Spá­um 7,7% verð­bólgu í sept­em­ber

Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,07% milli mánaða í september og að ársverðbólga standi í stað og verði áfram 7,7%. Útsölulok hafa aftur mest áhrif til hækkunar milli mánaða í september samkvæmt spánni. Það sem helst dregur spána niður er árstíðabundin lækkun á flugfargjöldum til útlanda. Við gerum ráð fyrir að verðbólga lækki áfram næstu mánuði og verði 6,6% í desember.
Flugvél
14. september 2023

Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,07% milli mánaða í september og að verðbólga standi í stað og verði áfram 7,7%. Útsölulok teygja sig yfirleitt fram í september og munu hafa mest áhrif til hækkunar í mánuðinum. Flugfargjöld til útlanda lækka einnig alla jafna í september og munu hafa mest áhrif til lækkunar gangi spá okkar eftir. Flugfargjöld hafa síðustu mánuði fylgt mjög svipaðri þróun og fyrir ári síðan og við gerum ráð fyrir því að sú þróun haldi áfram. Við spáum því að húsnæðisverð lækki á milli mánaða í september en að áhrif vaxtabreytinga verði til hækkunar.

Spáum því að reiknuð húsaleiga hækki

Áhrif húsnæðis á verðbólgu hafa dregist saman síðustu mánuði. Ágúst var fyrsti mánuður síðan apríl 2021 sem húsnæðisliðurinn var ekki veigamesti hluti verðbólgunnar. Síðustu tvo mánuði hefur reiknuð húsaleiga, sem samanstendur af íbúðaverði og verðtryggðum vöxtum, lækkað á milli mánaða. Þar skipti bæði máli að íbúðaverð lækkaði þessa mánuði en einnig að áhrif vaxta til hækkunar drógust örlítið saman. Við gerum áfram ráð fyrir því að íbúðaverð lækki í september, en eftir síðustu vaxtaákvörðun Seðlabankans hafa verðtryggðir vextir hækkað. Við spáum því að reiknuð húsaleiga hækki um 0,3%, þar sem íbúðaverð lækkar um 0,3% en áhrif vaxta verði til hækkunar um 0,6%.

Sumarútsölurnar enn að ganga til baka

Eftir verðlækkun á fötum og skóm í sumarútsölum sjáum við yfirleitt verðin ganga til baka, bæði í ágúst og september, þegar útsölurnar klárast. Í júlí lækkaði verð á fötum og skóm um 8,7% á milli mánaða og í ágúst hækkaði verð aftur um 5,8%. Við gerum ráð fyrir því að sjá verð á fötum og skóm hækka aftur um 4,6% í september.

Bensínverð hækkar áfram og flugfargjöld lækka í september

Samkvæmt verðathugun okkar gerum við ráð fyrir því að bensín og díselolíur hækki um 1,9% á milli mánaða í vísitölu neysluverðs.

Á fyrstu fimm mánuðum ársins var að meðaltali 23% dýrara að fljúga til útlanda en á sama tímabili í fyrra. Frá því í júní hefur þessi munur dregist verulega saman. Í júlí og ágúst var einungis 2% dýrara að fljúga til útlanda en í sömu mánuðum í fyrra. Við gerum ráð fyrir því að þessi þróun haldi áfram næstu mánuði og að flugfargjöld til útlanda lækki um 18,7% í september. Þó er gott að hafa í huga að verð á flugfargjöldum sveiflast töluvert þó þau fylgi ágætlega árstíðarsveiflu og því erfitt að spá fyrir um breytingar milli stakra mánaða.

Spá um septembermælingu VNV

       
Undirliður Vægi í VNV Breyting (spá) Áhrif (spá)
Matur og drykkjarvara 14,9% 0,2% 0,03%
Áfengi og tóbak 2,4% 0,0% 0,00%
Föt og skór 3,8% 4,6% 0,17%
Húsnæði án reiknaðrar húsaleigu 9,7% 0,2% 0,02%
- Reiknuð húsaleiga 18,9% 0,3% 0,05%
Húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. 6,3% 0,2% 0,02%
Heilsa 3,7% 0,2% 0,01%
Ferðir og flutningar (annað) 3,8% 0,0% 0,00%
- Kaup ökutækja 6,2% 0,0% 0,00%
- Bensín og díselolía 2,9% 1,9% 0,06%
- Flugfargjöld til útlanda 2,1% -18,7% -0,39%
Póstur og sími 1,7% 0,2% 0,00%
Tómstundir og menning 10,0% 0,8% 0,08%
Menntun 1,0% 0,9% 0,01%
Hótel og veitingastaðir 5,4% -0,2% -0,01%
Aðrar vörur og þjónusta 7,3% 0,4% 0,03%
Alls 100,0%   0,07%

Spáum 6,6% verðbólgu í desember

Spá okkar til næstu mánaða gerir ráð fyrir að vísitalan hækki um 0,14% milli mánaða í október, lækki um 0,06% í nóvember og hækki síðan um 0,54% í desember. Gangi spáin eftir verður verðbólga 7,1% í október, 6,7% í nóvember og 6,6% í desember. Þetta er meiri verðbólga en í síðustu spá sem við birtum eftir ágústmælingu Hagstofunnar. Munurinn skýrist að mestu leyti af því að við gerum ráð fyrir að reiknuð húsaleiga verði örlítið hærri en í síðustu spá. Töluverð óvissa er um þróun á bæði íbúðaverði og flugfargjöldum til útlanda næstu mánuði, stórum liðum í vísitölunni sem gætu sveiflast nokkuð.

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
Mynt 100 kr.
27. maí 2024
Krónan stöðug en Ísland verður dýrara
Krónan hefur verið óvenju stöðug frá því í nóvember í fyrra. Við teljum að krónan styrkist lítillega á þessu ári og að raungengið hækki þar sem verðbólga verði meiri hér en í helstu viðskiptalöndum okkar.
Fasteignir
27. maí 2024
Vikubyrjun 27. maí 2024
Velta á íbúðamarkaði hefur aukist á síðustu mánuðum og kaupsamningum fjölgað. Undirritaðir kaupsamningar á höfuðborgarsvæðinu í apríl í ár voru meira en tvöfalt fleiri en í apríl í fyrra.
Fiskveiðinet
22. maí 2024
Botnfisksveiðar vega upp á móti loðnubresti
Heildarafli íslenskra fiskiskipa dróst saman í fyrra og útflutningur sjávarafurða var 7,9% minni í fyrra en árið á undan. Aflaheimildir á þorski hafa dregist saman nokkur ár í röð en nú virðist þróunin vera að snúast við þar sem þorskkvóti var aukinn um 1% fyrir yfirstandandi veiðitímabil. Loðnuvertíð síðasta árs var mjög góð en í ár verður engin loðna veidd. Í nýlegri hagspá gerum við ráð fyrir hóflegum vexti í útflutningi sjávarafurða.
Byggingakrani og fjölbýlishús
21. maí 2024
Vikubyrjun 21. maí 2024
Velta samkvæmt virðisaukaskattskýrslum gefur mynd af því hvar hagkerfið er að vaxa og hvar það er að dragast saman. Samkvæmt nýjustu gögnum mældist veruleg aukning milli ára í fasteignaviðskiptum og í byggingarstarfsemi en samdráttur í framleiðslu málma, bílasölu og í sjávarútvegi á fyrstu mánuðum ársins.
Hús í Reykjavík
16. maí 2024
Spáum óbreyttri verðbólgu í maí
Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,38% á milli mánaða í maí og að ársverðbólga haldist óbreytt í 6,0%. Húsnæðiskostnaður og flugfargjöld til útlanda munu hafa mest áhrif á vísitöluna, en í sitthvora áttina. Húsnæði hækkar en flugfargjöld lækka. Við teljum að verðbólga verði nær óbreytt út sumarið.
Kranar á byggingarsvæði
15. maí 2024
Ennþá spenna á vinnumarkaði þótt hægi á efnahagsumsvifum
Vinnumarkaðurinn hefur staðið af sér vaxtahækkanir síðustu ára og þótt eftirspurn eftir starfsfólki hafi minnkað er enn þó nokkur spenna á markaðnum. Nýir kjarasamningar kveða á um hóflegri launahækkanir en þeir síðustu og líklega dregur úr launaskriði eftir því sem þensla í hagkerfinu minnkar.
Peningaseðlar
13. maí 2024
Vikubyrjun 13. maí 2024
Samhliða því sem vextir hafa hækkað hafa innlán heimilanna aukist verulega. Þetta hefur skilað sér í stórauknum vaxtatekjum til heimila sem eru nú orðnar meiri en vaxtagjöld.
Fjölbýlishús
10. maí 2024
Spáum hækkandi íbúðaverði
Íbúðaverð hefur hækkað jafnt og þétt á síðustu mánuðum. Í nýrri hagspá spáum við því að það hækki um 7% á þessu ári og um 8-9% næstu tvö ár. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun spáir því að nýjum fullbúnum íbúðum fækki með hverju árinu og fjöldi þeirra komist ekki nálægt því að mæta íbúðaþörf.
Fólk við Geysi
7. maí 2024
Annað metár í ferðaþjónustu í uppsiglingu?
Síðasta ár var metár í íslenskri ferðaþjónustu á flesta mælikvarða, þó ekki hafi verið slegið met í fjölda ferðamanna. Hlutur ferðaþjónustunnar af landsframleiðslu var um 8,8% í fyrra og hefur aldrei verið stærri. Í nýrri hagspá gerum við ráð fyrir að fjöldi ferðamanna í ár jafni metið frá 2018 og að verðmætin sem greinin skili af sér verði meiri en nokkru sinni fyrr.
6. maí 2024
Vikubyrjun 6. maí 2024
Álit markaðsaðila á taumhaldi peningastefnu hefur breyst verulega á síðustu mánuðum þrátt fyrir að stýrivextir hafa verið óbreyttir síðan í ágúst í fyrra. Skýrist það af að verðbólga hefur hjaðnað og hægst hefur á hagkerfinu.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur