Hvern­ig get­ur sparn­að­ur stuðlað að sjálf­bær­ara sam­fé­lagi?

Loftslagsbreytingar, góðir stjórnarhættir og ábyrg nýting auðlinda jarðar eru aðeins nokkur viðfangsefni sjálfbærni, enda snertir hún á flestu sem við tökum okkur fyrir hendur.
7. október 2021

Með sjálfbærni fara samfélagið, heimurinn og hagnaður saman

Markmið sjálfbærni er að stuðla að þróun sem mætir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til þess að mæta þörfum sínum. Auðlindir jarðar eru takmarkaðar og auðlindanotkun getur ekki farið út fyrir þau endanlegu mörk sem náttúran setur án þess að skaða hagsmuni allra til framtíðar. Fyrir fyrirtæki merkir sjálfbærni að axla ábyrgð og hafa uppbyggileg áhrif á umhverfið, stjórnarhætti og samfélagið. Sjálfbærni snýst um samþættingu þriggja meginstoða: samfélagsins, hagnaðar og heimsins (e. people, profit, planet). 

Sjálfbærni í þágu allra 

Ný skýrsla IPCC um loftslagsbreytingar hefur sýnt fram á að markmið Parísarsamkomulagsins munu ekki nást nema með róttækum breytingum til að minnka losun mannkynsins á gróðurhúsalofttegundum. Markmið Parísarsamkomulagsins er að koma í veg fyrir að hlýnun jarðar miðað við upphaf iðnbyltingarinnar verði meiri en 1,5°C (eða innan við 2°C til vara) til þess að halda jörðinni lífvænlegri fyrir næstu kynslóðir. Við upplifum nú þegar afleiðingar hlýnunar jarðar og sem dæmi má nefna öfgar í veðurfari sem orsaka flóð, skógarelda, hitabylgjur, fellibyli, hvirfilbyli o.þ.h. sem aftur leiða m.a. til uppskerubrests, heimilismissis, eignatjóns og dauðsfalla.

Það er allra hagur að vinna að sjálfbærni. Enginn getur lifað af í heimi þar sem ekki er hægt að treysta á aðgengi að auðlindum sem mæta grunnþörfum manna og fyrirtæki geta ekki starfað í heimi þar sem þau geta ekki treyst á aðfangakeðju eða tryggt afkomu sína.

Sjálfbær sparnaður

Viðskiptavinir vilja í auknum mæli vita í hvað fjármagninu þeirra er varið, hafa skoðun á því hvernig það er notað og vilja hafa góð áhrif á umhverfi og samfélag. Fjárfestar og einstaklingar sem vilja leggja sitt af mörkum til sjálfbærni geta fjárfest í sjóðnum Eignadreifing sjálfbær. Landsbréf, dótturfélag Landsbankans, rekur þann sjóð og er honum stýrt með aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga.

Viðskiptavinir geta  einnig  lagt sparnað sinn inn á nýjan reikning Landsbankans, Vaxtareikningur – sjálfbær. Landsbankinn fjármagnar sjálfbær verkefni fyrir sömu upphæð og lögð var inn á reikninginn, eða hærri upphæð.  Meðal þess sem hægt er að fjármagna eru orkuskiptin, t.d. að fjármagna lagningu hjóla- og göngustíga, rafmagnsbíla, byggja vindmyllur, setja upp hleðslustöðvar og sólarrafhlöður. Önnur verkefni leiða til minni plastnotkunar, minni úrgangs, bættrar endurvinnslu og aukinnar flokkunar og endurnýtingar. Fjármagni er einnig varið til skógræktar, ræktunar á lífrænu grænmeti, lífrænnar landbúnaðarstarfsemi, sjálfbærra fiskveiða og endurheimt votlendis. Bankinn gefur árlega út framvinduskýrslu þar sem greint er frá því hvernig fjármunum sem fara í sjálfbæran sparnað er stýrt og þar má sjá hvað bankinn fjármagnaði.

Fjármálafyrirtæki og fjárfestar eru í lykilstöðu 

Fjármálafyrirtæki og fjárfestar eru lykilaðilar í loftslagsbaráttunni en þau geta beint fjármagni til verkefna sem styðja við sjálfbærni.

Atvinnulífið notar yfirleitt hugtakið UFS, eða umhverfismál, félagslega þætti og stjórnarhætti, um málefni sem falla undir sjálfbærni. Til þess að sýna á trúverðugan hátt fram á að þau vinni að UFS-þáttum þurfa fjármálafyrirtæki að gera sjálfbærni hluta af kjarnastarfsemi sinni. Það gera þau með því að móta sér stefnu í málaflokknum og útbúa sjálfbæra fjármálaumgjörð sem fjármálagjörningar, svo sem útgáfa skuldabréfa, lánveitingar og innlán, geta fallið undir.

Fjármálafyrirtæki hafa samræmdar leikreglur frá Evrópusambandinu í formi flokkunarkerfis (e. EU Taxonomy) á sviði sjálfbærra fjármála. Flokkunarkerfið samræmir verklag og setur sjálfbærniviðmið sem fjármagnsmarkaðir geta stuðst við til að ná markmiðum í loftslagsmálum. 

Hvað hefur Landsbankinn gert í sjálfbærnimálum? 

Landsbankinn hefur lengi látið sig málefni samfélagsábyrgðar og sjálfbærni varða og við höfum unnið markvisst að þessum málum í okkar starfi. Við höfum gefið út sjálfbæra fjármálaumgjörð, fjármagnað okkur undir henni með útgáfu grænna skuldabréfa og veitum fyrirtækjum sjálfbæra fjármögnun ef þau falla undir skilmála umgjarðarinnar. Þannig er bankinn að beina fjármagni til sjálfbærra verkefna og gera fyrirtækjum og fjárfestum kleift að vinna að sjálfbærum verkefnum.

Við gefum árlega út skýrslu um stöðu málaflokksins í starfsemi bankans og höfum gert það síðan 2012. Á þessum tæpu 10 árum hefur sjálfbærni fengið meiri athygli í samfélaginu og í dag eru flestir upplýstir um hversu aðkallandi málefnið er. Mikilvægt er að skilja hvað átt er við með sjálfbærni og hvað fyrirtæki eins og banki getur gert til að styðja við málaflokkinn. Við höfum haldið merkjum sjálfbærni á lofti, m.a. með því að birta fjölda greina um málaflokkinn á vef okkar.

Hugsum til framtíðar 

Fyrrnefnd skýrsla IPCC um loftslagsbreytingar dregur upp fimm mögulegar sviðsmyndir fyrir framtíðina. Til þess að ná bestu mögulegu útkomunni og halda hlýnun jarðar innan 2°C frá iðnvæðingu verða allir að láta verkin tala héðan af. Það geta allir lagt sitt af mörkum og við erum stolt af því að geta boðið viðskiptavinum okkar upp á leiðir til að láta sparnaðinn stuðla að sjálfbærari heimi.

Þú gætir einnig haft áhuga á
15. sept. 2021
Hvers vegna eignadreifingarsjóðir?
Þegar þú fjárfestir í eignadreifingarsjóði fjárfestir þú í vel dreifðu eignasafni. Markmið eignadreifingarsjóða er að ná ávöxtun og dreifa áhættu með virkri stýringu á fjárfestingum í íslenskum og erlendum fjármálagerningum.
31. maí 2021
Fjárfestum í framtíðinni
Fjárfestar hafa í auknum mæli tileinkað sér aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga. Ekki að ástæðulausu, þar sem rannsóknir sýna fylgni milli góðs árangurs fyrirtækja í sjálfbærnimálum og arðsemi í rekstri til lengri tíma.
5. nóv. 2020
Loksins skýrar leikreglur: Ný sjálfbærniviðmið Evrópusambandsins
Undanfarin ár hefur verið þrýst á fjármagnsmarkaði að beina fjármagni í verkefni sem stuðla að sjálfbærri framtíð. Samræmdar reglur og viðmið hefur hins vegar skort. Nýtt flokkunarkerfi Evrópusambandsins á sviði sjálfbærra fjármála samræmir verklag og setur sjálfbærniviðmið sem fjármagnsmarkaðir geta stuðst við til að ná markmiðum í loftslagsmálum.
Vindmyllur í Búrfellslundi.
2. mars 2021
Græn fjármögnun er allra hagur
Hjá Landsbankanum hefur um árabil verið lögð áhersla á sjálfbærni. Undanfarið hafa stór skref verið tekin í grænni fjármögnun bankans og starfsemi síðasta árs hefur fengið alþjóðlega vottun á kolefnisjöfnun.
23. júní 2021
Stórt skref að þekkja kolefnislosun frá útlánum
Landsbankinn tók þátt í þróun PCAF loftslagsmælisins sem er alþjóðlegur mælikvarði á óbeina losun gróðurhúsalofttegunda sem verða til við útlán banka.
25. júní 2020
Loftslagsbreytingar auka og breyta áhættu í fjármálageiranum
Áhrif loftslagsbreytinga á fjármálageirann og fjármálafyrirtæki koma aðallega fram eftir tveimur leiðum. Í fyrsta lagi vegna tjóns á eignum, innviðum og landgæðum. Í öðru lagi vegna umbreytingaáhættu, þ.e. áhrifanna af breytingum sem er ætlað að koma í veg fyrir frekari hlýnun, s.s. með nýrri tækni, nýjum reglum og breyttum viðhorfum og væntingum á eigna- og fjármagnsmörkuðum.
24. júní 2020
Beinn og óbeinn kostnaður vegna loftslagsbreytinga
Kostnaður við að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins um að hlýnun haldist innan við 2°C fram til 2050 er gífurlegur. Í því sambandi er mikilvægt að greina á milli kostnaðar til skamms tíma og til lengri tíma. Aðgerðir sem virðast vera mjög dýrar til skemmri tíma geta reynst ódýrar í lengri tíma samhengi vegna þeirrar nýsköpunar sem þær kunna að leiða til. Ekki má heldur gleyma því að aðgerðir sem farið er í strax gætu bætt lífsgæði fólks mikið.
24. júní 2020
Baráttan gegn loftslagsvandanum krefst mikils fjármagns
Hlutverk fjármálageirans er og verður mjög stórt í öllum þeim aðgerðum sem nauðsynlegar eru til þess að ná tökum á loftslagsvandanum. Markmið íslenskra stjórnvalda er að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2040. Fjárfestingaþörfin er gífurleg og til þess að uppfylla þá þörf þarf að beina miklu fjármagni á rétta staði og í rétt verkefni.
Ferðamenn á jökli
9. júní 2021
Tölum íslensku um sjálfbærni
Þegar nýjar hugmyndir, tækni eða aðferðir ryðja sér til rúms á Íslandi koma þær oft erlendis að og fagorðin eru gjarnan á ensku. Það er hætt við því að erlend fagorð torveldi okkur skilning á nýjungum og festi þær í einhverjum fílabeinsturni, sem er miður – nógu erfitt er samt að setja sig inn í umræðuna eða læra á ný tæki.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur