Vikan framundan
- Á miðvikudag er vaxtaákvörðun hjá Seðlabanka Íslands. Við spáum 0,5 prósentustiga hækkun vaxta og að meginvextir bankans, sjö daga bundin innlán, fari úr 5,5% upp í 6%. Við teljum að vaxtahækkunarferlinu sé ekki lokið og að Seðlabankinn muni þurfa að herða aðhaldið frekar.
- Á fimmtudag birtir Icelandair flutningstölur.
- Á föstudag birtir Play flutningstölur. Seðlabankinn birtir útreikning á raungengi.
Mynd vikunnar
Fjölmörg heimili nýttu tækifærið á meðan vextir voru hvað lægstir til þess að festa vexti á íbúðalánum, annað hvort til þriggja ára eða fimm ára. Á næsta og þarnæsta ári fer fram vaxtaendurskoðun á óverðtryggðum íbúðalánum með föstum vöxtum að fjárhæð 340 milljarða króna. Árið 2025 verður vaxtaendurskoðun á 270 milljörðum króna til viðbótar. Útistandandi lán með veði í íbúðarhúsnæði eru alls 2.350 milljarðar króna, þannig að vaxtaendurskoðun fer fram á fjórðungi fasteignalána á árunum 2023 til 2025. Megnið af þessum lánum voru tekin á mjög hagstæðum kjörum og er alls óvíst hvort slík kjör muni bjóðast þegar vaxtaendurskoðun fer fram. Fjölmörg heimili munu því sjá fram á hærri greiðslubyrði á næstu árum.
Helsta frá vikunni sem leið
- Verðbólgan mældist 9,3% í september. Verðbólga lækkaði milli mánaða annan mánuðinn í röð og hefur lækkað um 0,6 prósentustig síðan hún náði hámarki í 9,9% í júlí. Septembermæling vísitölu neysluverðs rennir frekari stoðum undir þá skoðun okkar að verðbólga hafi náð hámarki í júlí. Við eigum von á að verðbólgan hjaðni hægt næstu mánuði og verði 8,2% í lok árs.
- Gistinætur á skráðum gististöðum voru 1.470 þúsund í ágúst, sem er mesti fjöldi sem hefur mælst í ágústmánuði. Mesti fjöldi sem mælst hefur í stökum mánuði var í júlí í ár þegar gistinæturnar voru 1.550 þúsund. Íslendingar voru á bak við eina af hverjum fimm gistinóttum í ágúst, en hlutfall Íslendinga í skráðum gistinóttum hefur aukist miðað við stöðuna fyrir heimsfaraldurinn. Þrátt fyrir að fjöldi erlendra ferðamanna í ágúst hafi verið um 4% færri en 2019 voru gistinætur þeirra 11% fleiri. Þetta bendir til þess að erlendir ferðamenn séu að gista lengur en fyrir faraldur. Taka skal fram að hluti gistinótta í gegnum Airbnb eru óskráðar og því ekki inni í þessum tölum, sem kann að skekkja myndina.
- Seðlabankinn birti yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar og fjármálastöðugleikaskýrslu. Nefndin gerði engar breytingar að þessu sinni, hvorki á sveiflujöfnunaraukanum né á öðrum stjórntækjum sem hún hefur yfir að ráða.
- Seðlabankinn birti líka Hagvísa.
- Tvö víxlaútboð voru í vikunni. Lánamál ríkisins luku útboði ríkisvíxla og Iceland Seafood lauk víxlaútboði. Lánamál ríkisins birtu ársfjórðungsáætlun fyrir 4F. Af hlutabréfamarkaðinum var helst að frétta að Ölgerðin birti jákvæða afkomuviðvörun.