Verulega aukinn áhugi almennings á hlutabréfum
Margir töpuðu miklu á hlutabréfum í hruninu og traust almennings á hlutabréfamarkaðnum beið mikinn hnekk. Svo virðist hins vegar sem traust almennings á hlutabréfamarkaði hafi vaxið verulega á síðasta ári. Fjöldi einstaklinga sem áttu hlutabréf í Kauphöllinni í lok ársins 2019 var tæplega 8.800. Í lok síðasta árs var þessi fjöldi kominn upp í tæplega 17.000 og hafði tæplega tvöfaldast milli ára. Mest af aukningunni má rekja til mikils áhuga á hlutafjárútboði Icelandair Group í september. Þá fjölgaði almennum hluthöfum félagsins úr 4 þúsund upp í 11 þúsund, eða um 7 þúsund manns. Viðskipti hafa líka aukist mikið á markaðnum og hefur það verið rakið til aukinnar þátttöku almennings á hlutabréfamarkaði.