Verðbólgan 6,7% og hjaðnar meira en búist var við
Vísitala neysluverðs lækkaði um 0,16% á milli mánaða í janúar, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólga lækkar því hressilega annan mánuðinn í röð og fer úr 7,7% í 6,7% í janúar. Verðbólgan hefur því lækkað um 1,3 prósentustig á tveimur mánuðum. Vísitala neysluverðs án húsnæðis lækkaði enn meira, eða um 0,50% á milli mánaða og ársbreytingin fer því úr 6,7% í 5,2%.
Aftur meiri lækkun en við spáðum
Sem fyrr segir lækkaði vísitalan um 0,16% milli mánaða í janúar, en við spáðum 0,30% hækkun. Það lítur út fyrir að verðbólguþrýstingur hafi minnkað töluvert. Þó verður að athuga, eins og stendur í frétt Hagstofunnar, að ákveðinn hluti gjaldskrárhækkana sem tengjast liðnum „044 Annað vegna húsnæðis“ koma fyrst inn í mælingar á vísitölunni í febrúar.
- Reiknuð húsaleiga hafði mest áhrif til hækkunar og hækkaði um 0,9% (+0,18% áhrif á vísitöluna) milli mánaða í janúar en við spáðum 1,1%.
- Útsölur á fötum og skóm lækkuðu verð um 9,2% (-0,36% áhrif á vísitöluna), nokkurn veginn í takt við okkar spá. Húsgögn og heimilisbúnaður lækkuðu um 5,0% (-0,29% áhrif á vísitöluna) en við höfðum spáð 3,5% lækkun.
- Flugfargjöld til útlanda lækkuðu, þvert á væntingar, um 11,4% (-0,21% áhrif á vísitöluna). Við höfðum spáð 2,3% hækkun.
- Verð á nýjum bílum hækkaði einnig töluvert minna en við höfðum spáð. Breytingar á styrkjum til kaupa á hreinorkubílum höfðu því minni áhrif en við gerðum ráð fyrir. Verð á nýjum bílum hækkaði einungis um 0,7% en við höfðum spáð 3,5% hækkun.
- Verð á matarkörfunni hækkaði um 0,5% (+0,08 áhrif á vísitöluna) en við spáðum 0,9% á milli mánaða.
Flugfargjöld lækkuðu hressilega í janúar
Það sem mest bar á milli okkar spár og vísitölunnar í janúar voru flugfargjöld til útlanda, rétt eins og í desember. Í desember hækkuðu þau einungis um 5,1% milli mánaða, en við höfðum spáð 19,4% hækkun. Við gerðum ráð fyrir að verðið í janúar myndi bæta upp fyrir þessa litlu hækkun í desember og spáðum 2,3% hækkun. Þvert á okkar spá lækkuðu flugfargjöld í janúar um 11,4%. Minni verðþrýstingur í flugfargjöldum er í takt við minni innilenda eftirspurn. Einkaneysla hefur tekið að dragast saman og Íslendingar hafa fækkað utanlandsferðum.Í janúar í ár kostaði jafn mikið að fljúga til útlanda og í janúar 2022 og því ljóst að flug er hlutfallslega mun ódýrara en það var fyrir tveimur árum í samanburði við aðrar vörur og þjónustu.
Hagstofan boðar nýja aðferðafræði við húsnæðisliðinn
Reiknuð húsaleiga hækkaði um 0,9% (+0,18% áhrif á vísitöluna) milli mánaða í janúar og hefur nú hækkað fimm mánuði í röð. Markaðsverð íbúðarhúsnæðis hækkaði um 0,25% en áhrif vaxta voru 0,7% til hækkunar. Markaðsverð íbúðarhúsnæðis hækkaði því minna en við höfðum gert ráð fyrir en áhrif vaxta voru aðeins meiri en við höfðum spáð. Samkvæmt mælingu Hagstofunnar hækkaði verð á fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu um 0,03% og verð á sérbýli um 0,7%. Samkvæmt mælingu Hagstofunnar hækkaði íbúðaverð utan höfuðborgarsvæðisins um 0,4% milli mánaða í desember.
Í frétt Hagstofunnar kemur fram að vegna nýrra og betri gagna um leigumarkað hafi skapast forsendur til að innleiða nýja aðferð og reikna svokölluð leiguígildi. Hvorki er augljóst að þessi breyting hafi áhrif til hækkunar né lækkunar á vísitölunni og með öllu óljóst hvort hún hafi áhrif á vægi húsnæðis í vísitölu neysluverðs. Þó má ætla að með breyttri aðferðafræði dragi úr sveiflum í mælingunni.
Dregur úr verðbólguþrýstingi
Kjarnavísitölur verðbólgunnar segja til um þróun undirliggjandi verðbólgu og eru ágætis mælikvarði á það hvort verðbólga fari raunverulega hjaðnandi eða hvort þróun í hverjum mánuði skýrist aðallega af sveiflum í liðum sem eru almennt sveiflukenndir. Allar kjarnavísitölurnar sem Hagstofan birtir lækkuðu milli mánaða í janúar, annan mánuðinn í röð.
Gerum ráð fyrir að verðbólga hjaðni áfram næstu mánuði
Við spáum því nú að vísitalan hækki um 0,9% í febrúar, 0,71% í mars og 0,22% í apríl. Gangi spáin eftir mun verðbólga mælast 6,1% í febrúar, 6,3% í mars og 5,1% í apríl. Spáin er um 0,6 prósentustigum lægri en sú sem við birtum í síðustu verðkönnunarviku. Munurinn skýrist aðallega af því að verðbólgan hjaðnaði meira í janúar en við bjuggumst við. Auk þess höfum við uppfært spána um flugfargjöld næstu mánuði og gerum nú ráð fyrir minni verðhækkunum en áður.