Töl­um ís­lensku um sjálf­bærni

Þegar nýjar hugmyndir, tækni eða aðferðir ryðja sér til rúms á Íslandi koma þær oft erlendis að og fagorðin eru gjarnan á ensku. Það er hætt við því að erlend fagorð torveldi okkur skilning á nýjungum og festi þær í einhverjum fílabeinsturni, sem er miður – nógu erfitt er samt að setja sig inn í umræðuna eða læra á ný tæki.
Ferðamenn á jökli
9. júní 2021

Til að tryggja aðgengi allra að umræðunni er því mikilvægt að skýra hugtakanotkun fljótt og vel og, ekki síst, koma sér saman um íslenskun á mikilvægum heitum og hugtökum.

Landsbankinn hefur lengi látið sig málefni samfélagsábyrgðar og sjálfbærni varða. Síðustu árin höfum við lagt enn meiri áherslu á málaflokkinn, enda er það stefna bankans að hámarka jákvæð áhrif starfseminnar á umhverfi og samfélag. Við erum á því að árangur náist helst með samvinnu og samtali. Og það er einmitt helst saman sem við getum náð árangri í átt að sjálfbærni, samfélaginu öllu til framdráttar. Ein af grundvallarstoðum slíks samstarfs hlýtur að vera sameiginlegur skilningur á efninu og orðunum sem við notum til að tala um það.

Sjálfbærni (e. sustainability) vísar í samþættingu þriggja meginstoða: almannahagsmuna, hagnaðar og heimsins (e. people, profit, planet). Í Brundtland-skýrslunni, sem kom út 1987, er sjálfbær þróun skilgreind sem „þróun sem mætir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til þess að mæta þörfum sínum“. Stoðirnar þrjár eru hluti af lokuðu kerfi. Auðlindir jarðar eru takmarkaðar og auðlindanotkun getur ekki farið út fyrir þau endanlegu mörk sem náttúran setur án þess að skaða almannahagsmuni til framtíðar.

Græn fjármögnun (e. green financing) vísar í fjármagn sem eyrnamerkt er umhverfisbætandi verkefnum af ýmsum toga, m.a. því að sporna gegn loftslagsbreytingum. Alþjóðlegir staðlar kveða á um að grænt fjármagn megi nýta til að fjárfesta í umhverfisvænum samgöngum, vistvænum byggingum, framleiðslu/nýtingu endurnýjanlegrar orku og aukinni orkunýtni, fráveitum og meðhöndlun aukaafurða.

Grænþvottur (e. greenwashing) kallast það þegar fyrirtæki skreyta sig með fjöðrum umhverfisverndar og sjálfbærni til að efla orðspor sitt, en á fölskum forsendum. Grænþvottur getur falist í ruglandi merkingum á umbúðum, heimasíðum eða í auglýsingum. Sé ekki raunveruleg innistæða fyrir fullyrðingum fyrirtækja um umhverfisvænar vörur eða vinnu að sjálfbærni teljast þau sek um grænþvott.

Við munum heyra meira um flokkunarreglugerð Evrópusambandsins (e. EU Taxonomy) á næstunni. Flokkunarreglugerðin tók gildi í júlí 2020 og er ætlað að auka gagnsæi í sjálfbærni fyrir fjárfesta, fjármálafyrirtæki og útgefendur fjármálaafurða. Reglugerðin skilgreinir þá starfsemi sem talin er stuðla að sjálfbærni og setur fram viðmið fyrir atvinnugreinar sem uppfylla þarf til að fyrirtæki geti talist stuðla að sjálfbærni.

Skammstöfunin UFS vísar til umhverfismála, félagslegra þátta og stjórnarhátta. UFS (e. environmental, social, governance (ESG)) eru þrjár stoðir sem notaðar eru þegar fyrirtæki eru metin með tilliti til frammistöðu í sjálfbærni. Aðilar sem í sögulegu samhengi hafa veitt lánshæfismat (t.d. Moody‘s, Fitch, S&P) veita nú einnig UFS áhættumat sem aðgengilegt er fjárfestum. Slíkt áhættumat er eitt af því sem fjárfestar horfa nú í auknum mæli til við fjárfestingarákvarðanir.

Hringrásarhagkerfi (e. circular economy) er hugmyndafræði sem snýr að því að losna við alla úrgangsstrauma. Í hinu fullkomna hringrásarhagkerfi verður enginn úrgangur til. Vörur eru hannaðar með allan líftíma þeirra í huga. Úrgangur á einum stað á líftíma vöru skal þannig alltaf einnig nýttur sem hráefni í annað framleiðsluferli.

Ábyrgar fjárfestingar (e. responsible investment) eru fjárfestingaraðferðir sem taka mið af UFS þáttum við fjárfestingarákvarðanir með það að markmiði að draga úr áhættu og skila sjálfbærri ávöxtun til langs tíma.

Kolefnissjálfhelda (e. carbon lock-in) „vísar til þrálætis tækni sem leiðir til mikillar losunar koltvísýrings og kemur í veg fyrir að teknir séu í notkun aðrir og umhverfisvænni möguleikar.“ Dæmi um slíka tækni er t.d. vinnsla á kolum sem orkugjafa, en innviðir slíkrar vinnslu eru mjög dýrir í byggingu en ódýrir í rekstri. „Sjálfheldan myndast vegna þess að önnur tækni, hagþættir og ytra umhverfi eru byggð í kringum og tengjast eldri tækni sem leysir mikinn koltvísýring. Uppbygging slíkrar tækni kann að vera tiltölulega kostnaðarsöm en reksturinn ódýr þannig að markaðsöfl, félagslegir þættir og pólitísk öfl styrkja hana í sessi og erfitt reynist að hætta notkun og leysa tæknina úr sjálfheldu. Því er fjárfesting skipuleggjenda og fjárfesta í eignum sem gjarnan leiða til slíkrar sjálfheldu líkleg til að hamla sveigjanleika í framtíðinni og auka kostnað af að ná umsömdum markmiðum í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.“ Erickson, P., Kartha, S., Lazarus, M., & Tempest, K. (2015). Assessing carbon lock-in. Environmental Research Letters, 10(8), 084023.

Grænt álag (e. greenium) lýsir álaginu sem fjárfestar eru reiðubúnir til að greiða fyrir græna vöru umfram sömu vöru, t.d. skuldabréf, sem ekki er græn. Grænt álag getur verið jákvætt (fjárfestar greiða meira fyrir græna vöru) eða neikvætt (ávöxuntarkrafa á græna vöru er hærra), eða einfaldlega ekki til staðar.

Í Landsbankanum viljum við létta fólki lífið með því að gera fjármálin aðgengilegri. Mikilvægi sjálfbærni í fjármálum eykst stöðugt. Viðleitni okkar til að tryggja aðgengi allra að umræðu um sjálfbærni er hluti af markmiðinu um að einfalda tilveruna fyrir okkur öll.

 

Þú gætir einnig haft áhuga á
Rafbíll í hleðslu
7. júní 2021
Ertu á leiðinni í fyrsta rafbílaferðalagið?
Ferðalög á rafbílum hafa aldrei verið auðveldari og sífellt fjölgar nýjum hraðhleðslustöðvum sem geta hlaðið bílinn nánast til fulls á 10-40 mínútum. Það þarf þó að hafa nokkra hluti í huga áður en lagt er af stað í langferðalag á rafbílnum.
Fjöll
27. jan. 2021
Ný fjármálaumgjörð vegvísir að sjálfbærri framtíð
Bankar víða um heim gefa í síauknum mæli út svokallaðar sjálfbærar fjármálaumgjarðir sem stýra fjármagni í átt að sjálfbærum verkefnum og skilgreina sjálfbær verkefni. Landsbankinn hefur nú bæst í hópinn og gefið út sjálfbæra fjármálaumgjörð í fyrsta sinn. En hvers vegna og hvað þýðingu hefur þessi útgáfa?
Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, Reynir Smári Atlason og Rún Ingvarsdóttir
27. nóv. 2020
Sjálfbærni og græn fjármál
Í þættinum er fjallað um sjálfbær fjármál frá ýmsum hliðum. Hvað eru græn skuldabréf og regnbogafjármögnun? Hver eru raunveruleg umhverfisáhrif fjármálafyrirtækja og hver er þróunin í ábyrgum fjárfestingum?
Vindmyllur
19. nóv. 2020
Mikilvægt að þekkja raunveruleg umhverfisáhrif banka
Í gegnum tíðina hafa umhverfisáhrif banka gjarnan verið talin smávægileg. Bankar eru að upplagi skrifstofufyrirtæki og rekstur þeirra krefst ekki beinnar notkunar á auðlindum eða mengandi efnum í stórum stíl. Bankar og aðrar fjármálastofnanir hafa því ekki verið sett undir sama hatt og verksmiðjur, flugfélög eða önnur starfsemi sem sýnilega hefur bein áhrif á umhverfið. Í dag er hinsvegar gerð skýr krafa um að bankar mæli og greini frá óbeinum umhverfisáhrifum sínum.
5. nóv. 2020
Loksins skýrar leikreglur: Ný sjálfbærniviðmið Evrópusambandsins
Undanfarin ár hefur verið þrýst á fjármagnsmarkaði að beina fjármagni í verkefni sem stuðla að sjálfbærri framtíð. Samræmdar reglur og viðmið hefur hins vegar skort. Nýtt flokkunarkerfi Evrópusambandsins á sviði sjálfbærra fjármála samræmir verklag og setur sjálfbærniviðmið sem fjármagnsmarkaðir geta stuðst við til að ná markmiðum í loftslagsmálum.
4. mars 2020
Landsbankinn tekur þátt í gerð alþjóðlegs loftslagsmælis fyrir fjármálafyrirtæki
Aðalheiður Snæbjarnardóttir, sérfræðingur í samfélagsábyrgð hjá Landsbankanum, segir að eitt viðamesta verkefni sem bankar og fjármálafyrirtæki standi frammi fyrir í samhengi samfélagsábyrgðar sé að meta og greina frá loftslagsáhrifum í gegnum lána- og eignasöfn sín.
17. sept. 2019
Fyrirtæki metin út frá samfélagsábyrgð
Kröfur um að umhverfislegir og félagslegir þættir séu teknir inn í fjárfestingarákvarðanir eru sífellt að aukast. Alþjóðlega eignastýringarfyrirtækið LGT Capital Partners hefur þróað aðferð til að meta fyrirtæki út frá samfélagsábyrgð.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur