Ný fjár­má­laum­gjörð veg­vís­ir að sjálf­bærri fram­tíð

Bankar víða um heim gefa í síauknum mæli út svokallaðar sjálfbærar fjármálaumgjarðir sem stýra fjármagni í átt að sjálfbærum verkefnum og skilgreina sjálfbær verkefni. Landsbankinn hefur nú bæst í hópinn og gefið út sjálfbæra fjármálaumgjörð í fyrsta sinn. En hvers vegna og hvað þýðingu hefur þessi útgáfa?
Fjöll
27. janúar 2021

Á síðustu árum hefur fjármálaafurðum sem tengjast sjálfbærni fjölgað stöðugt og hefur útgáfa grænna skuldabréfa til að mynda aukist gríðarlega. Á árinu 2020 voru á heimsvísu gefin út græn skuldabréf fyrir um 30 þúsund milljarða króna og heildarútgáfa grænna skuldabréfa var í ársbyrjun 2021 um 130 þúsund milljarðar króna. Útgefendur grænna skuldabréfa hafa einkum verið fyrirtæki eða sveitarstjórnir sem vilja stuðla að sjálfbærni, til dæmis raforkuver með lágt kolefnisspor, borgir sem leitast við að fjármagna umhverfisvæna innviði og einnig bankar.

Fjármagn eyrnamerkt sjálfbærum verkefnum

Bankar gegna lykilhlutverki í sjálfbærri þróun samfélaga því fá fyrirtæki eru jafn samofin öllum lögum samfélaga og í eins sterkri stöðu til að stuðla að breytingum í átt að sjálfbærni. Bankar hafa því verið fyrirferðarmiklir við útgáfu grænna og sjálfbærra skuldabréfa. En fjármálaafurðir sem tengjast sjálfbærni einskorðast ekki við skuldabréf. Bankar hafa einnig boðið innlánsreikninga þar sem fjármagni, sem bankanum er treyst fyrir, er einvörðungu varið í verkefni sem stuðla að sjálfbærni. Einnig geta bankar oft nýtt slíkt fjármagn til að lána fyrirtækjum sem fá tekjur af verkefnum sem stuðla að sjálfbærni. Slíkar fjármálaafurðir njóta sífellt meiri vinsælda, enda vilja viðskiptavinir og fjárfestar oft vita í hvað fjármagninu er varið, hafa skoðun á því hvernig það er notað og vilja hafa góð áhrif á umhverfi og samfélag.

Bankar gefa út sjálfbærar fjármálaumgjarðir (e. sustainable finance framework) sem skilgreina með skýrum hætti hvernig fjármagni, sem aflað er í gegnum skuldabréfaútboð eða innlán, verður varið. Viðskiptavinir geta því kynnt sér það. Fjármálaumgjarðir banka eru yfirleitt víðtækari en fyrirtækja í öðrum geirum, einmitt vegna þess að tengsl banka við fjölda atvinnugreina eru svo víðtæk. Þannig vill banki til dæmis mögulega fjármagna orkuskipti í samgöngum en að auki orkunýtin gagnaver og vistvænar byggingar. Svo breitt svið fjárfestinga er ekki á færi margra fyrirtækja annarra en banka.

Er raunverulega verið að stuðla að sjálfbærni?

Getur viðskipavinur treyst því að fjármagnið renni í raun til verkefna sem stuðla að sjálfbærni? Þegar útgefandi umgjarðar hefur lokið við að setja hana saman, er gjarnan leitað álits þriðja aðila. Slík álit staðfesta gagnvart fjárfestum hvort verkefnin sem útgefandinn telur stuðla að sjálfbærni, geri það í raun. Hér er um strangt ferli að ræða. Álitsgjafinn kallar eftir upplýsingum frá útgefanda um þá verkefnaflokka sem á að fjármagna og gjarnan þarf að færa rök fyrir því hvers vegna flokkar falla undir umgjörðina, hvaða vísindalega þekking liggur að baki og hvernig útgefandinn muni veita fjárfestum upplýsingar um notkun fjármagnsins þegar fram líða stundir. Hér er því um hálfgerða ritrýni að ræða, vottunarferli sem veitir staðfestingu á því hvort útgefandinn muni í raun fjármagna verkefni sem stuðla að sjálfbærni.

Leikreglurnar

Þetta ferli hefur að mestu leyti verið mótað af markaðnum sjálfum. Löggjafarvaldið hefur hingað til að mestu látið þá hlið sem snýr að sjálfbærnimálum skuldabréfaútgáfa ósnerta. Þetta er þó að taka breytingum með nýjum reglum frá Evrópusambandinu sem setja fram viðmið um hverskonar verkefni útgefenda grænna fjármálaafurða, hvort sem það eru innlán eða skuldabréf, styðja í raun við sjálfbærni. Nú geta útgefendur því hætt að finna upp hjólið og stuðst við viðmið Evrópusambandsins. Þetta er frábær þróun og nýttust hin nýju viðmið Evrópusambandsins vel við smíði sjálfbærrar fjármálaumgjarðar Landsbankans.

Sjálfbær fjármálaumgjörð Landsbankans

Landsbankinn hefur nú birt sína fyrstu sjálfbæru fjármálaumgjörð og fékk hún jákvæða umsögn frá Sustainalytics, sem er leiðandi vottunaraðili á þessu sviði á alþjóðavísu. Fjármálaumgjörðin telst framsækin og setur bankanum strangar kröfur um þau verkefni og fyrirtæki sem má fjármagna með fjármagni henni tengdri.

Umgjörðin var þróuð af þverfaglegum hópi innan bankans. Hún er smíðuð eftir viðmiðum Alþjóðasamtaka aðila á verðbréfamarkaði (e. International Capital Market Association (ICMA)) og fyrrnefndum viðmiðum Evrópusambandsins um græna fjármögnun. Þeim síðarnefndu var fylgt í hvívetna, enda allar líkur á að þau verði ríkjandi á sjálfbærum fjármálamörkuðum.

Umgjörðin tekur ekki einungis tillit til núverandi útlána sem stuðla að sjálfbærni, svo sem sjálfbærnivottaðra fiskveiða, endurnýjanlegrar raforkuframleiðslu og orkuskipta í samgöngum, heldur horfir hún einnig fram á veg og opnar á fjármögnun á grænum innviðum framtíðarinnar. Þar má nefna gagnaver með framúrskarandi orkunýtni og aðra innviði sem tengjast fjarskiptaþjónustu sem styður við fjórðu iðnbyltinguna. Umgjörðin opnar einnig á fjármögnun vegna félagslegra verkefna sem stuðla að samfélagslegri uppbyggingu.

Umgjörðin veitir Landsbankanum þannig möguleika á að sækja sér sjálfbæra fjármögnun með fjölbreyttu móti og aðgengi að stærri hópi fjárfesta. Um 30% af útlánasafni bankans uppfyllir nú þegar þær sjálfbærnikröfur sem umgjörðin setur og markmiðið er að það hlutfall hækki þegar fram líða stundir, ekki síst ef niðurstaðan verður sú að hægt verður að bjóða betri kjör á þessu sviði.

Það verður spennandi að sjá hvað nánasta framtíð ber í skauti sér í grænni og sjálfbærri vegferð okkar. Með sjálfbærri fjármálaumgjörð og auknu vöruframboði sem tengist sjálfbærni tekur Landsbankinn þátt í að nýta þær leiðir sem bankanum eru færar til að stuðla að betri framtíð.

Með sjálfbærri fjármálaumgjörð getum við fjármagnað fleiri umhverfisvæn og félagsleg verkefni.

Þú gætir einnig haft áhuga á
5. nóv. 2020
Loksins skýrar leikreglur: Ný sjálfbærniviðmið Evrópusambandsins
Undanfarin ár hefur verið þrýst á fjármagnsmarkaði að beina fjármagni í verkefni sem stuðla að sjálfbærri framtíð. Samræmdar reglur og viðmið hefur hins vegar skort. Nýtt flokkunarkerfi Evrópusambandsins á sviði sjálfbærra fjármála samræmir verklag og setur sjálfbærniviðmið sem fjármagnsmarkaðir geta stuðst við til að ná markmiðum í loftslagsmálum.
13. nóv. 2018
Græn skuldabréf: Fjárfest í grænni framtíð
Hvað eru græn skuldabréf og af hverju hefur útgáfa og áhugi á þeim stóraukist á undanförnum árum? Hrefna Ö. Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri Markaða hjá Landsbankanum og Sigrún Guðnadóttir sérfræðingur hjá Mörkuðum Landsbankans, fjalla um græn skuldabréf og tækifærin og ágóðann sem í þeim felast.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur