Góð ráð um korta­notk­un og greiðsl­ur í út­lönd­um

Við mælum með að fólk greiði með snertilausum hætti þegar það er á ferðalagi erlendis, annað hvort með Apple Pay, kortaappinu eða með því að nota snertilausa virkni kreditkorta. Það er samt enn nauðsynlegt að taka kortin sjálf með í ferðalagið.
Evrópsk verslunargata
2. maí 2023 - Gyða Gunnarsdóttir

Mjög mörg okkar nota alltaf símann til að greiða fyrir vörur og þjónustu, frekar en kortið. Í flestum tilfellum er síminn líka nauðsynlegur til að klára kaup á netinu. Við notum Landsbankappið í símanum til að fletta upp greiðslukortanúmerum á auðveldan hátt, leita að PIN, frysta kort sem týnast og opna þau aftur. Síminn er nauðsynlegur við innskráningu með rafrænum skilríkjum, með honum geturðu sannað á þér deili t.d. með rafræna ökuskírteininu og ekki má gleyma möguleikanum á að geyma þar farmiðana í flugið.

En eru greiðslukortin sjálf þá orðin óþörf? Svarið er ennþá „nei“ og það á enn frekar við þegar ferðast er til útlanda!

Ég er því búin að bæta símanum við ferðamöntruna og kalla þetta „hina heilögu ferðaþrenningu“. Þrenningin verður að vera með í farteskinu þegar lagt er af stað út í heim. Áður en ég skelli í lás heima með ferðatöskuna í hendi, athuga ég hvort ég sé ekki ábyggilega með mína heilögu ferðaþrenningu: Vegabréf – Visakort – farsíma.

Snertilausar greiðslur eru öruggari, líka í útlöndum

Snertilausar greiðslur, hvort sem er með símanum í gegnum Apple Pay eða Google wallet, Garmin Pay, Fitbit Pay eða með kortunum sjálfum, eru þægilegur greiðslumáti sem auka öryggi til muna. Áhættan á því að óprúttnir aðilar komist yfir PIN á kortunum okkar minnkar stórlega. Áfram er þó sterk auðkenning til staðar sem á eingöngu við okkur sjálf, svo sem lífkenni á borð við fingrafar eða andlit (e. biometrics).

Þurfum kortin til að taka út reiðufé

Þrátt fyrir allar nýjungarnar þarf ennþá kort til að taka út reiðufé í flestöllum hraðbönkum. Einnig er mjög misjafnt hversu langt á veg kaupmenn víðsvegar um heim eru komnir í því að taka á móti greiðslum með farsímum, þrátt fyrir að það hafi stóraukist í kjölfar Covid-faraldursins. Ég myndi þess vegna aldrei fara án korts til útlanda og persónulega tek ég alltaf bæði debet- og kreditkort með mér.

Bilið á milli þess hvort hagstæðara er að nota debet- eða kreditkort til að taka út reiðufé er alltaf að minnka. Visagengi Landsbankans og lágmarksþóknun fyrir reiðufjárúttektir eru eins fyrir bæði debet- og kreditkort og það er ekki fyrr en upphæðin fer yfir um það bil 30.000 íslenskar krónur sem debetkortin hafa vinninginn í lægri kostnaði. Ég nota alltaf debetkortið til að taka út reiðufé í hraðbönkum fyrst það er annað hvort jafngott eða betra, en kreditkortið fyrir allar aðrar greiðslur, því þau bera ekki færslugjöld. Af reiðufjárúttektum erlendis með greiðslukortum greiðast þóknanir samkvæmt verðskrá bankans. Greidd er ákveðin prósenta af upphæðinni sem tekin er út, en aldrei minna en ákveðin lágmarksþóknun. Til að reikna gengi kortafærslna á hverjum tíma í erlendum gjaldmiðlum, flettum við upp Visagenginu, sem finna má á vef bankans.

Er úttektarheimildin nógu há fyrir ferðina?

Ef ekki, má breyta heimild kreditkorta í Landsbankaappinu. Gott er að athuga áður en farið er hversu mikið svigrúm við höfum til að hækka heimildina sjálf og hvort það þurfi að hringja í Þjónustuver eða fara í útibú.

Hafið í huga að mörg hótel og ekki síst bílaleigur, gera kröfu um að gestir og leigutakar leggi fram greiðslukort sem tryggingu og geta tekið frá heimild og haldið henni meðan á ferðinni stendur.

PIN-ið á minnið

Þar sem við nýtum okkur svo oft að greiða snertilaust er meiri hætta á að PIN gleymist. Það er því gott að hressa upp á minnið eða athuga fyrir ferðina hvort við séum ekki í aðstöðu til að fletta þeim upp, t.d. í appinu eða netbankanum. Það gildir áfram að passa kortið og PIN vel, því við erum alla jafna ábyrg fyrir færslum sem staðfestar eru með PIN. Það er alveg ferlegt að lenda í því í miðju áhyggjuleysinu og huggulegheitunum að búið sé að rífa út alla heimildina þannig að við sitjum eftir með tjónið og sárt ennið!

Ef við erum beðin um að staðfesta endurgreiðslu með því að slá inn PIN er gott að hafa varann á. Það er þekkt, en mjög óalgengt, að söluaðilar biðji um PIN þegar verið er að endurgreiða inn á kortin. Vertu því alveg viss um að verið sé að endurgreiða en ekki búa til nýja færslu.

Auðvitað getur komið fyrir okkur öll að gleyma PIN og ef rangt PIN er slegið of oft inn, þá læsist það. Ef þetta gerist þegar korthafi er staddur í útlöndum er í flestum tilvikum hægt að aflæsa því með því að fara í hraðbanka og taka út reiðufé. Gott er að miða við lágmarks úttektarfjárhæð að virði 10-15 þúsund íslenskar krónur.

Úttektir erlendis í íslenskum krónum

Fólk sem er á ferðalögum erlendis er oft spurt hvort það vilji greiða færsluna í sínum eigin gjaldmiðli, í stað gjaldmiðils viðkomandi lands. Alla jafna er dýrara fyrir korthafa að samþykkja erlendu úttektina í íslenskum krónum en mörgum þykir þessi möguleiki þó þægilegur. Við biðjum fólk samt um að skoða upphæðina vel áður en hún er samþykkt. Við fjölluðum nánar um þetta í pistli hér á Umræðunni fyrir nokkrum árum.

Tryggingavernd kreditkorta

Mismunandi er hversu víðtæk tryggingavernd fylgir kreditkortunum og fyrir brottför er gott að renna yfir skilmála tryggingafélagsins Varðar, sem tryggir korthafa Landsbankans. Korthafar sem eru með innifaldar bílaleigutryggingar í kortunum sínum ættu að kynna sér vel yfir hvað þær ná og t.d. í hvaða löndum þær eru takmarkaðar eða gilda ekki.

Korthafar Landsbankans eru tryggðir á ferðalögum hvernig svo sem ferðin var greidd og þurfa ekki að hafa greitt ferðakostnað, fargjald eða gistingu til að virkja hefðbundnar kortatryggingar.

Önnur mikilvæg vernd sem kortin veita eru svo greiðsluverndin og endurkröfurétturinn. Þegar verslanir og þjónustuaðilar geta af einhverjum ástæðum ekki staðið við afhendingu á vörum eða þjónustu getur þetta skipt verulegu máli.

Þjónusta við korthafa allan sólarhringinn

Korthafar Landsbankans njóta sólarhringsþjónustu. Þjónustuver Landsbankans sér um þjónustuna á opnunartíma bankans í síma 410 4000 og í gegnum netspjall. Við svörum einnig erindum sem send eru í tölvupósti á netfangið landsbankinn@landsbankinn.is.

Eftir lokun Þjónustuvers Landsbankans tekur neyðarþjónusta Rapyd við í síma 525-2000.

Gyða skrifaði fyrst pistil um kortanotkun í útlöndum í maí 2018 en uppfærði hann síðast í maí 2023.

Þú gætir einnig haft áhuga á
Greiðsluposi í útlöndum
20. ágúst 2020
Varasamt að velja upphæðina í íslenskum krónum
Fólk á ferðalögum erlendis er oft spurt hvort það vilji greiða með greiðslukorti í sínum eigin gjaldmiðli, í stað gjaldmiðils viðkomandi lands. Hvernig virkar það og er það sniðugt?
10. júní 2022
Hafðu bankann í vasanum í sumarfríinu
Þú getur nýtt þér nánast alla þjónustu bankans í símanum og tölvunni. Í þessari grein er fjallað um nokkrar algengustu aðgerðirnar í appinu og netbankanum sem geta komið sér vel í sumarfríinu.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur