Verulegar hækkanir á hlutabréfamörkuðum í júlí
Af þeim 22 félögum sem skráð eru á aðallista kauphallarinnar voru 19 sem hækkuðu í verði en einungis 3 sem lækkuðu. Mesta hækkunin var hjá Icelandair Group sem hækkaði um ríflega þriðjung í mánuðinum. Næstmesta hækkunin var hjá Eimskip sem hækkaði um rúmlega 20%. Þriðja mesta hækkunin var síðan hjá Origo, 16,4%. Verðþróun nýju félaganna í kauphöllinni, Nova og Ölgerðarinnar var misjöfn í mánuðinum. Nova lækkaði um 2,5% en Ölgerðin hækkaði um 5,3%. Félögin voru sett á markað í júní og var sama þróun uppi á teningnum á þeim mánuði. Nova lækkaði í verði og Ölgerðin hækkaði. Útboðsgengi Nova var 5,11 en útboðsgengi Ölgerðarinnar var 8,9. Frá þeim verðum hefur Nova lækkað um 10,4% en Ölgerðin hefur hækkað um 14,6%. Hin félögin sem lækkuðu í júlí voru Síminn, sem lækkaði um 3,4% og Reginn sem lækkaði um 4,1%.