Vikubyrjun 8. ágúst 2023

Vikan framundan
- Í dag birta Icelandair og Play flutningstölur fyrir júlí.
- Á fimmtudag birtir Ferðamálastofa fjölda brottfara um Leifsstöð, Vinnumálastofnun birtir skráð atvinnuleysi og VÍS birtir uppgjör.
Mynd vikunnar
Heildarfjöldi símaáskrifta hér á landi eru um 615 þúsund, samkvæmt gögnum Fjarskiptastofnunar. Þetta samsvarar 1,6 áskriftum á mann, þar af eru farsímaáskriftir 1,3 á mann og fastlínuáskriftir 0,3 á mann. Frá árinu 2010 hefur föstum farsímaáskriftum fjölgað um 73% á meðan fyrirframgreiddum farsímaáskriftum hefur fækkað um 4% og fastlínuáskriftum fækkað um 38%. Á sama tíma hefur landsmönnum fjölgað um 22%. Auk þess sem fastlínuáskriftum hefur fækkað hefur fjöldi mínútna á áskrift úr fastalínu einnig fækkað verulega. Meðalfjöldi mínútna í áskrift fyrir farsíma hélst nokkuð stöðugur þar til 2020, árið sem heimsfaraldurinn skall á, þegar mínútunum fjölgaði nokkuð.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Skráðar gistinætur voru 1.170 þúsund í júní og hafa aldrei verið fleiri í júnímánuði. Þær eru um 160 þúsund fleiri en í júní 2022, þegar júnímetið var síðast slegið. Frá því í júní í fyrra hefur í hverjum mánuði verið slegið met í fjölda gistinótta þegar mánuðurinn er borinn saman við sama mánuð árin áður, að desember undanskildum.
- Matsfyrirtækið Fitch lækkaði lánshæfismat ríkissjóðs Bandaríkjanna úr AAA í AA+. Englandsbanki hækkaði vexti um 0,25 prósentustig. Hækkunin færir stýrivexti þar í landi upp í 5,25% en svo háir hafa þeir ekki verið síðan árið 2008.
- Ekkert skuldabréfaútboð var haldið í síðustu viku.
Hagtölur og markaðsupplýsingar
Fyrirvari
Þessi umfjöllun og/eða samantekt er markaðsefni sem er ætlað til upplýsinga en felur hvorki í sér fjárfestingarráðgjöf né óháða fjárfestingargreiningu. Lagakröfur sem gilda um fjárfestingarráðgjöf og fjárfestingargreiningar eiga því ekki við, þar með talið bann við viðskiptum fyrir dreifingu. Umfjöllunin er unnin út frá opinberum upplýsingum frá aðilum sem Landsbankinn telur áreiðanlega, en bankinn getur ekki ábyrgst réttmæti upplýsinganna. Landsbankinn tekur enga ábyrgð á tjóni sem gæti hlotist af notkun upplýsinganna sem hér eru settar fram. Upplýsingar um fyrri árangur fjármálagerninga eða -vísitalna sýna nafnávöxtun, nema annað sé tekið fram. Ef árangur byggir á erlendum gjaldmiðli getur ávöxtun aukist eða minnkað vegna gengissveiflna. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur. Nánari upplýsingar um fyrri árangur fjármálagerninga og -vísitalna má finna á vef Landsbankans, þ.m.t. um ávöxtun síðastliðinna 5 ára. Verðbréfaviðskipti fela í sér áhættu og eru lesendur hvattir til að kynna sér áhættulýsingu vegna viðskipta með fjármálagerninga og stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra á vef Landsbankans. Landsbankinn er viðskiptabanki sem starfar samkvæmt lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og starfar undir leyfi og eftirliti fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (www.fme.is).








