Spá­um 7,5% verð­bólgu í ág­úst

Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,18% milli mánaða í ágúst og að ársverðbólga lækki úr 7,6% í 7,5%. Útsölulok hafa mest áhrif til hækkunar milli mánaða samkvæmt spánni. Það sem helst dregur spána niður er húsnæðisverð og árstíðabundin lækkun á flugfargjöldum til útlanda.
Fataverslun
17. ágúst 2023

Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,18% milli mánaða í ágúst og að ársverðbólga lækki úr 7,6% í 7,5%. Útsölulok á fötum, skóm, húsgögnum og heimilisbúnaði hefur mest áhrif til hækkunar, gangi spáin eftir. Á móti vegur ekki síst lækkun á flugfargjöldum til útlanda. Áhrif útsöluloka og lækkunar flugfargjalda til útlanda eru árstíðabundin og segja lítið um undirliggjandi verðbólguþrýsting. Við búumst við að reiknuð húsaleiga lækki milli mánaða annan mánuðinn í röð. Þá teljum við að markaðsverð húsnæðis lækki um 0,8% en áhrif vaxtabreytinga verði til hækkunar, um 0,5 prósentustig.

Spáum því að reiknuð húsaleiga lækki

Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 0,8% milli mánaða í júlí, samkvæmt mælingu HMS. Við gerum ráð fyrir að mæling Hagstofunnar, sem nær yfir landið allt, verði svipuð. Á móti gerum við ráð fyrir því að áhrif vaxtabreytinga verði 0,5% til hækkunar. Við gerum því ráð fyrir að liðurinn reiknuð húsaleiga lækki um 0,3% í ágúst. Áhrif vaxtahækkana hafa komið skýrt fram á íbúðamarkaði og við gerum ráð fyrir að vísitala íbúðaverðs lækki áfram lítillega næstu mánuði. Íbúðaverð hefur þó sveiflast nokkuð síðustu mánuði og því eins líklegt að það hækki einhverja mánuði, þó þróunin verði líklega niður á við.

Sumarútsölurnar ganga til baka

Verðlækkun á sumarútsölum í júlí var nokkuð rífleg og föt og skór lækkuðu um 8,7% milli mánaða. Þegar faraldurinn stóð yfir dró verulega úr áhrifum útsala og nam lækkunin til að mynda aðeins 3,6% í júlí 2020 og 5% í júlí 2021. Útsölurnar í ár voru því áþekkar því sem var fyrir faraldur þegar föt og skór lækkuðu yfirleitt í kringum 10%. Áhrif útsöluloka koma yfirleitt fram bæði í ágúst og september og gerum við ráð fyrir því að liðurinn föt og skór hækki um 4,8% í ágúst.

Við gerum einnig ráð fyrir að liðurinn húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. hækki í ágúst vegna útsöluloka og spáum um 1,2% hækkun.

Bensínverð hækkar og flugfargjöld lækka í ágúst

Samkvæmt verðmælingu okkar er meðalverð á bensínlítranum á höfuðborgarsvæðinu nú 309,2 krónur en var 307,2 krónur í júlí. Lítri af dísilolíu kostar 305,8 krónur og er óbreytt frá júlí. Vægi bensíns í vísitölunni er meira en dísilolíu og gerum við ráð fyrir að liðurinn bensín og dísilolía hækki um 0,5% milli mánaða.

Á fyrstu fimm mánuðum ársins var að meðaltali 23% dýrara að fljúga til útlanda en á sama tímabili í fyrra. Í júní og júlí dróst þessi munur verulega saman og flugfargjöld voru aðeins 2% dýrari í júlí í ár en í fyrra. Sú þróun kom okkur nokkuð á óvart, enda virðist vera mikil eftirspurn eftir flugi sem sést meðal annars á mikilli sætanýtingu hjá Icelandair og Play. Í spá okkar til næstu mánaða gerum við ráð fyrir að verð á flugfargjöldum til útlanda verði svipað og í fyrra. Þó er gott að hafa í huga að verð á flugfargjöldum sveiflast töluvert og erfitt að spá fyrir um breytingar milli stakra mánuða.

Spá um ágústmælingu VNV

       
Undirliður Vægi í VNV Breyting (spá) Áhrif (spá)
Matur og drykkjarvara 14,9% 0,2% 0,03%
Áfengi og tóbak 2,4% 0,3% 0,01%
Föt og skór 3,6% 4,8% 0,17%
Húsnæði án reiknaðrar húsaleigu 9,7% 0,4% 0,04%
- Reiknuð húsaleiga 19,0% -0,3% -0,05%
Húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. 6,3% 1,2% 0,07%
Heilsa 3,7% 0,1% 0,01%
Ferðir og flutningar (annað) 3,8% 0,2% 0,01%
- Kaup ökutækja 6,2% 0,0% 0,00%
- Bensín og díselolía 2,9% 0,5% 0,01%
- Flugfargjöld til útlanda 2,3% -8,5% -0,19%
Póstur og sími 1,7% -0,5% -0,01%
Tómstundir og menning 9,9% 0,0% 0,00%
Menntun 1,0% 1,0% 0,01%
Hótel og veitingastaðir 5,4% 0,8% 0,04%
Aðrar vörur og þjónusta 7,3% 0,4% 0,03%
Alls 100,0%   0,18%

Spáum 6,2% verðbólgu í nóvember

Spá okkar til næstu mánaða gerir ráð fyrir að vísitalan lækki um 0,07% milli mánaða í september, hækki um 0,08% í október og lækki síðan um 0,16% í nóvember. Gangi spáin eftir verður verðbólga 7,3% í september, 6,7% í október og 6,2% í nóvember. Þetta er minni verðbólga en í síðustu spá sem við birtum eftir júlímælingu Hagstofunnar. Munurinn skýrist nær eingöngu af því að við gerum ráð fyrir lítilsháttar lækkun á húsnæði næstu mánuði.

Töluverð óvissa er um þróun á bæði íbúðaverði og flugfargjöldum til útlanda næstu mánuði, stórum liðum í vísitölunni sem gætu sveiflast nokkuð. Ef verðþróun á flugfargjöldum verður til dæmis nær því sem var á fyrstu mánuðum ársins yrði verðbólgan meiri en við spáum hér.

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
3. des. 2024
Fréttabréf Greiningardeildar 3. desember 2024
Mánaðarlegt fréttabréf frá Greiningardeild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
Sendibifreið og gámar
2. des. 2024
Vikubyrjun 2. desember 2024
Í síðustu viku bárust upplýsingar um að verðbólga hefði lækkaði úr 5,1% niður í 4,5% í nóvember og að landsframleiðslan hefði dregist saman um 0,5% að raunvirði á milli ára á þriðja ársfjórðungi. Í vikunni birtir Seðlabankinn tölur um viðskiptajöfnuð við útlönd, fundargerð peningastefnunefndar og yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar.
Lyftari í vöruhúsi
29. nóv. 2024
0,5% samdráttur á þriðja ársfjórðungi
Hagkerfið dróst saman á milli ára á þriðja ársfjórðungi, samkvæmt nýbirtum þjóðhagsreikningum Hagstofunnar. Verri afkoma þjónustuviðskipta við útlönd skýrir að stórum hluta samdráttinn á fjórðungnum. Innlend eftirspurn jókst um 0,8% milli ára og samneysla og aukin fjármunamyndun vógu þyngst til hækkunar.
29. nóv. 2024
Merki um minna framboð leiguhúsnæðis 
Skammtímaleiga í gegnum Airbnb hefur stóraukist eftir faraldurinn og framboð á íbúðum til langtímaleigu virðist hafa minnkað á móti. Þessi þróun gæti hafa átt þátt í að þrýsta upp leiguverðinu. Stærstur hluti Airbnb-íbúðanna er leigður út af leigusölum með fleiri en tvær íbúðir í útleigu.
28. nóv. 2024
Verðbólga yfir væntingum í nóvember
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,09% á milli mánaða í nóvember, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Íslands. Ársverðbólga lækkar því úr 5,1% í 4,8%, eða um 0,3 prósentustig. Reiknuð húsaleiga hafði mest áhrif til hækkunar vísitölunnar og flugfargjöld til útlanda mest áhrif til lækkunar.
Hús í Reykjavík
26. nóv. 2024
Rólegri taktur á íbúðamarkaði?
Nýjustu gögn af íbúðamarkaði benda til þess að lítillega hafi dregið úr eftirspurn. Grindavíkuráhrifin eru líklega tekin að fjara út og hugsanlega heldur fólk að sér höndum nú þegar vaxtalækkunarferlið er nýhafið og loks glittir í ódýrari fjármögnun. Verðið gæti tekið hratt við sér þegar vextir lækka af meiri alvöru.
Seðlabanki Íslands
25. nóv. 2024
Vikubyrjun 25. nóvember 2024
Seðlabankinn lækkaði stýrivexti um 0,5 prósentustig í síðustu viku, í takt við væntingar. Í þessari viku birtir Hagstofan verðbólgumælingu nóvembermánaðar en við eigum von á að verðbólga hjaðni úr 5,1% í 4,5%. Á föstudag, þegar Hagstofan birtir þjóðhagsreikninga, kemur svo í ljós hvernig hagvöxtur þróaðist á þriðja ársfjórðungi.
Paprika
19. nóv. 2024
Mun verðbólga húrrast niður næstu mánuði? 
Við spáum því að verðbólga lækki nokkuð hratt allra næstu mánuði og í nýlegri verðbólguspá gerum við ráð fyrir að verðbólga verði komin niður í 3,5% í febrúar, sem er talsverð hjöðnun frá núverandi gildum. Það er því ágætt að staldra við og skoða hvaða þættir munu skýra lækkunina, gangi spá okkar eftir. 
Greiðsla
18. nóv. 2024
Vikubyrjun 18. nóvember 2024
Við gerum ráð fyrir því að peningastefnunefnd lækki vexti um 0,50 prósentustig á miðvikudaginn. Verðmælingar vegna nóvembermælingar vísitölu neysluverðs fóru fram í síðustu viku, en við spáum því að verðbólga hjaðni úr 5,1% niður í 4,5%. Tæplega 5% fleiri erlendir ferðamenn fóru um Keflavíkurflugvöll í október í ár en í fyrra og kortavelta þeirra hér á landi jókst um 5,4% miðað við fast verðlag. Kortavelta Íslendinga jókst um 6,8% að raunvirði á milli ára í október.
14. nóv. 2024
Spáum vaxtalækkun um 0,5 prósentustig í næstu viku
Verðbólga hefur hjaðnað nokkuð kröftuglega á síðustu mánuðum og við spáum því að hún mælist 4,5% í nóvember. Loks má greina merki um hægari gang í neyslu heimilanna og íbúðaverð virðist vera á minna flugi en áður. Þá virðist eftirspurn eftir vinnuafli hafa minnkað auk þess sem hægt hefur á launahækkunum. Peningalegt aðhald hefur aukist statt og stöðugt og landsframleiðsla gæti orðið lítillega minni á þessu ári en því síðasta.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur