Vikan framundan
Á þriðjudag birtir Hagstofan desembermælingu vísitölu neysluverðs. Við spáum því að vísitalan hækki um 0,3% milli mánaða og að verðbólgan hækki úr 4,8% í 4,9%. Auk þess birtir Þjóðskrá vísitölu íbúðaverðs, Hagstofan launavísitöluna og Seðlabankinn Hagvísa þennan dag.
Á miðvikudag birtir Hagstofan niðurstöður úr mánaðarlegri vinnumarkaðsrannsókn sinni og Ferðamálastofa birtir samantektina Ferðaþjónusta í tölum.
Mynd vikunnar
Hlutfall af greiðslukortaveltu í verslun sem fer fram í gegnum netið var mun hærra í nóvember en fyrri mánuði ársins, en margar verslanir bjóða upp á sérkjör á sérstökum afsláttardögum í nóvember í netverslun. Aðstæður voru þó betri í ár en í fyrra til þess að heimsækja verslanir og var hlutfall netverslunar því ekki jafn hátt í ár og í fyrra. Sjá nánar Hagsjá: Netverslun og kaup á þjónustu áberandi í nóvember.
Efnahagsmál
Gögn um kortaveltu, sem Seðlabankinn birti í síðustu viku, benda til þess að jólavertíðin hafi farið vel af stað. Alls jókst kortavelta um 20% milli ára í nóvember miðað við fast verðlag og fast gengi, þar af jókst kortavelta í verslun innanlands um 10% og kortavelta erlendis um 95%. Nóvembermánuður var veltumesti mánuður í kortanotkun Íslendinga erlendis síðan í júlí 2019.
Verð íslenskra sjávarafurða í erlendri mynt hækkaði milli ársfjórðunga á þriðja ársfjórðungi. Hækkunin skýrist einungis af mikilli hækkun botnfisksverðs, en verð á uppsjávarfiski lækkaði.
Afli í nóvember var 97 þúsund tonn samanborið við 64 þúsund tonn í nóvember 2020. Mestu munar um að síldaraflinn var 47 þúsund tonn samanborið við 14 þúsund tonn í fyrra. Þorskafli dróst saman um 2 þúsund tonn og kolmuni jókst um 1,2 þúsund tonn.
Hagdeild HMS birti mánaðarskýrslu.
Ferðamálastofa birti niðurstöðu úr könnun meðal ferðaþjónustuaðila.
Hagstofan birti eftirfarandi talnaefni um 2020: launakostnað á unna stund, rekstrar- og efnahagsreikning, starfandi í menningu og hagur veiða og vinnslu.
Fjármálamarkaðir
Arion banki tilkynnti um áframhald á endurkaupaáætlun og um uppfærð fjárhagsleg markmið.
Sýn lauk sölu á óvirkum farsímainnviðum félagsins.
Reitir luku endurkaupaáætlun.
Lánasjóður sveitarfélaga birti útgáfuáætlun fyrir 2022.
Lánasjóður sveitarfélaga, Arion banki og Eik luku skuldabréfaútboðum.