Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði um 0,82% milli mánaða og mælist verðbólga um 4,6% á þann mælikvarða. Mest áhrif til hækkunar milli mánaða höfðu reiknuð húsaleiga (+2,0% milli mánaða, 0,35% áhrif), verð á bensíni og olíum (+8,2% milli mánaða, 0,27% áhrif) og verð á fötum og skóm (+5,3% milli mánaða, 0,19% áhrif).
Hækkunin milli mánaða var örlítið lægri en við áttum von á en þó svipuð. Við spáðum 1,0% hækkun milli mánaða og er þetta í fyrsta sinn síðan í nóvember í fyrra sem mælingin er undir spá okkar. Í desember, janúar og febrúar voru verðhækkanir mun meiri en við höfðum spáð.
Af einstaka liðum hækkaði húsnæðisverð meira en við áttum von á. Föt og skór hækkuðu minna og flugfargjöld til útlanda hækkuðu mun minna en við áttum von á. Fljótt á litið er lítið í þessum tölum sem breytir skoðun okkar á framvindunni næstu mánuði og eigum við enn von á að verðbólga hjaðni hægt næstu mánuði. Áframhald á miklum verðhækkunum á húsnæði gæti þó sett strik í reikninginn.