Töluverð minnkun atvinnuleysis í apríl – þróunin á réttri leið
Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar var almennt skráð atvinnuleysi í apríl 10,4% af áætluðum fjölda fólks á vinnumarkaði og hafði minnkað úr 11,0% frá því í mars. Um 24.300 manns voru á atvinnuleysisskrá í apríl, þar af um 20.000 atvinnulausir og um 4.300 atvinnulausir í minnkuðu starfshlutfalli. Atvinnuleysi sem tengist hlutabótaleið var 1,1% og var óbreytt milli mánaða. Heildaratvinnuleysi í apríl var því 11,5% samanborið við 12,1% í mars og minnkaði þannig um 0,6 prósentustig.
Almennt atvinnuleysi minnkaði alls staðar á landinu milli mars og apríl. Mest dró úr atvinnuleysi á Austurlandi, um 2,6 prósentustig, og á Suðurnesjum um 1,6 prósentustig. Vinnumálastofnun spáir því að áfram dragi úr almennu atvinnuleysi í maí og að það verði í kringum 9,5%, m.a. vegna árstíðarsveiflu og sérstaks atvinnuátaks stjórnvalda. Atvinnuleysi hefur nú minnkað þrjá mánuði í röð og því lítur nú út fyrir að hámarki atvinnuleysis hafi verið náð.
Almennt atvinnuleysi á Suðurnesjum var 21,6% í apríl og minnkaði um 1,6 prósentustig frá mars. Almennt atvinnuleysi var 24,5% í janúar og hefur nú minnkað þrjá mánuði í röð, alls um 2,9 prósentustig. Almennt atvinnuleysi þar er eftir sem áður rúmlega tvöfalt meira en á höfuðborgarsvæðinu, þar sem það var næst mest, eða 10,4%.
Fyrstu fjóra mánuði ársins 2021 hefur atvinnuleysi karla verið 11,2% á meðan það var 11,0% meðal kvenna. Á milli mars og apríl minnkaði atvinnuleysi karla á landinu öllu um 0,9% á meðan það minnkaði um 0,4% meðal kvenna.
Atvinnuleysi karla og kvenna er svipað víðast hvar á landinu. Heildaratvinnuleysi karla er þó einungis meira en kvenna á höfuðborgarsvæðinu og á Vestfjörðum. Atvinnuleysi kvenna á Suðurnesjum var 5,7 prósentustigum meira en meðal karla í apríl og minnkaði um 1,1 prósentustig frá mars á meðan það minnkaði um 1,9 prósentustig meðal karla Töluverður munur er einnig á atvinnuleysi kynjanna, konum í óhag, á Vesturlandi og Suðurlandi. Sé litið til breytinga milli mars og apríl minnkaði atvinnuleysið mest meðal kvenna á Austfjörðum, eða um 4,1 prósentustig. Næst mest minnkaði atvinnuleysi meðal karla á Austfjörðum, eða um 2,8 prósentustig. Á milli mars og apríl jókst atvinnuleysi einungis meðal kvenna á Suðurlandi, um 0,1%.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Töluverð minnkun atvinnuleysis í apríl – þróunin á réttri leið