Mest áhrif til hækkunar hafði kostnaður við að búa í eigin húsnæði sem hækkaði um 1,0% milli mánaða (áhrif á vísitölu: 0,16%), húsgögn og heimilisbúnaður sem hækkuðu um 1,1% milli mánaða (áhrif á vísitölu: 0,07%) og hótel og veitingastaðir sem hækkuðu um 0,9% (áhrif á vísitölu: 0,04%). Mestu áhrif til lækkunar höfðu flugfargjöld til útlanda sem lækkuðu um 1,8% (áhrif á vísitölu: -0,02%).
Vísitala neysluverðs án húsnæðis, þ.e. VNV án reiknaðrar húsaleigu, leiguverðs, viðhalds og viðgerða á húsnæði, sorphirðu og holræsa, hækkaði um 0,40% milli mánaða og mælist 3,3% verðbólga á þann mælikvarða. Ágúst er fimmti mánuðurinn í röð sem verðbólga án húsnæðiskostnaðar lækkar milli mánaða, en í mars mældist 4,8% ársverðbólga á þennan mælikvarða. Munar núna einu prósentustigi á milli verðbólgumælingar með og án húsnæðis. Leita þarf aftur til desember 2012 til að finna sama mismun.