Vikan framundan
Í vikunni fara fram septembermælingar vegna vísitölu neysluverðs, en Hagstofan birtir hana miðvikudaginn 28. september.
Á miðvikudag birtir Seðlabankinn tölur um greiðslumiðlun í ágúst.
Mynd vikunnar
Flest ríki eru núna að berjast við mikla verðbólgu. Þó vandamálið sé svipað að stærðargráðu víðsvegar í heiminum geta ástæðurnar fyrir hárri verðbólgu verið af ýmsum toga. Þannig skýrist meirihluti verðbólgunnar á evrusvæðinu af hækkunum á matvælum og orku, sem aftur skýrist af framboðsvanda, þ.e. skertu framboði. Mun stærri hluti verðbólgunnar í Bandaríkjunum stafar af þjónustu, sem skýrist af aukinni eftirspurn í kerfinu. Munurinn á þessu tvennu er að peningastefna getur haft áhrif á eftirspurn en ekki á framboð. Hvorki matvæli, orka né þjónusta eru mjög stór hluti verðbólgunnar hér á landi, heldur er það húsnæðisverð sem er helsti drifkraftur hennar og miklar hækkanir á húsnæðisverði koma að stóru leyti til vegna aukinnar eftirspurnar.
Helsta frá vikunni sem leið
Tölur um fjöldi erlendra farþega um Leifsstöð, sem Ferðamálastofa birti í síðustu viku, benda til þess að ferðaþjónustan hafi náð fyrri styrk. Alls fóru 243 þúsund erlendir farþegar frá landinu í gegnum Leifsstöð í ágúst, sem er 3% færri en í ágúst 2019, árið áður en heimsfaraldurinn skall á. Þetta er annar mánuðurinn í röð sem fjöldinn er svipaður og í sama mánuði 2019. Icelandair og Fly Play birtu í vikunni flutningstölur fyrir ágúst sem segja svipaða sögu.
Seðlabankinn birti í síðustu viku fundargerð peningastefnunefndar. Eins og við var að búast voru allir nefndarmenn þeirra skoðunar að áfram þyrfti að hækka vexti bankans. Rætt var um hækkun á bilinu 0,5-1,0 prósentustig. Allir nefndarmenn greiddu atkvæði með 0,75 prósentustiga hækkun, en Gylfi Zoëga hefði þó kosið 1,0 prósentustiga hækkun. Þetta er annar fundurinn í röð sem Gylfi vildi hækka meira en úr varð.
Í vikunni kom í ljós misræmi í tölum Seðlabankans um fjármálareikninga fjármálafyrirtækja og voru tölurnar teknar tímabundið úr birtingu. Svo virðist sem útlán til atvinnufyrirtækja hafi verið ofmetin, en samkvæmt tölunum sem SÍ birti á sínum tíma áttu útlán til atvinnufyrirtækja að hafa aukist um 240 milljarða króna á 2F. Þetta kann að hafa leitt til ofmats á spennu í hagkerfinu.
Skráð atvinnuleysi var 3,1% í ágúst sem er 1,4 prósentustigum lægra en í ágúst 2021. Atvinnuleysið er núna svipað og byrjun árs 2019, en það fór lægst rétt undir 1,8% sumarið 2017 þegar uppgangur ferðaþjónustunnar var sem mestur.
Tvö skuldabréfaútboð voru í síðustu viku, skuldabréfaútboð Reykjavíkurborgar og útboð ríkisbréfa. Auk þess birtu Lánamál ríkisins Markaðupplýsingar.
Hagtölur og markaðsupplýsingar









