Spáum óbreyttri verðbólgu í maí

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,55% milli mánaða í apríl og lækkaði ársverðbólgan við það úr 6,8% í 6,0%. Í apríl voru það tveir liðir sem höfðu langmest áhrif, reiknuð húsaleiga og flugfargjöld til útlanda, sem skýrðu 95% af hækkuninni milli mánaða. Við gerum ráð fyrir því að þessir liðir verði aftur fyrirferðarmiklir en þó með þeim hætti að flugfargjöld vegi til lækkunar.
Spáum 0,38% hækkun í maí og að verðbólga haldist óbreytt í 6,0%
Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,38% á milli mánaða maí og að ársverðbólgan verði óbreytt í 6,0%. Mest áhrif til hækkunar í spánni hefur húsnæðiskostnaður og mest áhrif til lækkunar hafa flugfargjöld til útlanda.
Ný aðferð til að reikna kostnað við búsetu í eigin húsnæði
Við gerum við ráð fyrir að markaðsverð húsnæðis hækki um 0,6% og áhrif vaxtabreytinga verði 0,5%. Alls hækkar reiknuð húsaleiga því um 1,1% milli mánaða í maí (0,22% áhrif) gangi spáin eftir. Í júní mun Hagstofan beita nýrri aðferð við að mæla reiknaða húsaleigu, svokallaða aðferð húsaleiguígilda. Aðferðin byggir á því að markaðsleiga verði notuð til þess að meta kostnað við búsetu í eigin húsnæði. Enn er óljóst hvaða áhrif þessi breyting mun hafa, en við gerum ráð fyrir að mælingar verði stöðugri og mánaðarsveiflur minni. Spár fyrir húsnæðisliðinn eru háðar mikilli óvissu á meðan engin reynsla er komin á nýju aðferðina. Við gerum ráð fyrir að þessi liður hækki um 0,6% milli mánaða (0,12% áhrif) að jafnaði næstu mánuði, sem samsvarar því að liðurinn reiknuð húsaleiga hækki um 7,4% á ári.
Við gerum ráð fyrir að liðurinn annað vegna húsnæðis hækki um 0,6% milli mánaða í maí (0,06% áhrif). Munar þar mest um að viðhald vegna húsnæðis hækkar nokkuð milli mánaða samkvæmt okkar spá. Þessi liður fylgir byggingarvísitölunni frá mánuðinum áður, sem hækkaði um 1,4% milli mánaða í apríl. Auk þess hefur verð á hita og rafmagni hækkað lítillega milli mánaða samkvæmt verðmælingu okkar.
Flugfargjöld til útlanda lækka
Almennt er nokkuð skýr árstíðatengd breyting á flugfargjöldum til útlanda. Þau lækka í maí, hækka í júní og júlí og lækka aftur í ágúst. Við spáum því að flugfargjöld lækki um 5,6% milli mánaða (-0,11% áhrif) nú í maí. Gangi spáin eftir verður 10% ódýrara að fljúga til útlanda í maí í ár en í fyrra, sem er svipaður munur og hefur verið það sem af er ári. Samkvæmt verðkönnun okkar lækkar verð á bensíni og díselolíu um 0,2% á milli mánaða (-0,01% áhrif á vísitöluna).
Óveruleg breyting á matarkörfunni
Verð á flestum mat- og drykkjarvörum var óbreytt milli mánaða í verðkönnun okkar og gerum við því ráð fyrir mjög lítilli breytingu milli mánaða í mælingum Hagstofunnar, eða 0,1% hækkun (0,01% áhrif). Það var helst tvennt sem vakti athygli í verðkönnun okkar, verð á ávöxtum og grænmeti virðist hafa lækkað milli mánaða en verð á sælgæti, sérstaklega súkkulaði, virðist hafa hækkað. Mögulega má rekja það til þess að heimsmarkaðsverð á kakó rauk upp í vor vegna lélegrar uppskeru í vestur-Afríku. Þó ber að hafa í huga að heimsmarkaðsverðið gæti líklega aðeins skýrt hluta verðhækkunar á súkkulaði hér á landi, og hækkun á heimsmarkaðsverði hefur að einhverju leyti gengið til baka nú þegar.
Spá um maímælingu VNV
Undirliður | Vægi í VNV | Breyting (spá) | Áhrif (spá) |
Matur og drykkjarvara | 14,9% | 0,1% | 0,01% |
Áfengi og tóbak | 2,4% | 0,2% | 0,01% |
Föt og skór | 3,8% | 0,9% | 0,03% |
Húsnæði án reiknaðrar húsaleigu | 9,5% | 0,6% | 0,06% |
Reiknuð húsaleiga | 19,4% | 1,1% | 0,22% |
Húsgögn og heimilisbúnaður | 5,7% | 0,7% | 0,04% |
Heilsa | 4,0% | 0,3% | 0,01% |
Ferðir og flutningar (annað) | 3,8% | 0,5% | 0,02% |
Kaup ökutækja | 6,7% | 0,0% | 0,00% |
Bensín og díselolía | 3,4% | -0,2% | -0,01% |
Flugfargjöld til útlanda | 2,0% | -5,6% | -0,11% |
Póstur og sími | 1,6% | 0,1% | 0,00% |
Tómstundir og menning | 9,9% | 0,3% | 0,03% |
Menntun | 1,1% | 0,0% | 0,00% |
Hótel og veitingastaðir | 5,4% | 1,1% | 0,06% |
Aðrar vörur og þjónusta | 6,5% | 0,1% | 0,01% |
Alls | 100,0% | 0,38% |
Spáum litlum breytingum á ársverðbólgu næstu mánuði
Samkvæmt skammtímaspá okkar mun vísitalan hækka um 0,61% í júní, 0,13% í júlí og 0,35% í ágúst. Gangi spáin eftir verður verðbólga 5,8% í júní, 5,9% í júlí og 5,9% í ágúst. Þessi spá er nær óbreytt frá síðustu spá sem við birtum daginn sem Hagstofan birti aprílmælingu vísitölu neysluverðs.
Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.








