Spáum 7,6% verðbólgu í október
Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,36% milli mánaða í október og að verðbólga lækki úr 8% og í 7,6%. Reiknuð húsaleiga, þ.e. kostnaður við að búa í eigin húsnæði, hækkar um 0,6% og vegur mest til hækkunar á vísitölu neysluverðs gangi spá okkar eftir. Verð á mat- og drykkjarvörum, bensíni og húsgögnum og heimilisbúnaði hækkar einnig á milli mánaða.
Spáum því að reiknuð húsaleiga hækki
Töluvert hefur hægt á íbúðaverðshækkunum og samhliða hefur dregið úr áhrifum húsnæðisverðs á ársverðbólguna. Ágúst var fyrsti mánuðurinn frá apríl 2021 sem húsnæðisliðurinn var ekki veigamesti hluti verðbólgunnar. Í síðasta mánuði hækkaði reiknuð húsaleiga eftir að hafa lækkað mánuðina tvo þar á undan. Við gerum ráð fyrir litlum breytingum á þróun húsnæðisverðs fram yfir áramót, og að áhrif vaxtahlutans til hækkunar dragist saman. Húsnæðisverð sveiflast þó eflaust eitthvað til milli mánaða en heildarþróunin verður sú að húsnæðisverð standi nokkurnveginn í stað á allra næstu mánuðum. Í október spáum við því að reiknuð húsaleiga hækki um 0,6%, þar sem húsnæðisverð hækki um 0,1% en að framlag vaxtabreytinga verði 0,5 prósentustig til hækkunar.
Matarkarfan hækkar í verði
Við spáum því að verð á mat- og drykkjarvörum hækki um 0,4% milli mánaða í október. Nýlega tilkynnti verðlagsnefnd búvara um hækkun á heildsöluverði á mjólk. Sú hækkun tók gildi 9. október, sem er í verðkönnunarvikunni. Við gerum ráð fyrir að sú hækkun skili sér inn í mælingu á vísitölu neysluverðs að hluta núna.
Verð á flugfargjöldum breytist lítið
Á fyrstu fimm mánuðum ársins var að meðaltali 23% dýrara að fljúga til útlanda en á sama tímabili í fyrra. Frá því í júní hefur þessi munur minnkað verulega. Í júlí og ágúst var einungis 2% dýrara að fljúga til útlanda en í sömu mánuðum í fyrra. Í september lækkaði verð á flugfargjöldum um 10,6%, en við höfðum spáð 18,7% lækkun. Í október spáum við örlítilli lækkun milli mánaða eða um 0,2%. Samkvæmt verðathugun okkar kostar bensínlítrinn að meðaltali 318,14 krónur á höfuðborgarsvæðinu og dísellítrinn 316,1 krónur. Þetta er 1,2% hækkun milli mánaða, en heimsmarkaðsverð á olíu hefur hækkað síðasta mánuðinn. Auk þess gerum við ráð fyrir að verð á nýjum bílum hækki aðeins milli mánaða. Alls teljum við að áhrif ferða og flutninga vegi 0,07 prósentustig til hækkunar á vísitölunni.
Spá um októbermælingu VNV
Undirliður | Vægi í VNV | Breyting (spá) | Áhrif (spá) |
Matur og drykkjarvara | 14,9% | 0,4% | 0,06% |
Áfengi og tóbak | 2,4% | 0,1% | 0,00% |
Föt og skór | 3,9% | -0,3% | -0,01% |
Húsnæði án reiknaðrar húsaleigu | 9,7% | 0,3% | 0,02% |
- Reiknuð húsaleiga | 19,0% | 0,6% | 0,11% |
Húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. | 6,3% | 0,6% | 0,04% |
Heilsa | 3,7% | 0,1% | 0,00% |
Ferðir og flutningar (annað) | 3,8% | 0,3% | 0,01% |
- Kaup ökutækja | 6,1% | 0,4% | 0,02% |
- Bensín og díselolía | 3,0% | 1,2% | 0,04% |
- Flugfargjöld til útlanda | 1,9% | -0,2% | 0,00% |
Póstur og sími | 1,6% | -0,3% | -0,01% |
Tómstundir og menning | 10,0% | 0,3% | 0,03% |
Menntun | 1,0% | -0,1% | 0,00% |
Hótel og veitingastaðir | 5,4% | 0,3% | 0,02% |
Aðrar vörur og þjónusta | 7,3% | 0,4% | 0,03% |
Alls | 100,0% | 0,36% |
Gerum ráð fyrir að verðbólga breytist lítið út árið en lækki í janúar
Við gerum ráð fyrir að verðbólga verði 7,6% í október og 7,5% bæði í nóvember og desember. Spá okkar til næstu mánaða er því aðeins hærri en sú síðasta, sem við birtum í lok september. Spáin er 0,2% hærri fyrir október og 0,5% hærri fyrir nóvember og desember. Það eru þrjár megin ástæður fyrir því að við hækkum spána. Í fyrsta lagi benti verðathugun okkar til meiri hækkana á matvörum en við gerðum áður ráð fyrir. Í öðru lagi gerum við ráð fyrir hærra verði á bensín og díselolíu vegna hækkunar á heimsmarkaðsverði á olíu og í þriðja lagi gerum við ráð fyrir að litlar breytingar verði á þróun íbúðaverðs á næstu mánuðum, en við höfðum áður spáð lítillegri lækkun. Við gerum litlar sem engar breytingar á öðrum undirliðum.
Eftir áramót teljum við að verðbólga hjaðni töluvert hraðar og verði 6,2% í janúar. Mánaðarbreytingar á vísitölu neysluverðs voru töluverðar á fyrstu mánuðum þessa árs.Þegar þær mælingar detta út úr ársmælingunni gerum við ráð fyrir að verðbólgan hjaðni hraðar.
Greinin var leiðrétt 12. október kl. 14:57.