þjónustu.“

Aðgengismál hluti af þróun Landsbankaappsins frá upphafi

Við þróun Landsbankaappsins var tekið tillit til aðgengismála allt frá upphafi. Áður fyrr var nær algilt í vefhönnun að hugað var að aðgengismálum eftir á. Snæbjörn Konráðsson, forstöðumaður Vefdeildar Landsbankans, segir að ef vel eigi að vera sé mikilvægt að temja sér að hugsa um aðgengismál á öllum stigum. „Við fengum óvænta aðstoð við gerð appsins, frá viðskiptavini sem var mikið í mun að við gerðum þetta rétt. Hún kom til okkar og sýndi okkur hvernig blindir upplifa viðmótið og hjálpaði okkur á seinni stigum við að fara yfir virkni appsins. Birkir Rúnar Gunnarsson gerði svo úttekt á appinu en starfsfólk Vefdeildar hefur auk þess sótt ráðstefnur og kynnt sér aðgengismál með ýmsum hætti. Það er mikill vilji til þess að gera þessa hluti vel.

Ástæðurnar fyrir því að við völdum appið sem fyrsta skref í aðgangsvæðingu netlausna okkar voru einfaldar. Appið er alltaf við hendina. Ekki þarf talgervla eða hátalara þar sem símtæki innihalda allt sem þarf. Appið inniheldur einnig allt það helsta sem viðskiptavinir þurfa að sinna í sínu daglega fjármálalífi. Texti er hnitmiðaður, ekkert orðagljáfur eða óþarfa útskýringar og allt snýst um að stutt sé í aðgerðir og ferli séu sem styst.

Landsbankinn ætlar þó ekki að láta þar staðar numið og mun halda áfram að sinna aðgengismálum eftir sem áður í þeim verkefnum sem framundan eru t.d. þegar vinna hefst við næstu útgáfu Landsbankavefsins.

Hraðbrautir

Tækniframfarir hafa gert Birki mun auðveldara með að ferðast. „Síminn veit alltaf hvar þú ert, hann veit hver þú ert, það er myndavél á honum og fingrafaralesari,“ segir hann.

Mikilvægast að gera hlutina rétt frá grunni

Aðgengiprófanir í símum eru að sögn Birkis einhverjar þær einföldustu sem þekkjast því þar er aðgengistæknin innbyggð í stýrikerfið og notast forritin öll við sömu lausnina. Þegar kemur að vefnum flækjast málin því þar er við að eiga ólík stýrikerfi sem þurfa að tala við vafra sem aftur þurfa að glíma við alls kyns alls konar stoðtæknihugbúnað í mismunandi útfærslum.

Lausnin á því hvernig taka eigi tillit til hinna fjölmörgu ólíku hópa sem nota vefinn er þó að sögn Birkis sáraeinföld. Það þarf að gera hlutina rétt frá grunni og fylgja þeim stöðlum sem til eru, s.s. HTMLCSSJavascript, o.s.frv. Með því eftirláta forritarar vöfrunum sjálfum og öðrum tækjum að tryggja að efnið sé læsilegt. „Þetta snýst bara um notendaupplifun, aðgengismál eru ekki einhver svartagaldur fyrir örfáa blinda,“ segir Birkir.

Flest það mikilvægasta í framleiðslu og framsetningu efnis á netinu fyrir fólk með fötlun tilheyrir nefnilega aga og góðum siðum í forritun. Það þarf að vinna skipulega og eftir stöðlum, setja lýsingar við myndir fyrir þá sem ekki geta séð, texta myndbönd fyrir þá sem ekki heyra, svo dæmi séu nefnd.

Allt eru þetta hlutir sem gagnast heilt yfir. Vel forritaðir vefir virka frekar á öllum tækjum. Lýsingar á myndum og öðru efni gagnast við leitarvélabestun og textun á myndböndum gagnast þeim sem horfa hljóðlaust á myndefni á samfélagsmiðlum, sem Birkir segir raunar að séu um 85%.

„Það skiptir miklu máli að fylgja stöðlunum, þeir eru til staðar og ef þú fylgir þeim myndi ég segja að um 80% alls sem þú gerir verði aðgengilegt en þau 20% sem eftir standa eru svo það að vafrarnir styðja staðlana ekki fullkomlega.“

„Aðgengissérfræðingar eru bestu vinir forritarans, við reynum að gera þeim lífið létt og veitum aðhald.“

„Ef þú býrð til aðgengilegan HTML og CSS kóða þá er það á ábyrgð vafrans eða skjálesarans að sjá til þess að efnið skili sér rétt, það skiptir þá engu hvort þú ert að nota hefðbundinn vafra, Voiceover í Apple tækjum eða NVDA skjálesarann. Markmiðið á að vera að gera réttan kóða frekar en að prófa á öllum tækjum.“

Tólin og staðlarnir sem til þarf eru þegar til staðar. Birkir nefnir WCAG staðalinn sem staðreynir hvort vefir standist aðgengiskröfur og ARIA sem gerir forriturum kleift að lýsa efni fyrir skjálesurum og annarri stoðtækni beint (ef ekki er hægt að gera hlutina á venjulegan hátt með HTML kóða). Að sögn Birkis er þó afar mikilvægt að fólk noti ARIA rétt, því ef það er ekki gert getur vefefnið orðið allsendis óaðgengilegt.

Birkir segir helstu hættuna vera þegar hugsað er um aðgengismál eftir á og að vefforritunartól og tæki á borð við WordPress, Angular og React sem einfalda vefhönnun séu oft ekki útfærð með aðgengi í huga sem geti valdið vandræðum seinna meir. Best sé að notast við aðgengisvottuð tól og vinna allan kóða aðgengilegan frá upphafi. „Þetta krefst aga og þjálfunar, þú getur ekki bara tekið eitthvað sem lítur vel út og notað það án þess að hugsa út í það. Það er því oftar en ekki reynslu- og þekkingarleysi sem við ströndum á.“

Vegna þess að tæknin er til staðar snýr það að forriturum og þeim sem standa að þróun vefja að sinna aðgengismálum með réttum hætti. Vestanhafs hefur hrina lögsókna og óttinn við þær drifið framþróun í aðgengismálum áfram. Birkir líkir þessu við villta vestrið. Hann segir bandarískar reglugerðir kveða á um að allt eigi að vera aðgengilegt en ekkert samkomulag sé um staðla og að enginn sinni eftirliti með því. Því hefur færst í vöxt að úrbætur séu knúnar fram með kærum.

Stór fyrirtæki semja sig yfirleitt frá slíkum kærum og bæta svo úr því sem er ábótavant. Það veldur því að fleiri kæra í von um að fá bætur svo segja má að kærugirni Bandaríkjamanna hafi haft jákvæð áhrif á aðgengismál.

Hugað að aðgengismálum

Mikil jákvæðni á Íslandi en aðhald skortir

Ísland er að sögn Birkis á ágætum stað hvað varðar aðgengismál þrátt fyrir að það sé sáralítið regluverk til staðar. Stjórnvöld gáfu út stefnu árið 2012 um aðgengi opinberra vefja en hins vegar er lítið eftirlit með henni og engin viðurlög ef henni er ekki fylgt.

„Það góða er að það eru ekki margir í þessum bransa á Íslandi. Það eru margir opnir fyrir því sem við erum að gera og því er ástandið á Íslandi fremur gott, a.m.k. ekki verra en hjá nágrönnum okkar sem búa við meira regluverk.

Birkir leggur mikla áherslu á að vottanir geti komið að gagni. Hann bendir á vottanir frá Samtökum alþjóða aðgengisfagfólks (International Association of Accessibility Professionals, IAAP).

Sem stendur eru tvær vottanir í boði. Certified Professional in Accessibility Core Competencies (CPACC) er vottun fyrir stjórnendur, almannatengla og verkefnisstjóra sem tryggir að fólk skilji mismunandi hugtök um fötlun, altæka hönnun og helstu staðla og regluverk.

WAS, eða Web Accessibility Specialist er svo vottun fyrir vefara og aðra notendaviðmótsforritara (t.d. á snjallsímaöppum). Vottunin tryggir að viðkomandi skilji og geti túlkað Web Content Accessibility Guidelines staðalinn og beitt honum til að meta aðgengi að notendaviðmóti, hvort sem um er að ræða vefsíður, snjallsímaöpp, rafræn skjöl eða annað. Vissulega er mest áhersla lögð á vefforritun í þeirri vottun en aðrar vottanir fyrir snjallsíma eru í skoðun.

Til að fá vottun þurfa menn að greiða um 50.000 kr. og þreyta próf. Hægt er að taka prófin á netinu undir eftirliti en hver sem er getur gerst eftirlitsaðili svo lengi sem hann er ekki yfir- eða undirmaður þess sem þreytir prófið. Þeir sem hyggjast þreyta prófin geta svo undirbúið sig hjá Deque University.

Birkir segir að tíminn sem fari í slíkar vottanir sé alltaf góð fjárfesting. „Kóðinn sem kemur frá þessu fólki er bara allt öðru vísi og í raun þyrfti að gera þetta sem víðast. Þetta ætti að vera skylda t.d. í tölvunarfræðinámi eða á vinnustöðum. Það sem kemur til baka er svo miklu aðgengilegra.“

„Það sem skortir hér á Íslandi er að móta stefnu og taka hana alvarlega. Til þess að þetta virki rétt þá þarf ákvörðunin að koma ofan frá og fólk þarf að fá þann auka tíma sem þarf. Þetta getur virst kostnaðarsamt og lítur kannski illa út í fyrstu, fólk er að læra og gerir mistök. En þetta skilar sér alltaf til baka og er jákvætt fyrir alla. Þetta þarf að koma ofan frá. Ég hef unnið alls konar greiningar og úttektir en ég er miklu spenntari fyrir því að aðstoða fólk við að gera hlutina rétt. Það er miklu uppbyggilegra en að eyða tíma í að laga það sem er vanreifað í upphafi.“

Þú gætir einnig haft áhuga á
Hús í Reykjavík
18. júní 2024
Snjóhengjan sem verður vonandi að skafli
Í byrjun sumars 2021 var sögulega lágt vaxtastig á Íslandi. Þetta sumar og þeir mánuðir sem á eftir komu voru annasamir í Landsbankanum. Þúsundir viðskiptavina breyttu íbúðalánum sínum í óverðtryggð íbúðalán, nafnvaxtalán, og flestir festu vextina í þrjú ár. Um þessar mundir er fastvaxtatímabilinu að ljúka hjá mörgum. Til áramóta munu fastir vextir losna á ríflega 3.200 íbúðalánum. Og það er bara hjá okkur í Landsbankanum.
Hamborgartréð tendrað í Reykjavík
29. nóv. 2023
Hamborgartréð - saga samfélagsbreytinga og þakklætis
Saga Hamborgartrésins er hógvær, en á vissan hátt bæði breytingasaga Reykjavíkur og falleg jólasaga gjafmildi og þakklætis.
Reykjastræti
16. nóv. 2023
Af hverju heitir hraðbanki ekki tölvubanki?
Hæ! Áttu eitthvað í handraðanum? Eða þarftu kannski að skreppa á Raufarhöfn? Geturðu notað kortið þitt í tölvubankanum? Vissir þú að þetta tengist allt peningum með einhverjum hætti?
Netbanki fyrirtækja
10. nóv. 2023
Bankakerfið er að opnast
Landsbankinn kynnti á dögunum nýjung í appinu sínu sem gerir fólki kleift að millifæra af reikningum í öðrum bönkum. Þessi þjónusta er alltaf háð samþykki viðskiptavina. Landsbankinn er fyrsti bankinn á Íslandi sem býður fólki að framkvæma aðgerðir í öðrum bönkum úr sínu appi.
9. nóv. 2023
Það styttist í jólin og jólastressið – eða hvað?
Jólin eiga að vera hátíð gleði og friðar en við upplifum oft að þau snúist að miklu leyti um neyslu og jólastress. Í aðdraganda jóla hættir mörgum til að sleppa sér í neyslunni og kaupa hluti sem hvorki þau sjálf, fjölskyldu eða vini vantar í raun og veru. Viljum við breyta þessu?
Sjálfbærnidagur 2023
8. sept. 2023
Sjálfbærnidagur 2023 – upptökur
Sjálfbærnidagur Landsbankans var haldinn í Grósku 7. september 2023. Á fundinum beindum við sjónunum að því sem íslensk fyrirtæki hafa verið að gera til að auka sjálfbærni í sínum rekstri og hvernig gera megi enn betur.
Myndlistarsýning
17. ágúst 2023
Hringrás – innsýn í listasafn Landsbankans
Sýningin Hringrás er úrval verka úr listasafni Landsbankans. Á sýningunni er kannað hvernig áhrif og innblástur þróast með mismunandi miðlum og í meðförum ólíkra kynslóða listafólks. Verkin endurspegla áherslu á ákveðnar listrænar hreyfingar, abstraktlist og geómetríska abstraksjón, hlutbundna og hlutlæga list, grafíska list (bæði ætimyndir og teikningar) og súrrealisma. Hringrás veitir innsýn í fjölbreytileika og breidd listasafns Landsbankans, þvert á framsetningarmáta og samhengi. 
Ungmenni úr Hinsegin félagsmiðstöðinni
10. ágúst 2023
„Baráttan er ekki búin fyrr en …“
Hinsegin félagsmiðstöðin verður með einn stærsta vagninn í Gleðigöngunni en hann er 14 metra langur og rúmar meira en 100 krakka. Þótt vagninn verði litríkur og glæsilegur er undirtónninn samt alvarlegur.
13. júní 2023
Líffræðilegur fjölbreytileiki lykillinn að farsæld – líka í fjármálum
Fjölbreytileiki lífríkis er ein sterkasta vörn okkar gegn frekari hlýnun, fyrst og fremst vegna þess að hin ýmsu vistkerfi binda kolefni. Vinna þarf samtímis að lausn á loftslagsvandanum og verndun fjölbreytileika lífríkisins.
24. maí 2023
Er fyrrverandi að fylgjast með fjármálunum þínum?
Viðskiptavinir Landsbankans, eins og annarra fjármálafyrirtækja, hafa lengi getað veitt öðrum aðgang að fjármálunum sínum. Algengt dæmi um þetta er þegar hjón eða fólk í sambúð veitir hvort öðru aðgang að reikningum hvors annars. Þannig fá þau betri yfirsýn yfir fjármálin, geta millifært, greitt reikninga og svo framvegis.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur