Töluverð hækkun launavísitölu í nóvember

Vísitala neysluverðs hækkaði 3,5% milli nóvembermánaða 2019 og 2020. Launavísitalan hækkaði um 7,3% á sama tímabili þannig að kaupmáttaraukningin á milli ára er áfram töluverð, eða 3,7%. Kaupmáttur launa er því áfram mikill í sögulegu samhengi þrátt fyrir aukna verðbólgu á síðustu mánuðum. Kaupmáttarvísitala hefur haldið nokkuð vel síðustu mánuði og var kaupmáttur launa í október einungis 0,1% minni en í apríl, þegar hann var í sögulegu hámarki.
Sé litið á launabreytingar hjá stóru hópunum á vinnumarkaðnum frá 3. ársfjórðungi 2019 fram til sama tíma 2020 sést að launin á almenna markaðnum hækkuðu um 6% á þessum tíma og um 8,1% á þeim opinbera, 7,5% hjá ríkinu og 8,8% hjá sveitarfélögunum. Mæld launavísitala hækkaði um 6% á sama tíma.
Því virðist sem opinberi markaðurinn hafi verið leiðandi í launabreytingum á þessum tíma, enda voru kjarasamningar gerðir mun seinna á opinbera markaðnum en á þeim almenna. Á síðustu misserum myndaðist bil á milli launaþróunar á þessum tveimur mörkuðum þar sem kjarasamningar á opinbera markaðnum voru gerðir mun seinna en á þeim almenna. Þetta bil hefur nú næstum verið brúað að fullu, eins og reyndin hefur alltaf verið yfir lengra tímabil.
Af starfsstéttum á almenna markaðnum hækkuðu laun skrifstofufólks mest milli 3. ársfjórðunga 2019 og 2020, um 7,9%. Laun verkafólks hækkuðu næst mest, um 7,6%. Laun stjórnenda hækkuðu minnst á þessu tímabili, eða um 3,6%. Launavísitalan hækkaði um 6% á þessu tímabili þannig að laun skrifstofu- og verkafólks hafa hækkað mun meira en meðaltalið og laun stjórnenda verulega minna.
Meðal atvinnugreina á almenna markaðnum hækkuðu laun á 3. ársfjórðungi mest milli ára í veitustarfsemi, um 9,8%, og minnst í byggingu og mannvirkjagerð, um 4,3%. Það lítur því út fyrir að minni umsvif í byggingarstarfsemi hafi minnkað launaþrýsting í þeim greinum.
Atvinnuleysi hefur aukist töluvert á síðustu mánuðum og var skráð almennt atvinnuleysi 10,6% í nóvember og atvinnuleysi vegna hlutabóta 1,4%. Heildaratvinnuleysi var því 12% í nóvember og hefur ekki verið meira í annan tíma.
Óvissa um þróun hagkerfisins og baráttuna við veirufaraldurinn er enn mikil og þróun atvinnustigs er óneitanlega nátengt árangri á þeim sviðum. Eins og staðan er núna er því miður líklegt að atvinnuleysi verði áfram meira á næstu mánuðum en við eigum að venjast.
Ef horft er á launaþróun í fyrri kreppum má sjá að sú jákvæða launaþróun sem við sjáum nú er ekki beint í takt við slakan vinnumarkað. Laun munu almennt hækka á vinnumarkaðnum samkvæmt kjarasamningum í byrjun janúar og haldi verðlagsþróun áfram með svipuðum hætti má enn búast við áframhaldandi kaupmáttaraukningu.
Þessi staða er dálítið sérstök og ný í íslenskri hagsögu. Í kreppum til þessa hefur kaupmáttur launa yfirleitt lækkað verulega, en atvinnustigið haldið nokkuð vel. Lengi vel tókst okkur að vernda atvinnustigið í kreppum. Í síðustu tveimur kreppum hefur orðið breyting hvað það varðar.
Lesa Hagsjána í heild









