Viðsnúningur í kortaveltu
Seðlabanki Íslands birti í gær gögn um veltu innlendra greiðslukorta í mars. Alls nam velta tengd verslun og þjónustu innanlands 74 mö.kr. og jókst um 24% milli ára miðað við fast verðlag. Kortavelta Íslendinga erlendis nam alls 9 mö.kr. og dróst saman um 2% milli ára miðað við fast gengi. Samanlagt jókst kortavelta um 20% milli ára í mars miðað við fast gengi og fast verðlag sem er mikil breyting frá því sem verið hefur síðustu mánuði.
Það mátti búast við því að viðsnúningur á 12 mánaða þróun myndi mælast nokkur í mars þar sem nú er verið að bera saman tímabil þar sem takmarkanir á neyslu fólks vegna Covid-faraldursins voru við lýði bæði fyrir og eftir. Ef við berum tölur marsmánaðar í ár saman við marsmánuð 2019, þegar engin áhrif voru af Covid-faraldrinum, sést að kortavelta innanlands eykst um 15% miðað við fast verðlag en dregst saman um 44% erlendis miðað við fast gengi.
Á fyrsta ársfjórðungi mældist kortavelta Íslendinga alls 2% meiri en í fyrra, mæld á föstu verðlagi. Kortavelta innanlands jókst um 11% en dróst saman um 35% erlendis. Þetta er í fyrsta sinn síðan á fjórða ársfjórðungi árið 2019 sem aukning mælist milli ára í kortaveltu Íslendinga á stökum ársfjórðungi. Miðað við þetta má gera ráð fyrir því að við sjáum einnig lítils háttar aukningu í einkaneyslu milli ára á fjórðungnum en einkaneysla hefur fylgt þróun kortaveltu nokkuð náið frá því að faraldurinn hófst.