Vikan framundan
- Í dag birta Reitir uppgjör.
- Á þriðjudag birtir Seðlabankinn tölur um greiðslukortaveltu og Þjóðskrá birtir vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu.
- Á miðvikudag er vaxtákvörðun hjá Seðlabanka Íslands og við eigum von á 0,25 prósentustiga hækkun. Samhliða ákvörðuninni birtir Seðlabankinn nóvemberhefti Peningamála með nýrri þjóðhags- og verðbólguspá.
- Á fimmtudag birta Brim og Iceland Seafood uppgjör.
- Á föstudag birtir Hagstofan þjóðhagsspá.
Mynd vikunnar
Samkvæmt útreikningum Orkuskiptanefndarinnar (e. Energy Transition Commission) mun losun Co2 nema 43-45 gígatonnum árið 2030 miðað við óbreytt ástand. Framkomin loforð einstakra ríkja ættu að duga til að losunin verði 40 gígatonn 2030. Til þess að markmiðið um takmörkun hitastigs á jörðinni náist þarf losunin hins vegar að fara niður í 19-24 gígatonn. Það vantar því um 17 gígatonna minnkun til þess að markmið náist árið 2030.
Orkuskiptanefnd hefur lagt fram tillögu um hvernig hægt er að ná þessum markmiðum, en tillagan er sambland af samkomulagi um að stöðva eyðingu skóga og endurreisn ýmissa þátta í náttúrunni, minni notkun á kolum, minni umferð á vegum, minni losun vegna framleiðslu og aukna skilvirkni og hagkvæmni í orkunotkun. Sjá nánar Hagsjá: Árangur í loftslagsmálum – leiðin er til og möguleg en dýr og flókin.
Efnahagsmál
- Í síðustu viku fóru fram verðmælingar vegna nóvembermælingar vísitölu neysluverðs, en Hagstofan birtir hana fimmtudaginn 25. nóvember. Við spáum því að vísitalan hækki um 0,5% milli mánaða og að ársverðbólgan hækki úr 4,5% í 5%.
- Skráð atvinnuleysi var 4,9% í október og lækkaði um 0,1 prósentustig milli mánaða. Atvinnuleysið náði hámarki í janúar þegar það var 11,6% og hefur því lækkað um 6,7 prósentustig síðan. Sem fyrr var atvinnuleysi hæst á Suðurnesjum og lægst á Norðurlandi vestra.
- Alls fóru 103 þúsund erlendir ferðamenn um Leifsstöð í október sem eru 37% færri en í október 2019. Það sem af er ári hafa 548 þúsund erlendir farþegar farið um Leifsstöð sem er fækkun um 68% miðað við sama tímabil 2019.
- Seðlabankinn birti niðurstöður úr væntingakönnun markaðaðila sem fór fram í byrjun mánaðarins. Miðað við miðgildi svara vænta markaðsaðilar þess að verðbólga nái hámarki núna á 4F 2021 en lækki strax á næsta fjórðungi og verði komin í 3,0% á 4F 2022. Engin breyting var frá könnuninni fyrir þremur mánuðum á miðgildi væntinga á meðalverðbólgu fyrir næstu fimm ár eða næstu tíu ár.
- Hagdeild HMS birti mánaðarskýrslu.
- Hagstofan birti tilraunatölfræði um gistinætur í október og eldsneytissölu á 3. ársfjórðungi.
Fjármálamarkaðir
- Eimskip og Kvika banki (fjárfestakynning) birtu uppgjör í síðustu viku.
- Icelandair birti flutningstölur fyrir október.
- Landsbankinn og Reykjavíkurborg héldu skuldabréfaútboð.
- Við birtum mánaðarlegt yfirlit yfir gjaldeyrismarkaðinn í október.
- Lánamál ríkisins birtu mánaðarlega rit sitt Markaðsupplýsingar.