Stórt skref að þekkja kol­efn­is­los­un frá út­lán­um

Landsbankinn tók þátt í þróun PCAF loftslagsmælisins sem er alþjóðlegur mælikvarði á óbeina losun gróðurhúsalofttegunda sem verða til við útlán banka.
23. júní 2021

Landsbankinn er stærsti viðskiptabanki landsins og útlán eru um 80% af efnahagsreikningi okkar. Við lánum bæði til einstaklinga og fyrirtækja í öllum atvinnugreinum um allt land. Regluleg mæling á loftslagsáhrifum útlána er því mikilvæg vísbending um árangur Íslands við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, aðallega kolefnis.

Bankar hafa um langt skeið birt upplýsingar um kolefnisspor sitt, en þá er átt við kolefnisspor eigin starfsemi, sem er fyrst og fremst skrifstofurekstur. Mun meiri áhrif liggja í óbeinni losun. Hjá Landsbankanum er kolefnisspor eigin starfsemi aðeins um 1% af því sem við áætlum að sé heildarlosun af okkar rekstri, þ.e.a.s. bæði bein og óbein áhrif. Stærstu áhrifaþættirnir í óbeinni losun eru útlán og fjárfestingar fyrir hönd viðskiptavina í gegnum sjóði. Við tókum því tækifærinu til að taka þátt í, ásamt stórum alþjóðlegum bönkum, frumkvöðlastarfi við þróun á PCAF sem er fyrsti loftslagsmælirinn sem metur með samræmdum hætti hvaða áhrif fjármálaþjónusta hefur á losun gróðurhúsalofttegunda.

Góðu fréttirnar eru að íslensk fyrirtæki huga þegar vel að umhverfismálum og losun kolefnis. Tækifærin liggja ekki í stórum sigrum eða yfirlýsingum. Tækifærin liggja miklu frekar í að vinna fjölmarga litla sigra og ná þannig að bæta okkur með tíð og tíma. Með því að mæla áhrifin getum við beinlínis sýnt fram á betri notkun auðlinda og að við séum markvisst að færast í rétta átt - að því að minnka heildarlosun að teknu tilliti til umfangs starfseminnar.

Orðspor Íslands gerir okkur að leiðtogum í alþjóðasamstarfi

Það er ánægjulegt að vera fyrsti íslenski bankinn sem fer þessa leið. Það var sömuleiðis ánægjulegt að finna hversu eftirsótt við erum í alþjóðasamstarfi á þessu sviði. Íslendingar eru þekktir fyrir að láta sig umhverfið varða og þetta orðspor eykur vægi okkar og áhrif. Við búum svo vel að vera með vel menntað fólk, sérfræðinga á heimsmælikvarða. Með sterkt íslenskt orðspor í farteskinu höfum við náð að magna rödd okkar og vera leiðandi í alþjóðasamstarfi um að draga úr kolefnislosun.

Helsta áskorun banka í loftslagsmálum hefur verið að það vantaði aðferðafræði til að meta óbein umhverfisáhrif. Aðferðafræði PCAF-loftslagsmælisins er afrakstur samstarfs fjármálafyrirtækja og vísindamanna. PCAF tryggir að hægt er að meta óbein umhverfisáhrif á vísindalegan og samræmdan hátt og þessi mælikvarði hefur núna verið tekinn í notkun hjá fjölda fjármálafyrirtækja um heim allan, þar á meðal Landsbankanum.

Við þekkjum okkar kolefnisspor

Til að ná árangri verðum við að vita hvar við stöndum. Síðan setjum við okkur markmið og mælum hvernig gengur og þá skiptir miklu máli að mælingarnar séu samanburðarhæfar við aðra banka. Mælingar á loftslagsáhrifum eiga að vera jafn sjálfsagðar og hver annar mælikvarði á rekstur. Niðurstöðurnar munum við nýta til að móta vöruframboð. Við munum miðla niðurstöðum í gegnum árs- og sjálfbærniskýrslu Landsbankans og við munum reglulega rýna og endurskoða markmiðin. Við ætlum líka að nota hvert tækifæri til að miðla upplýsingum út fyrir landið til að styrkja enn frekar orðspor lands og þjóðar og stuðla þannig að því að Ísland og íslensk fyrirtæki séu fyrsta val í alþjóðlegu samstarfi á sviði loftslagsmála.

Við höfum áætlað kolefnislosun bankans vegna útlána til fyrirtækja, íbúðalána og bílalána. Niðurstöðurnar gefa ágæta mynd af þeim áhrifum sem fyrirtæki og einstaklingar sem eru með lán hjá okkur hafa á umhverfið, enda endurspeglar lánasafnið þá starfsemi sem á sér stað hér á landi.

Fyrirtæki í farþega- og vöruflutningi eru með stærstan hluta óbeins kolefnisspors bankans, eða um 75%. Þær niðurstöður koma ekki á óvart fyrir banka sem starfar í eyríki sem byggir afkomu sína á útflutningi. Flestar vörur þarf auk þess að flytja inn með skipum eða flugvélum og fólk fer til og frá landinu með flugvélum. Útlán til sjávarútvegs skipa einnig stóran sess í óbeinni losun okkar, eða um 10%. Útgerðarfyrirtæki hafa þó dregið gífurlega úr losun sinni á síðustu árum og áratugum og eru leiðandi þegar kemur að sjálfbærri nýtingu auðlinda.

Hluti af óbeinni losun okkar er einnig í gegnum bílalán. Nærtækt dæmi um hvernig bankinn getur haft áhrif er að við bjóðum betri kjör vegna kaupa á vistvænum bílum og stuðlum þannig með beinum hætti að orkuskiptum í samgöngum. Þetta hefur Landsbankinn gert síðastliðin 10 ár.

Orðsporið er okkar forgjöf - nýtum hana

Hvert eitt og einasta fyrirtæki sem ég hef heimsótt í starfi mínu síðastliðin ár hefur unnið ötullega að því að nýta hráefni betur, nýta orku betur, nýta fjárfestingar betur, nýta pláss betur, lágmarka óþarfa flutninga, nýta tíma og þekkingu fólks betur og auka nýtingu véla og tækja.

Í Landsbankanum ætlum við að stuðla að lægri kolefnislosun á Íslandi. Við mælum áhrifin og við berum okkur saman við aðra á alþjóðavísu. Við teljum mikilvægt að vera fyrirmynd, við viljum taka þátt í að auka hróður Íslands í alþjóðasamanburði og við erum stolt af frammúrskarandi íslenskum fyrirtækjum. Við viljum öll að á Íslandi sé gott að búa og til þess þarf að vera gott umhverfi til að fólk og fyrirtæki blómstri. Til þess að við náum því marki verðum við að taka loftslagsmálin mjög föstum tökum. Við erum með gott orðspor í forgjöf og eigum að nýta það.

Þess er ekki langt að bíða að þegar starfsfólk fyrirtækja er spurt hvernig reksturinn gangi þá verði svarið eitthvað á þessa leið: „Hann gengur vel og í fyrra  minnkuðum við kolefnislosun um 3%“. Útreikningur á kolefnislosun verður jafn sjálfsagður hlutur í uppgjöri og upplýsingar um sjóðstreymi og hagnað. Sem banki og leiðandi fjármálafyrirtæki ætlum við líka að standa okkur. Við erum í stöðugri framþróun. Við miðlum upplýsingum og höfum hugfast að tilgangurinn er ná árangri. Það er Landsbanki nýrra tíma.

Þú gætir einnig haft áhuga á
31. maí 2021
Fjárfestum í framtíðinni
Fjárfestar hafa í auknum mæli tileinkað sér aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga. Ekki að ástæðulausu, þar sem rannsóknir sýna fylgni milli góðs árangurs fyrirtækja í sjálfbærnimálum og arðsemi í rekstri til lengri tíma.
Vindmyllur í Búrfellslundi.
2. mars 2021
Græn fjármögnun er allra hagur
Hjá Landsbankanum hefur um árabil verið lögð áhersla á sjálfbærni. Undanfarið hafa stór skref verið tekin í grænni fjármögnun bankans og starfsemi síðasta árs hefur fengið alþjóðlega vottun á kolefnisjöfnun.
Fjöll
27. jan. 2021
Ný fjármálaumgjörð vegvísir að sjálfbærri framtíð
Bankar víða um heim gefa í síauknum mæli út svokallaðar sjálfbærar fjármálaumgjarðir sem stýra fjármagni í átt að sjálfbærum verkefnum og skilgreina sjálfbær verkefni. Landsbankinn hefur nú bæst í hópinn og gefið út sjálfbæra fjármálaumgjörð í fyrsta sinn. En hvers vegna og hvað þýðingu hefur þessi útgáfa?
5. nóv. 2020
Loksins skýrar leikreglur: Ný sjálfbærniviðmið Evrópusambandsins
Undanfarin ár hefur verið þrýst á fjármagnsmarkaði að beina fjármagni í verkefni sem stuðla að sjálfbærri framtíð. Samræmdar reglur og viðmið hefur hins vegar skort. Nýtt flokkunarkerfi Evrópusambandsins á sviði sjálfbærra fjármála samræmir verklag og setur sjálfbærniviðmið sem fjármagnsmarkaðir geta stuðst við til að ná markmiðum í loftslagsmálum.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur