Vikan framundan
Á þriðjudag birtir Þjóðskrá vísitölu íbúðaverðs.
Mynd vikunnar
Velta innlendra greiðslukorta jókst um 12% að raunvirði milli ára í mars. Eins og í janúar og febrúar skýrist aukningin alfarið af tvöföldun hjá erlendum söluaðilum. Óveruleg breyting var á veltu innanlands. Þessi mikla aukning erlendis ætti ekki að koma á óvart í ljósi mikillar aukningar í utanlandsferðum Íslendinga, en þær voru 77.400 á tímabilinu janúar-mars í ár í samanburði við 11.600 á sama tíma i fyrra. Það að neysla erlendis hafi aukist mun minna en utanlandsferðir skýrist af því að netverslun færist sífellt í aukana. Aukin netverslun gerði það að verkum að neysla á erlendri vöru og þjónustu datt aldrei alveg niður, þrátt fyrir nær engin ferðalög þegar faraldurinn stóð sem hæst.
Efnahagsmál
Brottfarir erlendra farþega frá Keflavíkurflugvelli voru um 101 þúsund í mars. Þetta eru 13% færri farþegar en 2016, en 2016 er það ár sem að kemur næst 2022 varðandi fjölda erlendra ferðamanna. Þetta rímar við að gistinætur ferðamanna voru um 15% færri en í mars 2016. Hins vegar var velta erlendra greiðslukorta hér á landi einungis 3,5% minni (á föstu gengi) nú í mars en í mars 2016.
Velta innlendra greiðslukorta jókst um 12% að raunvirði milli ára í mars. Þar af jókst velta hjá erlendum söluaðilum um 110% og velta í verslunum hér á landi um 0,4%. Velta erlendra greiðslukorta hér á landi sjöfaldaðist milli ára í mars.
Hagstofan birti fjármálareikninga fyrir 2021 og afla í mars.
Fjármálamarkaðir
Ekkert skuldabréfaútboð var í síðustu viku.
Hagtölur og markaðsupplýsingar









