Það hægir á neysluaukningu erlendra ferðamanna
Aukin neysla skýrist þó einnig að töluverðu leyti af aukinni dvalarlengd. Samfara minni takmörkunum á ferðalög hefur fjöldi erlendra ferðamanna aukist á síðustu misserum og hefur meðalneysla á hvern ferðamann minnkað frá því sem var þegar mest lét. Þetta er vísbending í þá átt að samsetning ferðamanna sé aftur að færast nær því sem var fyrir faraldur.
Sé horft á kortaveltu 17 mikilvægustu viðskiptavina íslenskrar ferðaþjónustu eftir þjóðerni nam hún 100,1 ma. kr. á síðasta ári. Fjöldi erlendra ferðamanna sem hingað kom á síðasta ári nam 567 þúsund sé einungis horft til þessara 17 þjóða. Neysla á hvern ferðamann nam því 176,5 þúsund krónum að meðaltali. Til samanburðar var þessi upphæð 146 þúsund árið 2020 og 131 þúsund árið 2019, síðasta heila ár fyrir faraldur. Neysla þeirra var því ríflega þriðjungi meiri í fyrra en fyrir faraldur. Flestar þjóðir eyddu meiru í fyrra en af þessum 17 þjóðum juku 13 neyslu sína milli ára. Mesta neysluaukningin var hjá Svisslendingum en neysla þeirra mæld í þeirra eigin mynt jókst um 216% milli ára. Þar á eftir komu Finnar með 159% aukningu. Síðan komu Kanadamenn með 105% og Norðmenn með 104%. Neysluaukning Bandaríkjamanna var 39% og 31% hjá Bretum. Aukningin hjá Þjóðverjum var 26%.