Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,58% á milli mánaða í maí, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólgan hækkar því úr 6,0% í 6,2%. Við spáðum 0,38% hækkun vísitölunnar á milli mánaða og þar með óbreyttri verðbólgu. Líkt og vanalega hafði reiknuð húsaleiga mest áhrif á vísitöluna til hækkunar, en liðurinn hækkaði þó minna en við höfðum spáð. Á móti lækkaði verð á flugfargjöldum til útlanda minna en í okkar spá.
Heilt yfir voru verðhækkanir á nokkuð breiðum grunni í maí, þar sem margir undirliðir hækkuðu lítillega á milli mánaða.
Margir liðir hækka, en lítið
- Reiknuð húsaleiga hækkaði um 0,7% (0,14% áhrif). Þetta var minni hækkun en við bjuggumst við en við spáðum 1,1% hækkun (0,22% áhrif). Mestu munar um að markaðsverð húsnæðis hækkaði mun minna en við spáðum, eða um 0,1% í stað 0,6%. Reiknuð húsaleiga hækkaði líka minna en vísitala íbúðaverðs, sem HMS mælir, sem hækkaði um 0,8% á milli mánaða. Verð á fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,5%, sérbýli á höfuðborgarsvæðinu um 0,7% og húsnæði utan höfuðborgarsvæðisins lækkaði um 1%, samkvæmt mælingum Hagstofunnar.
- Verð á mat og drykkjarvörum hækkaði um 0,4% (0,06% áhrif), sem er meira en við höfðum spáð.
- Flugfargjöld til útlanda lækkuðu um 1,1% (-0,02% áhrif), sem er nokkuð minni lækkun en við höfðum spáð. Það er nú um 6% ódýrara að fljúga til útlanda en í maí í fyrra, en hefur verið um 10% ódýrara það sem af er ári.
- Nokkrir minni liðir hækkuðu einnig í þessum mánuði. Liðurinn húsgögn og heimilisbúnaður hækkaði um 1,1% (+0,06% áhrif á vísitöluna), húsnæði án reiknaðrar húsaleigu hækkaði um 0,5% (+0,05% áhrif á vísitöluna), póstur og sími hækkaði um 2,3% (+0,04% áhrif á vísitöluna), tómstundir og menning hækkaði um 0,4% (+0,04% áhrif á vísitöluna), hótel og veitingastaðir hækkaði um 0,7% (+0,04% áhrif á vísitöluna) og ferðir og flutningar án flugfargjalda hækkaði um 1% (+0,04% áhrif á vísitöluna).
Framlag húsnæðis til ársverðbólgu lækkar lítillega á milli mánaða, úr 3 í 2,9 prósentustig. Framlag innfluttra vara hækkar nokkuð, eða úr 0,5 í 0,7 prósentustig, framlag þjónustu hækkar úr 1,9 í 2,0 prósentustig og framlag bensíns hækkar úr 0,0 prósentustigum í 0,1 prósentustig.
Spáum áfram verðbólgu í kringum 6% næstu mánuði
Við gerum áfram ráð fyrir því að verðbólga verði um 6% næstu mánuði. Við spáum því nú að vísitala neysluverðs hækki um 0,54% í júní, 0,08% í júlí og 0,35% í ágúst. Gangi spáin eftir lækkar verðbólga í 5,9% í júní og júlí og hækkar aftur í 6,0% í ágúst. Helsta breytingin frá síðustu spá er að við gerum ekki ráð fyrir að flugfargjöld hækki eins mikið í júní og júlí núna þar sem þau lækkuðu minna en við höfðum spáð í maí.
Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.








