Verðbólga 6,6% og hjaðnar mun minna en búist var við
Vísitala neysluverðs hækkaði um 1,33% á milli mánaða í febrúar, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólga lækkar því aðeins um 0,1 prósentustig milli mánaða og fer úr 6,7% í 6,6% í febrúar. Það er jákvætt að verðbólgan haldi áfram að lækka, en lækkunin nú er mun minni en við áttum von á og þó nokkur vonbrigði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði jafn mikið milli mánaða og vísitalan með húsnæði, eða um 1,33%, og ársbreytingin fer því úr 5,2% í 4,7%.
Töluvert meiri hækkun en við gerðum ráð fyrir
Sem fyrr segir hækkaði vísitalan um 1,33% milli mánaða í febrúar, en við spáðum 0,89% hækkun og að verðbólga yrði 6,1%. Það sem kom okkur helst á óvart var að vetrarútsölur á fötum og skóm gengu að mestu leyti til baka í febrúar, en alla jafna ganga þær til baka í febrúar og mars. Einnig höfðu gjaldskrárhækkanir fyrir sorphirðu, holræsi og kalt vatn töluvert meiri áhrif til hækkunar nú en síðustu ár og hækkaði liðurinn 044 Annað vegna húsnæðis um 11% milli mánaða, en sá liður hefur ekki hækkað svo mikið síðan í janúar 2012. Þar af hækkuðu sorphirðugjöld um 17,1% sem er mesta hækkun á sorphirðugjöldum síðan í janúar 2011.
Helstu liðir vísitölunnar:
- Útsölulok höfðu mest áhrif til hækkunar á vísitöluna í febrúar eins og oft áður, en það sem kom á óvart var að útsölur á fötum og skóm gengu nánast að öllu leyti til baka í febrúar og hækkuðu um 8,4% (+0,3% áhrif á vísitöluna).
- Útsölulok á húsgögnum og heimilisbúnaði voru nær spá okkar og hækkaði verð á þeim um 5,5% (+0,31% áhrif á vísitöluna).
- Annað vegna húsnæðis hækkaði um 11% (+0,18% áhrif á vísitöluna), en við höfðum spáð 7% hækkun á þeim lið.
- Reiknuð húsaleiga hækkaði aftur minna en við höfðum spáð, eða um 0,7% (+0,13% áhrif á vísitöluna) á milli mánaða í febrúar, en við spáðum 0,9%.
- Liðurinn tómstundir og menning hækkaði um 1,1% (+0,12% áhrif á vísitöluna), svipað og við spáðum.
- Matarkarfan hækkaði nokkuð umfram það sem við gerðum ráð fyrir, eða um 0,7% (+0,1% áhrif á vísitöluna).
- Flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 2,1% (+0,33% áhrif á vísitöluna). Við höfðum spáð 5% lækkun.
Íbúðaverð hækkar áfram
Reiknuð húsaleiga hækkaði um 0,7% (+0,13% áhrif á vísitöluna) á milli mánaða í febrúar og hefur nú hækkað 6 mánuði í röð. Markaðsverð íbúðarhúsnæðis hækkaði þó aðeins lítillega, eða um 0,1%, en áhrif vaxta voru 0,6% til hækkunar. Markaðsverð íbúðarhúsnæðis hækkaði því minna en við höfðum gert ráð fyrir (við spáðum 0,4% hækkun), en áhrif vaxta voru í samræmi við spá okkar. Samkvæmt mælingu Hagstofunnar hækkaði verð á fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu um 0,3% en verð á sérbýli stóð í stað á milli mánaða. Þá lækkaði íbúðaverð utan höfuðborgarsvæðisins um 0,1% á milli mánaða í janúar.
Í næsta mánuði mun Hagstofan birta greinagerð um nýja aðferð við mælingar á reiknaðri húsaleigu. Nýja aðferðin byggir á leigusamningum, sem verða notaðir til að mæla kostnað við búsetu í eigin húsnæði. Hingað til hefur verið notast við íbúðaverð og vexti til að meta kostnaðinn. Óljóst er hvaða áhrif ný aðferð mun hafa á mælingar í vísitölu neysluverðs til lengri tíma, en líklega verða mælingarnar stöðugri á milli mánaða.
Áfram dregur úr undirliggjandi verðbólgu
Kjarnavísitölur verðbólgunnar segja til um þróun undirliggjandi verðbólgu og eru ágætis mælikvarði á það hvort verðbólga fari raunverulega hjaðnandi eða hvort þróun í hverjum mánuði skýrist aðallega af sveiflum í liðum sem eru almennt sveiflukenndir. Það er jákvætt að sjá að kjarnavísitölurnar ýmist lækkuðu eða stóðu í stað á milli mánaða í febrúar, sem bendir til þess að áfram dragi úr undirliggjandi verðbólgu.
Samsetning verðbólgunnar breyttist í febrúar, en framlag þjónustu og húsnæðis jókst á milli mánaða, á meðan hlutur innfluttra vara og hlutur innlendra vara dróst saman. Af 6,6% verðbólgu var hlutur innfluttra vara 0,8 prósentustig og lækkaði úr 1 prósentustigi. Hlutur innlendra vara var 1 prósentustig og lækkaði ú 1,1 prósentustigi. Hlutur þjónustu jókst úr 1,8 prósentustigum í janúar í 1,9 prósentustig í febrúar og hlutur húsnæðis jókst úr 2,9 prósentustigum í 3 prósentustig í febrúar.
Gerum ráð fyrir að ársverðbólga hækki í mars en hjaðni verulega í apríl
Við spáum því nú að vísitalan hækki um 0,69% í mars, 0,24% í apríl og 0,31% í maí. Gangi spáin eftir mun verðbólga mælast 6,7% í mars, 5,6% í apríl og 5,5% í maí. Spáin er aðeins hærri en sú sem við birtum í verðkönnunarvikunni. Fyrir utan að verðbólgan nú var hærri en í fyrri spá skýrist munurinn aðallega af því að við gerum ráð fyrir að verðhækkanir á fötum og skóm verði minni í mars, vegna þess að útsölurnar gengu að miklu leyti til baka nú í febrúar.