Verðhækkanir á mat og drykk hafa verið mun minni hér á landi en víðast hvar annars staðar og orkukostnaður hefur hækkað margfalt minna. Þessu til viðbótar er verðbólga hér á landi byrjuð að hjaðna, öfugt við flest önnur lönd Evrópu, þar sem enn sjást engin merki hjöðnunar.
Einungis eitt land í Evrópu með minni verðbólgu en við
Verðbólga hér á landi mæld með samræmdri vísitölu neysluverðs (SVN) í Evrópu var 6% í september en verðbólga á mælikvarða neysluverðsvísitölunnar (VNV), sem er sú verðbólga sem við tölum jafnan um hér á landi, var á sama tíma 9,3%. Munurinn á þessum tveimur verðbólgutölum liggur fyrst og fremst í því að SVN undanskilur fasteignaverðsþróun í hverju landi í verðmælingunni en fasteignaverðsþróun hefur verið megindrifkraftur verðbólgu hér á landi. SVN er mæld og reiknuð í 36 löndum í Evrópu og sé litið til septembermánaðar var einungis eitt land með minni verðbólgu en við. Þetta var Sviss en þar var verðbólga 3,2% á mælikvarða SVN. Það land sem kom næst á eftir okkur var Frakkland með 6,2% verðbólgu og því næst Malta með 7,4%. Á Norðurlöndunum lá verðbólgan á bilinu 7,7% (Noregur) til 11,2% (Danmörk). Sé horft til Vestur-Evrópulanda var verðbólgan mest í Hollandi, eða 17,1%, en þar á eftir kom Grikkland með 12,1% verðbólgu, sömuleiðis mæld með SVN. Af þessum 36 löndum er verðbólga langmest í Tyrklandi en þar er hún 83%. Verðbólga á evrusvæðinu var 9,9% í september og 10,9% í löndum Evrópusambandsins.
Verðbólga hér á landi byrjuð að hjaðna, ólíkt flestum öðrum löndum
Ekki nóg með að verðbólga sé lægri hér á landi heldur er hún einnig byrjuð að hjaðna. Það að verðbólgan sé byrjuð að hjaðna heyrir til undantekninga sé horft til ofangreindra landa en í flestum þessara landa var verðbólga að ná nýju hámarki nú í september. Það að verðbólga sé byrjuð að hjaðna er skýr vísbending þess að hámarki hafi verið náð og ólíklegt að verðbólga nái nýju hámarki á næstunni. Staðan kann enn að versna í Evrópu áður en hún batnar, þar sem nýjustu gögn sýna að verðbólga færist enn í aukana. Þetta á við um öll Norðurlöndin, evrusvæðið og lönd Evrópusambandsins. Ísland er þó ekki eina landið þar sem verðbólga hafði þegar náð hámarki fyrir september heldur á það einnig við um Kýpur, Frakkland, Írland, Lúxemborg og Spán.
Matvælaverð hefur hækkað mun minna hér á landi en í Evrópu
Verðbólga er mæld á grundvelli ákveðinnar neyslukörfu sem endurspeglar neyslukörfu meðalheimilis. Það er ánægjulegt að geta bent á að hér á landi hefur matvælaverð á grundvelli SVN hækkað minna á síðustu 12 mánuðum en í flestum, ef ekki öllum, löndum Evrópu. Í september hafði verð á mat og drykk hækkað um 8,6% hér á landi. Í samanburðinum sem gögnin ná yfir var ekkert land með lægri verðbólgu í matvöru. Það land sem kom næst á eftir okkur var Lúxemborg með 8,8% en þar á eftir kom Kýpur með 9,1%. Verðhækkun á matvöru á evrusvæðinu var 13,8% og 15,5% í löndum Evrópusambandsins. Á Norðurlöndunum var hækkun að meðaltali 14,6% en hún var lægst 12% í Noregi og hæst í Svíþjóð 16,4%. Það ber að hafa í huga að samsetning neyslukörfunnar er töluvert breytileg eftir tekjum heimila og sömuleiðis hlutfall þess í útgjöldum heimilisins alls. Þannig vega matarinnkaup t.d. mun þyngra hjá heimilum með lægri tekjur en heimilum með hærri tekjur.
Orkuverð hefur hækkað margfalt meira í Evrópu en hér á landi
Það sem er og mun sennilega halda áfram að valda evrópskum heimilum hvað mestum búsifjum í vetur eru gríðarlega miklar hækkanir á orkuverði, bæði raforkuverði og húshitunarkostnaði. Ísland er í algjörum sérflokki hvað þetta varðar en 12 mánaða verðhækkun á orkukostnaði hér á landi í september nam einungis 7% á mælikvarða SVN. Vegna náttúrulegra aðstæðna búum við Íslendingar afskaplega vel hvað varðar framboð á ódýrri raforku og heitu vatni og erum sjálfum okkur nóg í þeim efnum. Sé horft til áðurnefndra samanburðarlanda var næst minnsta verðbólgan í orku í september í Slóvakíu, 17,5%, en þar á eftir kom Serbía með 18,5%. Mesta hækkunin var í Hollandi en þar hefur orkuverð hvorki meira né minna en þrefaldast á síðustu 12 mánuðum og liggur þar skýringin á því af hverju verðbólga í Vestur-Evrópu er hæst í Hollandi. Hækkunin á evrusvæðinu nemur 55,5% og er hækkunin svipuð í löndum Evrópusambandsins. Hækkunin á Norðurlöndum liggur á bilinu 20% (Noregur) og upp í 73% (Danmörk) en meðaltalið hjá Norðurlöndunum er 44%. Í þessu sambandi má einnig benda á að líklegt kann að verða að orkuverð muni halda áfram að hækka á næstunni í Evrópu eftir því sem veðurfar fer kólnandi og eftirspurn eftir orku eykst. Á móti kemur að stjórnvöld ýmissa ríkja hafa rætt það að setja þak á orkukostnað heimila sem gæti unnið á móti kostnaðarauka heimilanna.