Spáum 7,5% verðbólgu í ágúst
Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,18% milli mánaða í ágúst og að ársverðbólga lækki úr 7,6% í 7,5%. Útsölulok á fötum, skóm, húsgögnum og heimilisbúnaði hefur mest áhrif til hækkunar, gangi spáin eftir. Á móti vegur ekki síst lækkun á flugfargjöldum til útlanda. Áhrif útsöluloka og lækkunar flugfargjalda til útlanda eru árstíðabundin og segja lítið um undirliggjandi verðbólguþrýsting. Við búumst við að reiknuð húsaleiga lækki milli mánaða annan mánuðinn í röð. Þá teljum við að markaðsverð húsnæðis lækki um 0,8% en áhrif vaxtabreytinga verði til hækkunar, um 0,5 prósentustig.
Spáum því að reiknuð húsaleiga lækki
Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 0,8% milli mánaða í júlí, samkvæmt mælingu HMS. Við gerum ráð fyrir að mæling Hagstofunnar, sem nær yfir landið allt, verði svipuð. Á móti gerum við ráð fyrir því að áhrif vaxtabreytinga verði 0,5% til hækkunar. Við gerum því ráð fyrir að liðurinn reiknuð húsaleiga lækki um 0,3% í ágúst. Áhrif vaxtahækkana hafa komið skýrt fram á íbúðamarkaði og við gerum ráð fyrir að vísitala íbúðaverðs lækki áfram lítillega næstu mánuði. Íbúðaverð hefur þó sveiflast nokkuð síðustu mánuði og því eins líklegt að það hækki einhverja mánuði, þó þróunin verði líklega niður á við.
Sumarútsölurnar ganga til baka
Verðlækkun á sumarútsölum í júlí var nokkuð rífleg og föt og skór lækkuðu um 8,7% milli mánaða. Þegar faraldurinn stóð yfir dró verulega úr áhrifum útsala og nam lækkunin til að mynda aðeins 3,6% í júlí 2020 og 5% í júlí 2021. Útsölurnar í ár voru því áþekkar því sem var fyrir faraldur þegar föt og skór lækkuðu yfirleitt í kringum 10%. Áhrif útsöluloka koma yfirleitt fram bæði í ágúst og september og gerum við ráð fyrir því að liðurinn föt og skór hækki um 4,8% í ágúst.
Við gerum einnig ráð fyrir að liðurinn húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. hækki í ágúst vegna útsöluloka og spáum um 1,2% hækkun.
Bensínverð hækkar og flugfargjöld lækka í ágúst
Samkvæmt verðmælingu okkar er meðalverð á bensínlítranum á höfuðborgarsvæðinu nú 309,2 krónur en var 307,2 krónur í júlí. Lítri af dísilolíu kostar 305,8 krónur og er óbreytt frá júlí. Vægi bensíns í vísitölunni er meira en dísilolíu og gerum við ráð fyrir að liðurinn bensín og dísilolía hækki um 0,5% milli mánaða.
Á fyrstu fimm mánuðum ársins var að meðaltali 23% dýrara að fljúga til útlanda en á sama tímabili í fyrra. Í júní og júlí dróst þessi munur verulega saman og flugfargjöld voru aðeins 2% dýrari í júlí í ár en í fyrra. Sú þróun kom okkur nokkuð á óvart, enda virðist vera mikil eftirspurn eftir flugi sem sést meðal annars á mikilli sætanýtingu hjá Icelandair og Play. Í spá okkar til næstu mánaða gerum við ráð fyrir að verð á flugfargjöldum til útlanda verði svipað og í fyrra. Þó er gott að hafa í huga að verð á flugfargjöldum sveiflast töluvert og erfitt að spá fyrir um breytingar milli stakra mánuða.
Spá um ágústmælingu VNV
Undirliður | Vægi í VNV | Breyting (spá) | Áhrif (spá) |
Matur og drykkjarvara | 14,9% | 0,2% | 0,03% |
Áfengi og tóbak | 2,4% | 0,3% | 0,01% |
Föt og skór | 3,6% | 4,8% | 0,17% |
Húsnæði án reiknaðrar húsaleigu | 9,7% | 0,4% | 0,04% |
- Reiknuð húsaleiga | 19,0% | -0,3% | -0,05% |
Húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. | 6,3% | 1,2% | 0,07% |
Heilsa | 3,7% | 0,1% | 0,01% |
Ferðir og flutningar (annað) | 3,8% | 0,2% | 0,01% |
- Kaup ökutækja | 6,2% | 0,0% | 0,00% |
- Bensín og díselolía | 2,9% | 0,5% | 0,01% |
- Flugfargjöld til útlanda | 2,3% | -8,5% | -0,19% |
Póstur og sími | 1,7% | -0,5% | -0,01% |
Tómstundir og menning | 9,9% | 0,0% | 0,00% |
Menntun | 1,0% | 1,0% | 0,01% |
Hótel og veitingastaðir | 5,4% | 0,8% | 0,04% |
Aðrar vörur og þjónusta | 7,3% | 0,4% | 0,03% |
Alls | 100,0% | 0,18% |
Spáum 6,2% verðbólgu í nóvember
Spá okkar til næstu mánaða gerir ráð fyrir að vísitalan lækki um 0,07% milli mánaða í september, hækki um 0,08% í október og lækki síðan um 0,16% í nóvember. Gangi spáin eftir verður verðbólga 7,3% í september, 6,7% í október og 6,2% í nóvember. Þetta er minni verðbólga en í síðustu spá sem við birtum eftir júlímælingu Hagstofunnar. Munurinn skýrist nær eingöngu af því að við gerum ráð fyrir lítilsháttar lækkun á húsnæði næstu mánuði.
Töluverð óvissa er um þróun á bæði íbúðaverði og flugfargjöldum til útlanda næstu mánuði, stórum liðum í vísitölunni sem gætu sveiflast nokkuð. Ef verðþróun á flugfargjöldum verður til dæmis nær því sem var á fyrstu mánuðum ársins yrði verðbólgan meiri en við spáum hér.