Verðbólga yfir 6% í fyrsta sinn síðan 2012
Þetta er mesta verðbólga sem hefur mælst síðan í apríl 2012 þegar 6,4% verðbólga mældist, en í þeim verðbólgukúfi fór verðbólgan hæst í 6,5% í janúar 2012.
Mest áhrif til hækkunar milli mánaða í febrúar höfðu húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. (+7,5% milli mánaða, 0,47% áhrif), reiknuð húsaleiga (+1,2% milli mánaða, +0,22% áhrif), matur og drykkjarvörur (+0,8% milli mánaða, +0,11% áhrif) og bensín og olíur (+3,6% milli mánaða, +0,11% áhrif). Flugfargjöld til útlanda lækkuðu um 9,7% milli mánaða (-0,14% áhrif).
Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði um 1,26% milli mánaða og mælist 4,2% verðbólga á þann mælikvarða í samanburði við 3,7% í janúar. Árshækkun allra fjögurra kjarnavísitalnanna sem Hagstofan reiknar hækkaði milli mánaða. Árshækkun kjarnavísitölu 1, 2 og 3 jukust allar um 0,5 prósentur milli mánaða, en árshækkun kjarnavísitölu 4 jókst aðeins minna, eða um 0,3% prósentur milli mánaða.