Vikan framundan
- Á þriðjudag birtir Eimskip uppgjör.
- Á miðvikudag birtir Seðlabankinn niðurstöður úr væntingakönnun markaðsaðila, Ferðamálastofa birtir talningu á fjölda ferðamanna um Leifsstöð, Vinnumálastofnun birtir skráð atvinnuleysi og Kvika banki birtir uppgjör.
- Í vikunni fara fram verðmælingar vegna nóvembermælingar vísitölu neysluverðs, en Hagstofan birtir hana fimmtudaginn 25. nóvember.
Mynd vikunnar
Fjöldi unninna vinnustunda jókst milli ára á 3. ársfjórðungi. Þetta er annar fjórðungurinn í röð sem fjöldi vinnustunda eykst milli ára, en þar áður hafði fjöldi vinnustunda dregist saman milli ára samfellt í fimm fjórðunga, eða frá 1. ársfjórðungi 2020 til og með 1. ársfjórðungs 2021. Fjöldi starfanda jókst milli ára, en meðalfjöldi vinnustunda dróst saman. Meðalfjöldi vinnustunda hefur dregist saman milli ára samfellt síðan á 1. ársfjórðungi 2020.
Efnahagsmál
- Niðurstöður úr vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands fyrir 3. ársfjórðung benda til þess að vinnumarkaðurinn sé að taka við sér, en hlutfall starfanda jókst milli ára og atvinnuleysi minnkaði.
- Þriðjungur kaupenda á íbúðamarkaði á 3. ársfjórðungi var að kaupa sína fyrstu íbúð. Að meðaltali keyptu fyrstu kaupendur íbúð sem er 97 fermetrar á stærð og greiddu 45,4 m. kr. fyrir.
- Fjöldi fluga frá Leifsstöð í október var um 70% af fjöldanum í október 2019. 72% farþega um Leifsstöð í október voru erlendir. Sem fyrr voru Bandaríkjamenn fjölmennastir (32% erlendra farþega), þar á eftir Bretar (10%), Þjóðverjar (10%) og Danir (5%). Ferðamálastofa birtir síðan talningu á fjölda ferðamanna um Leifsstöð fyrir októbermánuð á miðvikudaginn.
- Enginn tilkynning um hópuppsögn barst Vinnumálastofnun í október.
- Hagstofan birti bráðabirgðatölur um vöruviðskipti í október og tilraunatölfræði um launasummu í ágúst.
- Seðlabankinn birti talnaefni um lífeyrissjóði og efnahag Seðlabankans.
Fjármálamarkaðir
- Sýn og Reginn birtu uppgjör í síðustu viku.
- Arion banki lauk útboði sértryggðra skuldabréfa og Lánamál ríkisins luku útboði ríkisbréfa.