Hvaða rétt og skyldur hafa foreldrar þegar kemur að peningum barna?

Ábyrgð á fjármálum barna
Foreldrar og forsjáraðilar gegna mikilvægu hlutverki í fjárhagslegu uppeldi barna sinna allt til 18 ára aldurs og bera samkvæmt lögum ábyrgð á ávöxtun fjármuna þeirra. Það þýðir þó ekki að foreldrar geti ráðstafað fjármunum barna að vild heldur leggja lögræðislögin okkur ýmsar skyldur á herðar varðandi meðferð fjármuna barna. Lögin kveða til dæmis skýrt á um að við eigum alltaf að halda fjármunum barns aðgreindum frá eigin fjármunum. Lögin segja líka að það þurfi samþykki yfirlögráðanda til allra meiri háttar eða óvenjulegra ráðstafana á fjármunum barns, t.d. til greiðslu kostnaðar af framfærslu eða námi og ef það á að ávaxta eða ráðstafa fjármunum barns sem eru umtalsverðar fjárhæðir. Ef við sem foreldrar misförum með fjármuni barns getum við borið bótaábyrgð gagnvart barninu.
Athugið samt að þrátt fyrir að börn ráði almennt ekki fé sínu þá gera lögin ráð fyrir því að það séu ákveðnir peningar sem barnið á og ræður yfir sjálft, þó ákvörðunarrétturinn geti sætt takmörkunum ef um verulegar fjárhæðir er að ræða. Þessir fjármunir falla í þrjá flokka og eru:
- Sjálfsaflafé - það fé sem barnið hefur sjálft unnið sér inn
- Gjafafé - það fé sem barninu hefur verið gefið án skilyrða
- Annað fé - til dæmis fé sem við afhendum barninu til eigin afnota, eins og vasapeningar.
Búum að fyrstu gerð
Barnið ræður sem sagt yfir peningunum sem það vinnur sér inn, peningum sem það fær gefins og vasapeningum. Það er samt áfram barnið okkar og á okkar ábyrgð. Hér spilar því inn annars konar skylda okkar forsjáraðila, sem er að fræða barnið og kenna því að fara vel með peningana sína. Það getum við gert með því að ræða um gildi peninga, sparnað og eyðslu eftir því sem kostur er miðað við aldur og þroska. Það er snemma hægt að tala um mikilvægi þess að spara og eins taka ákvarðanir með tilliti til skoðana barnsins.
Og það er mikilvægt að byrja snemma, því 9 ára börn geta fengið debetkort og þegar þau verða 13 geta þau almennt stofnað bankareikninga sjálf án aðkomu foreldra eða forsjáraðila. Á þessum aldri, unglingsárunum, fáum við samt að fylgjast með því hvernig barnið fer með peningana, með því að hafa yfirlit yfir fjármál barnsins í netbankanum eða bankaappinu okkar. Fjórtánda aldursárið markar líka ákveðin tímamót, því fyrir mörg börn er það einmitt fermingarárið sem þau fá fyrst eigin peninga til umráða að einhverju ráði og geta skráð sig í vinnuskólann.
Kafla lýkur – nýr hefst
Við hvetjum foreldra og forsjáraðila til að ávaxta fjármuni barna vel með hagsmuni þeirra að leiðarljósi. Það er gott veganesti út í lífið að hafa fengið fræðslu um meðferð fjármuna í uppvextinum og tileinkað sér góðar sparnaðarvenjur. Þegar einstaklingur verður 18 ára fær hann yfirráð yfir öllum fjármunum sínum og aðgangur forsjáraðila fellur niður. Þá skiptir máli að fjárhagslegt uppeldi hafi tekist vel.









