Umtalsverð minnkun atvinnuleysis í maí og líkur á að svo verði áfram
Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar var almennt skráð atvinnuleysi í maí 9,1% af áætluðum fjölda fólks á vinnumarkaði og hafði minnkað úr 10,4% frá því í apríl. Um 21.000 manns voru á atvinnuleysisskrá í maí, þar af um 17.600 atvinnulausir og um 3.400 atvinnulausir í minnkuðu starfshlutfalli. Atvinnuleysi sem tengist hlutabótaleið var 0,9% og minnkaði um 0,2 prósentustig milli mánaða. Heildaratvinnuleysi í maí var því 10,0% samanborið við 11,5% í apríl og minnkaði þannig um 1,5 prósentustig.
Almennt atvinnuleysi minnkaði alls staðar á landinu milli apríl og maí. Mest dró úr atvinnuleysi á Suðurlandi, um 2,9 prósentustig. Vinnumálastofnun spáir því að áfram dragi úr almennu atvinnuleysi og að það verði í kringum 7,5% í júní, m.a. vegna árstíðarsveiflu og sérstaks atvinnuátaks stjórnvalda.
Almennt atvinnuleysi á Suðurnesjum var 18,7% í maí og minnkaði um 2,9 prósentustig frá apríl. Almennt atvinnuleysi var 24,5% í janúar og hefur nú minnkað fjóra mánuði í röð, alls um 5,8 prósentustig. Almennt atvinnuleysi á því svæði er eftir sem áður næstum tvöfalt meira en á höfuðborgarsvæðinu, þar sem það var næst mest, eða 9,4%. Þriðja mesta atvinnuleysið var á Suðurlandi, 8,0%. Minnsta atvinnuleysið var á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra eins og verið hefur.
Fyrstu fimm mánuði ársins 2021 hefur atvinnuleysi bæði karla og kvenna verið 10,7%. Á milli apríl og maí minnkaði atvinnuleysi karla á landinu öllu um 1,4% á meðan það minnkaði um 1,0% meðal kvenna. Atvinnuleysi karla var 8,9% í maí og 9,5% meðal kvenna.
Alls voru 4.018 ný störf auglýst í maí, en þau voru 1.972 í apríl. Flest voru störf verkafólks í ýmiss konar þjónustu. Þann 10. júní voru um 10.500 störf í boði hjá Vinnumálastofnun. Flest auglýstra starfa eru í tengslum við átaksverkefni eða reynsluráðningar, eða um 98%, önnur teljast almenn störf. Flest starfanna eða 61%, eru á höfuðborgarsvæðinu, 16% á Suðurnesjum og 10% á Suðurlandi. Tæplega helmingur lausra starfa er í greinum sem tengjast ferðaþjónustu. Um 1.362 ráðningasamningar voru gerðir í maí í átakinu Hefjum störf.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Umtalsverð minnkun atvinnuleysis í maí og líkur á svo verði áfram