Þetta er gott að vita áður en þú kaup­ir í sjóði

Fjárfesting í verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum er vinsæl leið til að ávaxta sparifé. Almennt má segja að slíkir sjóðir gefi kost á meiri ávöxtun en hefðbundnir sparireikningar, sérstaklega þegar vextir eru lágir. Áhættan er á hinn bóginn meiri og hún er mjög misjöfn á milli sjóða. Því er gott að þekkja nokkur lykilhugtök þegar þú veltir fyrir þér að setja sparnaðinn þinn, eða hluta af honum, í sjóð.
Verðbréf í appi
3. maí 2021 - Teitur Páll Reynisson

Úrvalið af sjóðum er mikið og mikilvægt að finna sjóðinn sem hentar þínum fjárhagslegum markmiðum. Kynntu þér hvern sjóð vel og vandlega áður en þú kaupir í honum. Þú þarft að m.a. að huga að því hversu lengi þú vilt geyma peningana þína í sjóðnum og hversu mikla áhættu þú getur sætt þig við.

Hvers konar sjóðir eru í boði fyrir þig?

  • Lausafjársjóðir geta hentað þeim sem vilja ávaxta sparnaðinn sinn með innlánum, stuttum skuldabréfum og víxlum. Lausafjársjóðir bera almennt litla vaxtaáhættu og fá betri kjör á innlánum í krafti stærðar sinnar.
  • Skuldabréfasjóðir eru sjóðir sem fjárfesta að mestu í skuldabréfum útgefnum af ríki, sveitarfélögum, fjármálafyrirtækjum og fyrirtækjum. Skuldabréfasjóðir geta ýmist hentað til skamms eða langs tíma.
  • Hlutabréfasjóðir fjárfesta aðallega í skráðum og óskráðum innlendum sem og erlendum hlutabréfum. Hlutabréfasjóðir eru ætlaðir sem langtímafjárfesting þar sem sveiflur geta verið talsverðar. Ráðlagður fjárfestingartími er oftast 4 ár eða lengur.
  • Blandaðir sjóðir fjárfesta í dreifðu og blönduðu safni verðbréfa, öðrum sjóðum og innlánum. Með blönduðum sjóði er hægt að ná fram eignadreifingu sem dregur úr áhættu og getur hentað til ávöxtunar til lengri tíma.
  • Kauphallarsjóðir eru með hlutlausa stýringu sem endurspegla tiltekna vísitölu. Viðskipti með slíka sjóði fara í gegnum kauphöll og bera oft á tíðum minni árlegan viðvarandi kostnað en sjóðir með virka stýringu.

Sjóðir sem þessir geta svo verið ýmist verðbréfasjóðir eða fjárfestingarsjóðir. Fjárfestingarsjóðir hafa rýmri fjárfestingarheimildir en verðbréfasjóðir og geta því fjárfest í flóknari fjármálaafurðum. Fjárfestingarsjóðir teljast því áhættumeiri fjárfesting.

Þú getur skoðað fjárfestingarheimildir og áhættuþætti hvers sjóðs í útboðslýsingu, upplýsingablaði og lykilupplýsingum sjóðsins. Það skiptir miklu máli að þekkja heimildir þess sjóðs sem keypt er í og vita þar með í hverju sjóðstjórinn má kaupa.

Áskrift að sjóði

Þú getur skráð þig í mánaðarlega áskrift í sjóðum. Í mánaðarlegri áskrift getur þú valið tiltekna fjárhæð sem er sjálfkrafa skuldfærð af reikningnum þínum í hverjum mánuði. Þessi leið getur hentað vel ef þú vilt byggja upp sparnað til lengri tíma. Í mánaðarlegri áskrift greiðir þú ekkert gjald við kaup í sjóðnum og færð afslátt af afgreiðslugjaldinu. Í reglubundnum sparnaði þarf upphæðin ekki að vera há. Lágmarksfjárhæðin í áskrift er aðeins 5.000 kr. en gott er að hafa í huga að margt smátt gerir eitt stórt.

Afgreiðslugjald

Afgreiðslugjald í verðbréfaviðskiptum hjá Landsbankanum er almennt 450 krónur. Gjaldið er innheimt í hvert skipti sem viðskipti eru framkvæmd. Ef þú annast viðskiptin í netbankanum færðu 50% afslátt af afgreiðslugjaldinu.

Gjald við kaup í sjóðum

Gjald við kaup (einnig nefnt upphafsgjald eða gengismunur) er sú fjárhæð sem þú þarft að greiða þegar þú fjárfestir (kaupir) í sjóðnum og er hlutfall af þeirri fjárhæð sem fjárfest er fyrir. Í tilviki Landsbréfa, sem er dótturfélag Landsbankans og sér um stýringu sjóða bankans, bera flestir sjóðir aðeins gjald við kaup en ekkert gjald við innlausn. Hægt er að skoða hvert upphafsgjald hvers sjóðs er í lykilupplýsingum sjóðsins. Óskir þú eftir kaupum í sjóðum Landsbréfa í netbankanum er veittur 25% afsláttur af upphafsgjaldinu.

Dæmi um áhrif upphafsgjalds eða gjald við kaup


Fjárhæð sem keypt er fyrir í sjóði 100.000 kr.
Upphafsgjald í hlutabréfasjóði (2,0%) 2.000 kr.
Afgreiðslugjald 450 kr.
Fé til ávöxtunar 97.550 kr.
Ávöxtun sjóðs á fyrsta árinu 8,00%
Ávöxtun þín fyrsta árið með tilliti til upphafsgjalds 105.354 kr.
Hlutfallsleg ávöxtun þín fyrsta árið með tilliti til upphafsgjalds 5,35%

Uppgjörstími

Uppgjörstími er fjöldi viðskiptadaga frá því að viðskiptavinur óskar eftir að kaupa eða selja í sjóði og þar til viðskiptin eru afgreidd, annað hvort með því að skuldfæra reikning (ef þú ert að kaupa) eða leggja peninga inn á reikninginn þinn (ef þú ert að selja). Uppgjörstími flestra íslenskra sjóða er 1 til 3 virkir daga. Þetta er gjarnan táknað með T+X, þar sem T stendur fyrir viðskiptadag (e.transaction date) og X er fjöldi daga.

Opnunartími sjóðs

Opnunartími sjóðs er sá tími sólarhrings sem hægt er að óska eftir kaupum og sölu í sjóðum. Flestir sjóðir Landsbréfa eru opnir frá kl. 9:30-14:30 þá viðskiptadaga sem kauphöllin á Íslandi er opin. Ef viðskiptavinur óskar eftir kaupum eða sölu eftir lokunartíma sjóðs er hún afgreidd með þeim pöntunum sem berast á opnunartíma næsta dags.

Fjárfestingarheimildir

Fjárfestingarheimildir eru fyrirfram ákveðnar heimildir sem sjóðstjóra ber að fara eftir við stýringu sjóðs. Þær segja til um hversu hátt hlutfall af fjárfestingum sjóðsins má vera í mismunandi eignaflokkum, eins og skuldabréfum, hlutabréfum o.s.frv. Þú getur skoðað fjárfestingarheimildir sjóða í lykilupplýsingum eða í útboðslýsingu.

Uppgjörsdagur

Uppgjörsdagur er sá viðskiptadagur þar sem skuldfærsla fyrir viðskiptin á sér stað. Ef þú óskar eftir að kaupa í sjóði með uppgjörstíma T+2 þá er reikningurinn þinn skuldfærður tveimur viðskiptadögum eftir að þú óskaðir eftir kaupunum.

Ráðlagður fjárfestingartími

Ráðlagður fjárfestingartími sjóðs er sá tími sem æskilegt er að ávaxta fjármuni í sjóðnum með tilliti til þess hvernig sjóðurinn hefur sveiflast í verði á síðustu árum. Ágætt er að hafa í huga að fjármunir þínir eru ekki bundnir í sjóðnum, fyrir utan þá daga sem það tekur að innleysa úr sjóðnum, sem er oftast 1 til 3 dagar. Það getur hins vegar verið óhagkvæmt að innleysa í sjóði eftir stuttan tíma hafir þú greitt upphafsgjald.

Áhættuþættir

Fjárfesting í sjóðum felur ávallt í sér áhættu. Mikilvægt er að kynna sér helstu áhættuþætti í þeim sjóði sem þú ert að hugsa um að fjárfesta í en í tilfelli sjóða Landsbréfa eru þær upplýsingar aðgengilegar á upplýsingablaði og í útboðslýsingu sem birt er fyrir hvern sjóð. Áhættuþættirnir eru misjafnir á milli sjóða og það borgar sig að kynna sér þá í hverju tilfelli fyrir sig. Meðal áhættuþátta er markaðsáhætta sem felst í að gengi verðbréfa og breytingar á markaðsvöxtum getur sveiflast með ófyrirsjáanlegum hætti. Annar áhættuþáttur er lausafjáráhætta þar sem sú staða getur komið upp að eign seljist ekki tímanlega á ásættanlegu verði. Í sumum sjóðum er líka gjaldmiðlaáhætta og svo má áfram telja.

Áhættuþol

Áhættuþol er einstaklingsbundið og segir til um viðhorf þitt til áhættu. Ráðlagt er að taka minni áhættu eftir því sem aldurinn færist yfir þar sem yngra fólk hefur að jafnaði meira svigrúm til að þola sveiflur í ávöxtun. Ef þú ætlar að fjárfesta til skamms tíma er ekki mælt með að taka mikla áhættu þar sem þú gætir átt von á sveiflum í ávöxtun.

Áhættumælikvarði

Áhættumælikvarði sjóðs á að hjálpa þér að meta áhættuna í sjóðnum og er hann er byggður á sveiflum í vikulegri ávöxtun sjóðsins síðustu fimm ár. Mælikvarðinn er reiknaður samkvæmt leiðbeiningum frá Evrópska verðbréfa- og markaðseftirlitinu (e. ESMA). Flokkur 1 ber minnstu sveiflurnar í ávöxtun en flokkur 7 mestu sveiflurnar og er því talinn áhættumeiri.

Viðverandi gjöld

Viðverandi gjöld er allur sá kostnaður sem til fellur við rekstur sjóðs. Gjöldin eru reiknuð inn í gengi sjóðsins á hverjum degi og eru því ekki innheimt sérstaklega.

Pantaðu sparnaðarráðgjöf

Ef þú ert að velta fyrir þér að spara með því að kaupa í sjóði eða gerast áskrifandi að sjóði, þá getur fyrsta skrefið verið að panta tíma í sparnaðarráðgjöf hjá sérfræðingi bankans. Við tökum vel á móti þér og saman finnum við leiðina sem hentar þínum markmiðum best.

Panta sparnaðarráðgjöf

Höfundur er viðskiptastjóri í Fagfjárfestaþjónustu Landsbankans.

Kona og maður með kaffibolla

Almennur fyrirvari vegna fjárfestinga í sjóðum

Upplýsingar þær sem hér koma fram eru útbúnar af Landsbankanum og eru ætlaðar til almennrar fræðslu og upplýsingar um fjárfestingar í sjóðum.

Landsbankinn er ekki skuldbundinn til að uppfæra efni þessarar greinar eða til að leiðrétta villur sem kunna að koma í ljós síðar. Efni þessarar greinar getur breyst án fyrirvara, s.s. vegna breytinga í lagaumhverfi eða á reglum sjóða. Landsbankinn ber enga ábyrgð á beinu eða óbeinu tjóni sem kann að verða vegna notkunar á efni þessarar greinar.

Efni þessarar greinar er markaðsefni og felur ekki í sér fjárfestingarráðgjöf sbr. lög nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, og hefur Landsbankinn því ekki metið hvort fjárfesting í tilteknum fjármálagerningi eða sjóði sé viðeigandi fyrir einstaka viðskiptavini.

Viðskiptavinir Landsbankans eru ávallt hvattir til að gera sjálfstæða könnun á þeim upplýsingum sem ákvörðun þeirra um fjárfestingu byggir á og leita óháðrar ráðgjafar þar um, þ.m.t. um skattaleg atriði sem kunna að snerta fjárfestinguna.

Viðskipti með fjármálagerninga og sjóði geta verið mjög áhættusöm og ávöxtun í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um ávöxtun í framtíð. Viðskiptavinir eru því sérstaklega hvattir til að kynna sér áhættulýsingu vegna markaðsviðskipta með fjármálagerninga sem aðgengileg er hér til hliðar.

Þú gætir einnig haft áhuga á
Grafarholt
1. júní 2023

Greiðslubyrðin þyngist - hvaða möguleikar eru í stöðunni?

Vextir hafa hækkað sem veldur því meðal annars að greiðslubyrði af óverðtryggðum íbúðalánum er nú töluvert meiri en áður. Þá sjá margir lántakar, sem festu vexti þegar þeir voru hvað lægstir, fram á að borga mun meira af láninu þegar fastvaxtatímabilinu lýkur. Hver eru áhrifin af vaxtahækkununum og hvaða möguleika höfum við til að létta á greiðslubyrðinni?
31. maí 2023

Hvaða áhrif hafa vaxtahækkanir á lánin mín?

Hærri stýrivextir leiða til þess að vextir og mánaðarleg greiðslubyrði á lánum sem eru með breytilega vexti hækka. Þetta á meðal annars við um neytendalán á borð við yfirdrátt og greiðsludreifingu á kreditkortum en mestu munar þó yfirleitt um íbúðalánin.
Evrópsk verslunargata
2. maí 2023

Góð ráð um kortanotkun og greiðslur í útlöndum

Við mælum með að fólk greiði með snertilausum hætti þegar það er á ferðalagi erlendis, annað hvort með Apple Pay, kortaappinu eða með því að nota snertilausa virkni kreditkorta. Það er samt enn nauðsynlegt að taka kortin sjálf með í ferðalagið.
Strákar með hjólabretti
12. apríl 2023

Hvað á að gera við fermingarpeninginn?

Áður voru fermingargjafir oft eigulegir gripir sem hjálpuðu fermingarbarninu inn í nýtt tímabil ævinnar – skatthol, pennar, orðabækur, merkileg skáldverk, hljómtæki, tjöld, armbandsúr eða ferðatöskur.
Íslenskir peningaseðlar
28. mars 2023

Hægt að lækka eða komast hjá þjónustugjöldum

Þjónustugjöldum er ætlað að mæta kostnaði við veitta þjónustu. Grunnþjónusta í appinu og netbankanum er gjaldfrjáls og hægt er að komast hjá því að greiða þjónustugjöld eða lækka þau með því að velja ódýrari eða gjaldfrjálsar þjónustuleiðir sem eru í boði hjá bankanum.
21. mars 2023

Bankaþjónusta fyrir börn og unglinga

Þegar börn verða níu ára geta þau, með samþykki foreldra eða forsjáraðila, fengið debetkort og skoðað bankareikningana sína í appi og netbanka. Þegar börnin verða unglingar við 13 ára aldur þurfa þau ekki lengur slíkt samþykki.
15. feb. 2023

Hvernig virkar greiðslubyrðarhlutfall þegar ég sæki um íbúðalán?

Greiðslubyrðarhlutfall er fyrir mörgum nýyrði þegar kemur að umsóknum um íbúða- og fasteignalán. Útreikningurinn á hlutfallinu – sem er misjafn eftir því hvort lán eru verðtryggð eða óverðtryggð – vefst líka fyrir mörgum.
24. jan. 2023

Auðvelt að bera saman ávöxtun á fjárfestingum

Það er gott að hefja nýtt ár á að fara yfir fjárfestingarnar sínar og skoða hvort maður sé að fá bestu ávöxtunina sem völ er á miðað við eigin markmið og áhættuvilja.
12. jan. 2023

Byrjum árið með góða yfirsýn og setjum okkur sparnaðarmarkmið

Við þekkjum það örugglega mörg að skilja ekkert í því í hvað peningarnir fara og hvers vegna okkur gengur svona hægt að spara. Einföld leið til að breyta þessu er að skapa sér betri yfirsýn yfir fjármálin.
Skipulagning framkvæmda
6. des. 2022

Hvað kostar að taka skammtímalán?

Óvænt útgjöld eða tekjufall geta valdið því að stundum þarf að taka lán til skamms tíma og með litlum fyrirvara. Ýmis skammtímalán eru í boði og það borgar sig að kanna hvar hægt er að fá bestu kjörin.
Vefkökur

Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur