Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur

Spá­um áfram óbreytt­um vöxt­um 

Verðbólga jókst umfram væntingar í júlí og jafnvel þótt verðbólga hafi almennt verið á niðurleið undanfarið hefur hjöðnunin verið hægari en vonir stóðu til. Nú í ágúst hafa stýrivextir verið 9,25% í heilt ár og við teljum að peningastefnunefnd haldi þeim áfram óbreyttum í næstu viku, sjötta skiptið í röð. 
15. ágúst 2024

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands kemur saman í næstu viku og kynnir vaxtaákvörðun miðvikudaginn 21. ágúst. Við spáum því að nefndin haldi stýrivöxtum óbreyttum og í ljósi nýjustu verðbólgumælingar verði tónninn í yfirlýsingunni nú hugsanlega harðari en í þeirri síðustu.  

Hæg hjöðnun verðbólgu aðalástæðan

Peningastefnunefnd hefur haldið stýrivöxtum óbreyttum í 9,25% á síðustu fimm fundum. Fyrsta slíka ákvörðunin í október grundvallaðist á mikilli óvissu um horfur í efnahagslífinu almennt. Síðar tóku jarðhræringar á Reykjanesskaga og óvissan sem þeim tengdist að spila inn í auk þess sem nefndin vildi sjá hvaða áhrif síðustu kjarasamningar hefðu. Nú teljum við að ákvörðun nefndarinnar byggi einfaldlega á því hversu hægt verðbólgan hjaðnar. Síðustu yfirlýsingu mátti túlka á þann veg að hægt yrði að lækka vexti um leið og verðbólga og verðbólguvæntingar færu hjaðnandi. Þar kom fram að nefndin teldi auknar líkur á að núverandi aðhaldsstig væri hæfilegt til þess að koma verðbólgu niður í markmið innan ásættanlegs tíma.  

Verðbólga hefur aukist frá síðasta fundi 

Þegar peningastefnunefnd kom síðast saman, þann 8. maí sl., stóð verðbólga í 6,0%. Þá hafði hún hjaðnað nokkuð hressilega mánuðina á undan en vextir haldist óbreyttir. Síðan hefur verðbólga aftur á móti aukist lítillega á ný og var 6,3% í júlí. Raunstýrivextir miðað við liðna verðbólgu hafa því lækkað um 0,3 prósentustig. Ef verðbólgan hefði haldið áfram að hjaðna duglega í sumar hefði hugsanlega mátt gera ráð fyrir lítilsháttar vaxtalækkun, en í ljósi nýjustu vendinga í vísitölu neysluverðs teljum við nánast útilokað að nefndin hefji vaxtalækkunarferli í næstu viku.  

Þrátt fyrir hátt vaxtastig hefur vísitala íbúðaverðs hækkað stöðugt síðustu mánuði. Árshækkun vísitölu íbúðaverðs var 9,1% í júní og hefur ekki verið svo mikil síðan í febrúar 2023. Árshækkun raunverðs íbúða, þ.e. vísitala íbúðaverðs á móti vísitölu neysluverðs án húsnæðis, mældist 5,0% í júní og hækkaði úr 4,0% í maí. Árshækkun raunverðs hefur ekki verið meiri síðan í janúar 2023. Kaupsamningum hefur líka fjölgað verulega á milli ára og því ýmis merki um þó nokkuð líflegan íbúðamarkað. Þótt vissulega beri að hafa í huga að stór hluti íbúðakaupa um þessar mundir skýrist af eftirspurn Grindvíkinga fer því fjarri að vaxtastigið hafi fryst eftirspurn á íbúðamarkaði. Hugsanlega hefur aðhaldið hins vegar hægt á íbúðauppbyggingu og þar með átt þátt í að skapa verðþrýsting.  

Undirliggjandi verðbólguþrýstingur virðist hafa aukist lítillega í júlí, ef marka má kjarnavísitölur verðbólgunnar sem segja til um verðbólguþróun að undanskildum þeim undirliðum sem að jafnaði sveiflast mest. Ársbreyting allra þriggja kjarnavísitalna verðbólgunnar jókst á milli mánaða en sú kjarnavísitala sem undanskilur reiknaða húsaleigu er sem fyrr mun lægri en hinar. Á síðustu fundum hefur peningastefnunefnd haft lækkandi ársbreytingu kjarnavísitalnanna til grundvallar en nú hafa þær hækkað á ný.  

Væntingar enn yfir markmiði 

Þótt verðbólga hafi aukist lítillega í sumar hafa verðbólguvæntingar þróast í hagstæða átt á flesta mælikvarða. Ein vísbending sem við höfum um þróun verðbólguvæntinga frá síðasta fundi peningastefnunefndar er verðbólguálag á skuldabréfamarkaði.  

Verðbólguálag á skuldabréfamarkaði er munurinn á ávöxtunarkröfu óverðtryggðra skuldabréfa og verðtryggðra, sem gefur vísbendingu um spá markaðarins um verðbólgu fram í tímann. Daginn áður en peningastefnunefnd kom síðast saman í maí stóðu væntingar til þess að verðbólga tveimur árum síðar yrði 4,8% (í maí 2026). Nú standa væntingar til 4,5% verðbólgu eftir tvö ár (í ágúst 2026). Skuldabréfamarkaðurinn spáir 4,1% verðbólgu eftir fimm ár og gerir ráð fyrir nokkuð tregbreytanlegri verðbólgu þar á eftir, ef marka má fimm-ár-eftir-fimm-ár álagið sem stendur nú í 4%. Þannig virðist markaðurinn hafa litla trú á að verðbólga komist niður í markmið í náinni framtíð þótt hún sé talin mjakast áfram í rétta átt.  

Væntingar um verðbólgu í framtíðinni auka verðbólguþrýsting og torvelda peningastefnunni að koma böndum á verðbólgu. Þegar launafólk gerir ráð fyrir hækkandi verðlagi er það líklegra til að krefjast launahækkana í því skyni að verja kaupmáttinn. Að gefnum hærri launakostnaði eru fyrirtæki líklegri til að hækka verð á vörum og þjónustu og kröftug eftirspurn gerir þeim einnig betur kleift að velta kostnaðarhækkunum út í verðlag. Eftir því sem verðbólga er þrálátari eykst hættan á því að kjölfesta verðbólguvæntinga losni sem veldur því að væntingar sveiflast auðveldar upp á við með aukinni verðbólgu.  

Verðbólguvæntingar geta því haft mikið að segja um verðbólguhorfur og peningastefnunefnd er mikið í mun að koma böndum á þær. Raunstýrivextir miðað við liðna verðbólgu hafa verið jákvæðir frá því í kringum mitt síðasta ár og sennilega hefði nefndin viljað sjá þá slá hraðar á væntingar.  

Samdráttur á fyrsta ársfjórðungi skýrist af birgðabreytingum

Þótt hátt vaxtastig hafi borið þó nokkurn árangur í að slá á þenslu í þjóðarbúinu má enn greina eftirspurnarþrýsting víða í hagkerfinu. Nýjustu þjóðhagsreikningar ná yfir fyrsta ársfjórðung þessa árs og samkvæmt þeim dróst hagkerfið saman um 4% á milli ára. Samdráttinn má nær allan rekja til minni birgðasöfnunar en á sama tíma ári áður, sem skýrist nær alfarið af loðnubresti. Einkaneysla jókst um 0,2% á milli ára á fyrsta fjórðungi, samneysla um 1,2% og fjármunamyndun um 2,4%.   

Þótt atvinnuleysi sé aðeins örlítið meira en á sama tíma í fyrra má greina merki um að smám saman hafi slaknað á spennu á vinnumarkaði. Launavísitalan hefur hækkað mun minna á þessu ári en því síðasta, bæði vegna mun hóflegri kjarasamninga en einnig hefur líklega hægt á launaskriði. Þá má nefna að samkvæmt nýjustu könnun Seðlabankans og Gallup á eftirspurn fyrirtækja eftir starfsfólki telja sífellt færri fyrirtæki skorta starfsfólk á vinnumarkaðnum.   

Teljum langmestar líkur á óbreyttu vaxtastigi 

Peningastefnunefnd hefur tekið varfærin skref síðustu mánuði og haldið vöxtum óbreyttum í heilt ár. Fyrst nefndinni þótti auknar líkur á því á síðasta fundi að taumhaldið væri hæfilegt er erfitt að færa rök fyrir vaxtalækkun í næstu viku, enda hefur verðbólga aukist lítillega frá því síðast. Þótt vissulega hafi hagvaxtarhorfur einnig versnað í ljósi mikils samdráttar á fyrsta ársfjórðungi ber að hafa í huga að samdrátturinn skýrðist af birgðabreytingum en ekki samdrætti í hagstærðum á borð við einkaneyslu og fjárfestingu. Þá er enn eftirspurnarþrýstingur á íbúðamarkaði og ekki farið að bera á verulega auknu atvinnuleysi. Því teljum við að peningastefnunefnd telji áfram þörf á þéttu peningalegu aðhaldi og sjái ekki ástæðu til að óttast ofkólnun í hagkerfinu að svo stöddu.   

Vaxtaákvarðanir peningastefnunefndar

Dags. Lagt til Atkvæði með Atkvæði móti Kosið annað Niðurstaða Meginvextir
2022        
9. febrúar 2022 +0,75% allir +0,75% 2,75%
4. maí 2022 +1,00% allir +1,00% 3,75%
22. júní 2022 +1,00% allir GZ (+1,25%) +1,00% 4,75%
24. ágúst 2022 +0,75% allir GZ (+1,00%) +0,75% 5,50%
5. október 2022 +0,25% allir +0,25% 5,75%
23. nóvember 2022 +0,25% allir GZ (+0,50%) +0,25% 6,00%
2023          
8. feb. 2023 +0,50% allir HS (+0,75%) +0,50% 6,50%
22. mars 2023
+1,00% allir  

+1,00%

7,50%
24. maí 2023 +1,25% ÁJ, RS, ÁÓP, HS GJ (+1,00%)   +1,25% 8,75%
23. ágúst 2023 +0,50% ÁJ, RS, ÁÓP, HS GJ (+0,25%)   +0,50% 9,25%
4. október 2023 óbr. ÁJ, RS, GJ, ÁÓP HS (+0,25%) ÁÓP (+0,25%) óbr. 9,25%
22. nóvember 2023 óbr. allir   óbr. 9,25%
2024            
7. febrúar 2024 óbr. ÁJ, RS, ÁÓP, HS GJ (-0,25%)   óbr. 9,25%
20. mars 2024 óbr. ÁJ, RS, ÁÓP, HS GJ (-0,25%)   óbr. 9,25%
8. maí 2024 óbr. ÁJ, RS, ÁÓP, HS AS (-0,25%)   óbr. 9,25%
21. ágúst 2024            
2. október 2024            
20. nóvember 2024            
Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
Seðlabanki Íslands
25. ágúst 2025
Vikubyrjun 25. ágúst 2025
Seðlabanki Íslands hélt stýrivöxtum óbreyttum í 7,50% í síðustu viku og allir nefndarmenn studdu ákvörðunina. Vísitala íbúðaverðs hefur hækkað um 4,2% á síðasta árinu, en í janúar var árshækkunin 10,4%. Í vikunni birtir Hagstofan verðbólgutölur fyrir ágústmánuð og þjóðhagsreikninga fyrir annan ársfjórðung.
Hús í Reykjavík
22. ágúst 2025
Íbúðamarkaður í betra jafnvægi þótt nýjar íbúðir seljist hægt
Á síðustu misserum hefur dregið töluvert úr verðhækkunum á íbúðamarkaði. Vísitala íbúðaverðs hefur hækkað um 4,2% á síðustu 12 mánuðum, aðeins örlítið umfram almennt verðlag, og ársbreytingin hefur ekki verið minni frá því í byrjun árs 2024. Þótt kaupsamningar hafi verið færri á fyrstu sjö mánuðum þessa árs en á sama tíma í fyrra er enn talsverð velta á markaðnum.
Fólk við Geysi
19. ágúst 2025
Útflutningur í sókn en innflutningur líka
Vöruútflutningur frá Íslandi hefur aukist frá því í fyrra en samt hefur vöruskiptahalli aldrei verið meiri en nú. Þetta skýrist af stórauknum vöruinnflutningi, einkum á tölvubúnaði í tengslum við uppbyggingu gagnavera. Ferðaþjónustan hefur skilað auknum tekjum í ár en á móti hefur utanlandsferðum Íslendinga fjölgað og uppsafnaður kortaveltujöfnuður við útlönd var enn neikvæður í lok júlí.
Frosnir ávextir og grænmeti
18. ágúst 2025
Vikubyrjun 18. ágúst 2025
Við búumst við að peningastefnunefnd Seðlabankans haldi stýrivöxtum óbreyttum á miðvikudag. Auk vaxtaákvörðunarinnar fáum við vísitölu íbúðaverðs í vikunni og nokkur uppgjör. Metfjöldi erlendra ferðamanna fór frá landinu í júlí, atvinnuleysi var óbreytt á milli mánaða og áfram var nokkur kraftur í greiðslukortaveltu heimila.
Seðlabanki Íslands
15. ágúst 2025
Ekki horfur á frekari vaxtalækkun á árinu
Við spáum því að peningastefnunefnd geri hlé á vaxtalækkunarferlinu og haldi stýrivöxtum óbreyttum í næstu viku. Verðbólga jókst umfram væntingar í apríl og verðbólguvæntingar hafa haldist tiltölulega stöðugar. Þá virðist hagkerfið þola vaxtastigið vel, kortavelta hefur aukist sífellt síðustu mánuði og enn er þó nokkur velta á íbúðamarkaði. Peningalegt taumhald losnaði með aukinni verðbólgu í apríl og við teljum ólíklegt að peningastefnunefnd þyki tímabært að lækka raunstýrivexti enn frekar.
Flugvél á flugvelli
14. ágúst 2025
Spáum óbreyttri verðbólgu í ágúst
Við spáum því að verðbólga standi í stað í ágúst og mælist 4,0%. Eins og alla jafna í ágústmánuði má búast við að sumarútsölur gangi til baka að hluta. Einnig má gera ráð fyrir lækkandi flugfargjöldum. Næstu mánuði gerum við ráð fyrir að verðbólga aukist lítillega en hjaðni svo undir lok árs, og mælist 4,0% í desember.
Flugvöllur, Leifsstöð
13. ágúst 2025
Aukinn kaupmáttur, meiri neysla og fleiri utanlandsferðir
Neysla landsmanna virðist halda áfram að aukast og utanlandsferðir hafa verið þó nokkuð fleiri á þessu ári en á sama tíma í fyrra. Launavísitalan hefur enda hækkað um 8,1% á síðustu tólf mánuðum og kaupmáttur haldið áfram að aukast. Atvinnuleysi hefur haldist nokkuð hóflegt. Það er þó lítillega meira en á sama tíma í fyrra og merki eru um að spenna á vinnumarkaði fari smám saman dvínandi.
11. ágúst 2025
Vikubyrjun 11. ágúst 2025
Í síðustu viku tóku gildi nýir tollar á innflutning til Bandaríkjanna. Nokkrar áhugaverðar hagtölur koma í þessari viku: brottfarir um Keflavíkurflugvöll, skráð atvinnuleysi, væntingakönnun markaðsaðila og greiðslumiðlun. Í vikunni fara fram verðmælingar vegna vísitölu neysluverðs og uppgjörstímabil í Kauphöllinni heldur áfram með sex uppgjörum.
Epli
5. ágúst 2025
Vikubyrjun 5. ágúst 2025
Gistinóttum á landinu fjölgaði alls um 8,4% á milli ára í júní. Verðbólga á evrusvæðinu hélst óbreytt á milli mánaða og Seðlabanki Bandaríkjanna hélt stýrivöxtum óbreyttum.
1. ágúst 2025
Mánaðamót 1. ágúst 2025
Mánaðarlegt fréttabréf frá Greiningardeild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.