Það er ekki bara mikið byggt á höfuðborgarsvæðinu um þessar mundir heldur má sjá talsvert af nýjum íbúðum skila sér á markað utan höfuðborgarsvæðisins. 1.038 nýjar íbúðir litu dagsins ljós á landsbyggðinni í fyrra sem er mikið í sögulegu samhengi, þó það sé fækkun frá fyrra ári þegar þær voru 1.214 talsins. Nýjar íbúðir sem skiluðu sér á markað á landsbyggðinni í fyrra voru 467 talsins í fjölbýli og 571 sérbýli.
Ef litið er fram hjá árinu 2007, hafa að meðaltali um 640 nýjar íbúðir komið inn árlega utan höfuðborgarsvæðisins, um 350 sérbýli og 290 íbúðir í fjölbýli. Líkt og á höfuðborgarsvæðinu, hefur þróun síðustu fjögurra ára verið með þeim hætti að fjölgun íbúða er ofan við meðaltalið frá upphafi gangasöfnunar hjá Þjóðskrá.
Af einstaka landssvæðum hefur íbúðum fjölgað hlutfallslega mest á Suðurlandi. Það stækkaði húsnæðisstofn svæðisins um 4% milli ára í fyrra og 3,4% árið 2020. Alls litu 482 nýjar íbúðir dagsins ljós í fyrra sem er mesti fjöldi sem hefur komið inn á svæðið á einu ári og voru þær hvergi fleiri á meðal landshluta.