Verð­bólg­an 7,7% - hjaðn­ar óvænt í des­em­ber

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,41% milli mánaða í desember og við það hjaðnaði ársverðbólga úr 8,0% í 7,7%. Kostnaður við búsetu í eigin húsnæði hafði mest áhrif til hækkunar en hækkar þó minna en við gerðum ráð fyrir. Flugfargjöld hækkuðu mun minna en við héldum og er sá liður sem kemur mest á óvart.
Fjölbýlishús
21. desember 2023

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,41% á milli mánaða í desember, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólga lækkar því hressilega úr 8,0%, í 7,7% í desember. Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði um 0,26% á milli mánaða og ársbreytingin lækkar úr 7,2% í 6,7%.

Minni hækkun en við bjuggumst við

Vísitalan hækkaði nokkuð minna milli mánaða en við bjuggumst við, en við spáðum 0,76% hækkun milli mánaða og að verðbólgan myndi aukast í 8,1%.  

  • Flugfargjöld til útlanda hækkuðu einungis um 5,1% milli mánaða, en við höfðum spáð 19,4% hækkun.
  • Reiknuð húsaleiga hækkaði um 0,8% milli mánaða, en við spáðum 1,1%. Bæði hækkunin á markaðsverði húsnæðis (0,32% í stað 0,50%) og framlag vaxtabreytinga (0,53% í stað 0,62%) voru minni en við héldum.
  • Verð á matarkörfunni var nokkurn veginn óbreytt milli mánaða (+0,1%) en við spáðum 0,5% hækkun.
  • Húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. lækkuðu um 1,3% milli mánaða, en við gerðum ráð fyrir 0,7% hækkun. Til dæmis lækkuðu sængurfatnaður og handklæði um 6,2% og raftæki um 4,5%.

Flugfargjöld hækkuðu ekki mikið í desember

Mæling Hagstofunnar kom nokkuð þægilega á óvart í þetta skiptið. Mestu munaði á spá okkar og mælingar Hagstofunnar á verði á flugfargjöldum til útlanda sem hækkaði töluvert minna en við gerðum ráð fyrir. Flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 5,1% milli mánaða í desember en við höfðum spáð 19,4% hækkun. Verð á flugfargjöldum til útlanda hækkar alla jafna í desember, og yfirleitt töluvert meira en nú. Einkaneysla hefur dregist saman og Íslendingar hafa fækkað utanlandsferðum sem gæti haft áhrif til lækkunar á flugfargjöldum. Einnig gæti það skýrst af minni aðsókn erlendra ferðamanna vegna óvissu í tengslum við jarðhræringar á Reykjanesskaga. Í desember í ár var ódýrara að fljúga til útlanda en í sama mánuði í fyrra, en hingað til hafa flugfargjöld verið hærri á þessu ári en því síðasta.

Kostnaður við búsetu í eigin húsnæði hækkar

Reiknuð húsaleiga hækkaði um 0,8% (+0,17% áhrif á vísitöluna) milli mánaða í desember þar sem markaðsverð íbúðarhúsnæðis hækkaði um 0,3% en áhrif vaxta voru 0,5% til hækkunar. Markaðsverð íbúðarhúsnæðis hækkaði því minna en við höfðum gert ráð fyrir og áhrif vaxta voru einnig aðeins minni en við höfðum spáð. Markaðsverð íbúðarhúsnæðis sem Hagstofan reiknar tekur tillit til landsins í heild, en fyrr í mánuðinum gaf HMS út vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu og sú vísitala hækkaði um 0,1% milli mánaða, þar sem fjölbýli hækkaði um 0,4% og sérbýli lækkaði um 0,8%. Mæling Hagstofunnar sýndi líka 0,4% hækkun á fjölbýli en 0,5% lækkun fyrir sérbýli. Samkvæmt mælingu Hagstofunnar hækkaði íbúðaverð utan höfuðborgarsvæðisins um 0,7% milli mánaða í nóvember.

Framlag húsnæðis til ársverðbólgu hækkar en aðrir liðir lækka

Ársverðbólga lækkaði um 0,3 prósentustig á milli mánaða og er nú 7,7%. Framlag húsnæðis til ársverðbólgu jókst aftur á milli mánaða og fór hlutur þess úr 2,7 prósentustigum í 2,8 prósentustig. Aðrir liðir lækka, þar sem hlutur innfluttra vara án bensíns lækkar úr 1,9 prósentustigum í 1,8 prósentustig. Hlutur innlendra vara lækkar úr 1,4 prósentustigum í 1,3 og hlutur þjónustu lækkar úr 2,2 prósentustigum í 2,1. Hlutur bensíns hefur aðeins minni áhrif til lækkunar en í síðasta mánuði en er áfram í kringum 0,1 prósentustig.

Kjarnavísitölur verðbólgunnar segja til um þróun undirliggjandi verðbólgu og eru ágætis mælikvarði á það hvort verðbólga fari raunverulega hjaðnandi, eða hvort þróun í hverjum mánuði skýrist aðallega af sveiflum í liðum sem eru almennt sveiflukenndir. Undirliggjandi verðbólga, þar sem búið er að fjarlægja sveiflukennda liði, lækkar á milli mánaða í desember. Árshækkun allra fjögurra kjarnavísitalnanna lækkar á milli mánaða en það hefur ekki gerst síðan í júlí, þegar verðbólga fór úr 8,9 í 7,6%.

Gerum ráð fyrir 6,5% verðbólgu í febrúar og mars

Við uppfærum lítillega verðbólguspá okkar til næstu mánaða. Núna gerum við ráð fyrir að vísitalan hækki um 0,22% í janúar, 0,89% í febrúar og 0,59% í mars. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan mælast 7,1% í janúar, 6,5% í febrúar og 6,5% í mars.

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
6. júní 2024
Mánaðaryfirlit yfir sértryggð skuldabréf - maí 2024
Meðfylgjandi er mánaðarlegt yfirlit sértryggðra skuldabréfa.
Flutningaskip
5. júní 2024
Aukinn halli á viðskiptum við útlönd
Alls var 41 ma. kr. halli á viðskiptum við útlönd á fyrsta ársfjórðungi. Hallinn jókst nokkuð milli ára. Þrátt fyrir þetta batnaði erlend staða þjóðarbúsins á fjórðungnum.
4. júní 2024
Fréttabréf Hagfræðideildar 4. júní 2024
Mánaðarlegt fréttabréf frá Hagfræðideild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
3. júní 2024
Vikubyrjun 3. júní 2024
Landsframleiðsla dróst saman um 4% á fyrsta ársfjórðungi og verðbólga mældist 6,2% í maí, aðeins umfram spár.
Fiskiskip á Ísafirði
31. maí 2024
Samdráttur á fyrsta ársfjórðungi
Hagkerfið dróst saman um 4% á milli ára á fyrsta ársfjórðungi samkvæmt nýbirtum þjóðhagsreikningum Hagstofunnar. Þetta er í fyrsta sinn síðan árið 2021 sem landsframleiðsla dregst saman á milli ára. Samdrátturinn skýrist helst af minni birgðasöfnun vegna loðnubrests. Einkaneysla og fjárfesting jukust aftur á móti á fjórðungnum sem er til marks um eftirspurnarþrýsting.
Íbúðahús
30. maí 2024
Verðbólga jókst þvert á spár
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,58% á milli mánaða í maí og við það hækkaði ársverðbólga úr 6,0% í 6,2%. Hækkanir voru á nokkuð breiðum grunni og meiri en við bjuggumst við. 
Þjóðvegur
29. maí 2024
Margra ára hallarekstur og óskýrar mótvægisaðgerðir
Stjórnvöld sjá fram á að rétta smám saman úr ríkisrekstrinum á næstu árum en gera ekki ráð fyrir afgangi fyrr en árið 2028, eftir níu ára samfelldan hallarekstur. Hallarekstur var viðbúinn í faraldrinum en almennt er óæskilegt að ríkissjóður sé rekinn með halla í uppsveiflu og á tímum mikillar þenslu og verðbólgu. Við teljum að áfram verði reynt að halda aftur af opinberri fjárfestingu og að samneysla aukist aðeins minna á næstu árum en undanfarin ár.
Mynt 100 kr.
27. maí 2024
Krónan stöðug en Ísland verður dýrara
Krónan hefur verið óvenju stöðug frá því í nóvember í fyrra. Við teljum að krónan styrkist lítillega á þessu ári og að raungengið hækki þar sem verðbólga verði meiri hér en í helstu viðskiptalöndum okkar.
Fasteignir
27. maí 2024
Vikubyrjun 27. maí 2024
Velta á íbúðamarkaði hefur aukist á síðustu mánuðum og kaupsamningum fjölgað. Undirritaðir kaupsamningar á höfuðborgarsvæðinu í apríl í ár voru meira en tvöfalt fleiri en í apríl í fyrra.
Fiskveiðinet
22. maí 2024
Botnfisksveiðar vega upp á móti loðnubresti
Heildarafli íslenskra fiskiskipa dróst saman í fyrra og útflutningur sjávarafurða var 7,9% minni í fyrra en árið á undan. Aflaheimildir á þorski hafa dregist saman nokkur ár í röð en nú virðist þróunin vera að snúast við þar sem þorskkvóti var aukinn um 1% fyrir yfirstandandi veiðitímabil. Loðnuvertíð síðasta árs var mjög góð en í ár verður engin loðna veidd. Í nýlegri hagspá gerum við ráð fyrir hóflegum vexti í útflutningi sjávarafurða.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur