Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur

Skýr við­snún­ing­ur í hag­kerf­inu á síð­asta ári

Hagvöxtur mældist 4,1% árið 2023, samkvæmt fyrsta mati Hagstofunnar. Vöxturinn var meiri en búist var við, en það skýrist ekki síst af miklum breytingum í nýjustu uppfærslu Hagstofunnar á gögnum um 1. til 3. ársfjórðung. Árið hófst af miklum krafti en eftir því sem leið á það hægðist um og hver fjórðungur var rólegri en sá á undan.
29. febrúar 2024

Samkvæmt fyrsta mati Hagstofunnar mældist 4,1% hagvöxtur í fyrra. Einkaneysla jókst um 0,5% milli ára, fjármunamyndun dróst saman um 0,6%, útflutningur jókst um 4,8% og innflutningur dróst saman um 6%. Hvort sem horft er á hagvöxt í heild, einkaneyslu, fjármunamyndun, útflutning eða innflutning er heildarsagan sú sama. Árið hófst af miklum krafti en eftir því sem leið á það hægðist um og hver fjórðungur var rólegri en sá á undan.

Á fjórða ársfjórðungi dró bæði úr einkaneyslu og fjármunamyndun á milli ára. Útflutningur stóð í stað á fjórðungum en innflutningur dróst saman um heil 6%. Hagvöxtur mældist 0,6% á fjórðungnum sem má rekja til mikils samdráttar í innflutningi, sem rímar ágætlega við samdráttinn í einkaneyslu og fjármunamyndun, en samdráttur í innflutningi kemur til aukningar á landsframleiðslu.

Meiri hagvöxtur en búist var við skýrist ekki síst af uppfærslu á gögnum um 1. til 3. ársfjórðung

Hagvöxtur í fyrra var nokkuð meiri en búist var við, en það skýrist aðallega af uppfærslu Hagstofunnar á áður birtum gögnum um fyrstu níu mánuði ársins. Samhliða birtingu á gögnum fyrir fjórða ársfjórðung voru birtar í morgun uppfærðar tölur yfir fjórðungana á undan. Í ljós kemur þó nokkuð meiri hagvöxtur í upphafi árs en fyrstu tölur höfðu gefið til kynna. Í stað 4,2% hagvaxtar á fyrstu 9 mánuðum ársins gerir Hagstofan nú ráð fyrir að hagvöxtur hafi verið 5,3%. Því má segja að nýjustu hagspár fyrir árið 2023 hafi byggt á gögnum sem nú hafa tekið þó nokkrum breytingum.

Hagstofan uppfærði einnig tölur fyrir árin 2020 til 2022. Stærsta breytingin var að í stað 7,2% hagvaxtar árið 2022 mælist hann nú 8,9%. Munar hér mest um að atvinnuvegafjárfesting var að mati Hagstofunnar töluvert vanmetin í fyrri tölum, en tölurnar nú byggja á nákvæmari gögnum um fjármunamyndun sem urðu aðgengileg undir lok síðasta árs.

Einkaneysla dróst saman um 2,3%

Einkaneysla dróst saman annan ársfjórðunginn í röð, um 2,3% á fjórða ársfjórðungi og um 1,1% á þeim þriðja. Samdráttur í einkaneyslu var viðbúinn, enda hefur kortavelta Íslendinga nú dregist saman milli ára síðustu níu mánuði. Einkaneysla jókst um 0,5% á árinu öllu. Hún jókst af nokkrum krafti í upphafi árs eftir ríflegar launahækkanir og eingreiðslur í kjölfar kjaraviðræðna. Síðasta vor varð svo ljóst að hækkandi vaxtastig væri farið að segja til sín í heimilisbókhaldi landsmanna, sem héldu í auknum mæli aftur af neysluaukningu og fækkuðu utanlandsferðum.

Það er tiltölulega fátítt að einkaneysla dragist saman milli ára. Hún dróst saman þrjá ársfjórðunga í röð á meðan á faraldrinum stóð og samfellt í eitt og hálft ár í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Að öðru leyti hefur hún aukist nær alla fjórðunga frá því árið 2003 og meðalaukning í fjórðungi er 2,7% frá aldamótum.

Hafa ber í huga að samkvæmt mannfjöldatölum Hagstofunnar fjölgaði landsmönnum um 3% á árinu 2023. Þótt einkaneysla landsmanna í heild hafi aukist um 0,5% dróst einkaneysla á mann því saman um 2,5%. Þessu þarf þó að taka með þeim fyrirvara að enn er beðið eftir uppfærðum mannfjöldatölum frá Hagstofunni, en talið er að mannfjöldi sé ofmetinn í þeim gögnum sem nú eru aðgengileg.

Samneysla jókst um 2,9% á fjórða ársfjórðungi

Samneysla jókst um 2,2% í fyrra, eftir 2,3% vöxt árið 2022. Samneysla jókst mest á fjórða ársfjórðungi, um 2,9%. Að einhverju leyti hlýtur að mega rekja þessi aukna samneyslu síðustu ár til fjölgunar landsmanna en Hagstofan áætlar að birta nánari umfjöllun um fjármál hins opinbera um miðjan mars.

Fjármunamyndun dróst saman milli ára

Fjármunamyndun, sem samanstendur af atvinnuvegafjárfestingu, íbúðafjárfestingu og fjárfestingu hins opinbera dróst saman á fjórða ársfjórðungi, sem má rekja til þess að atvinnuvegafjárfesting dróst saman um 15% á meðan íbúðafjárfesting og fjárfesting hins opinbera jókst á milli ársfjórðunga. Á árinu í heild jókst almenn atvinnuvegafjárfesting lítillega en íbúðafjárfesting dróst saman og fjárfesting hins opinbera sömuleiðis.

Samkvæmt uppfærðum tölum tók íbúðafjárfesting að aukast örlítið á þriðja fjórðungi eftir samfelldan samdrátt frá árinu 2021. Hún jókst svo til muna á fjórða fjórðungi, um 9,4%. Áhugavert verður að fylgjast með þróuninni næstu mánuði og hvort þessu mikla aukning á fjórða fjórðungi sé merki um viðsnúning í greininni og aukna íbúðauppbyggingu.

Fjárfesting hins opinbera dróst verulega saman á árinu, aðallega vegna mikils samdráttar á þriðja ársfjórðungi sem skýrist af grunnáhrifum frá sama tímabili árið áður þegar hið opinbera keypti norðurhluta höfuðstöðva Landsbankans við Reykjastræti árið 2022. Þá jókst opinber fjárfesting skyndilega til muna og grunnáhrifin koma fram í miklum samdrætti á þriðja fjórðungi árið 2023.

Jákvætt framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar skýrist af minni innflutningi

Framlag utanríkisverslunar til hagvaxtar var jákvætt um 4,3% á fjórða ársfjórðungi sem skýrist af því að innflutningur dróst saman um 6% á meðan útflutningur stóð í stað. Útflutningur jókst sífellt minna eftir því sem leið á árið í fyrra. Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar stóð hann í stað á lokafjórðungi ársins. Til samanburðar jókst útflutningur um 6,4% á fyrstu þremur fjórðungum ársins.

Vöruútflutningur jókst á loka fjórðungi ársins um 3%, eftir að hafa dregist lítillega saman á öðrum og þriðja ársfjórðungi. Hann jókst um 1,1% yfir árið.

Þjónustuútflutningur var 5,5% minni á fjórða ársfjórðungi 2023 en á sama fjórðungi árið á undan en yfir árið í heild jókst þjónustuútflutningur þó um tæplega 10%. Í byrjun árs jókst þjónustuútflutningur af miklum krafti eftir því sem ferðaþjónustan náði vopnum sínum eftir faraldurinn. Eftir því sem leið á árið hægði svo á vexti í greininni en okkur reiknast til að hann hafi enn mælst rúm 5% á fjórða ársfjórðungi. Samdrátturinn í þjónustuútflutningi á lokafjórðungnum má því ekki rekja til ferðaþjónustu heldur annars þjónustuútflutnings. Enn er því ljóst að ferðaþjónustan leikur lykilhlutverk í aukinni útflutningi.

Minni eftirspurn í hagkerfinu kallar á minni innflutning

Í takt við þróun einkaneyslu og fjármunamyndunar dróst innflutningur saman eftir því sem leið á árið. Það er engin tilviljun að þessir liðir sveiflist með svipuðum hætti, enda stór hluti einkaneyslu og fjármunamyndunar innfluttur. Á lokafjórðungi ársins dróst innflutningur saman um 6% milli ára sem má rekja til bæði samdráttar í vöru- og þjónustuinnflutningi. Þjónustuinnflutningur dróst saman um 4,2% á loka fjórðungi ársins. Það sem helst skýrir þennan samdrátt er minnkandi innflutt ferðaþjónusta eftir því sem leið á árið.

Á árinu í heild dróst innflutningur saman um 1,4%, þar sem vöruinnflutingur dróst saman um 2,6% en þjónustuinnflutningur jókst um 1,2%.

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
Bananar
22. des. 2025
Verðbólgumælingin ekki jafnslæm og hún virðist í fyrstu
Verðbólga rauk upp í 4,5% í desember eftir að hafa hjaðnað verulega í nóvember og mælst 3,7%. Rífleg hækkun á flugfargjöldum til útlanda skýrir stóran hluta hækkunarinnar, en einnig töluverð gjaldskrárhækkun á hitaveitu í desember. Aukin verðbólga skýrist þannig af afmörkuðum, sveiflukenndum liðum og ekki er að greina merki um að undirliggjandi verðbólguþrýstingur hafi aukist að ráði.
Vélsmiðja Guðmundar
22. des. 2025
Vikubyrjun 22. desember 2025
Fasteignamarkaðurinn fer enn kólnandi, ef marka má skýrslu sem HMS gaf út í síðustu viku. Gistinóttum á hótelum fækkaði um 6,6% á milli ára í nóvember. Kaupmáttur ráðstöfunartekna jókst um 1,9% á milli ára á þriðja ársfjórðungi, samkvæmt Hagstofunni. Í dag birtir Hagstofan verðbólgutölur.
Flugvél
15. des. 2025
Vikubyrjun 15. desember 2025
Færri erlendir ferðamenn heimsóttu Ísland í nóvember í ár en í nóvember í fyrra en utanlandsferðum Íslendinga hélt áfram að fjölga. Skráð atvinnuleysi hefur aukist þó nokkuð á síðustu mánuðum og var 4,3% í nóvember.
11. des. 2025
Spáum 3,9% verðbólgu í desember
Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,56% á milli mánaða í desember. Gangi spáin eftir mun verðbólga hækka úr 3,7% í 3,9% í desember. Flugfargjöld til útlanda, reiknuð húsaleiga og lok tilboðsdaga í nóvember verða til hækkunar en bensínverð til lækkunar. Við gerum ráð fyrir að verðbólga verði á bilinu 3,9% til 4,0% næstu mánuði.
8. des. 2025
Vikubyrjun 8. desember 2025
Talsvert minni afgangur mældist af viðskiptum við útlönd á þriðja ársfjórðungi þessa árs en þess síðasta. Í síðustu viku gaf Seðlabankinn út yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar og fundargerð peningastefnunefndar. Í þessari viku verða birtar ferðamannatölur og skráð atvinnuleysi fyrir nóvembermánuð.
1. des. 2025
Mánaðamót 1. desember 2025
Mánaðarlegt fréttabréf frá Greiningardeild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
1. des. 2025
Vikubyrjun 1. desember 2025
Óhætt er að segja að verðbólgumælingin í síðustu viku hafi komið á óvart. Verðbólga mældist 3,7% í nóvember og hefur ekki mælst minni í fimm ár. Hagstofan áætlar að landsframleiðsla hafi aukist um 1,2% á þriðja ársfjórðungi. Gistinóttum fjölgaði alls um 1,8% á milli ára í október.
Flutningaskip
28. nóv. 2025
1,2% hagvöxtur á þriðja fjórðungi
Landsframleiðsla jókst um 1,2% á þriðja ársfjórðungi og um 1,5% á fyrstu níu mánuðum ársins. Hagvöxtur á þriðja ársfjórðungi var drifinn áfram af innlendri eftirspurn og þjóðarútgjöld jukust um heil 4,7%. Áfram er kraftur í einkaneyslu og fjárfestingu, en auknar birgðir hafa einnig sitt að segja. Innflutningur vegur þungt á móti og framlag utanríkisviðskipta er neikvætt, líkt og á síðustu fjórðungum.
Epli
27. nóv. 2025
Verðbólga ekki minni í fimm ár
Verðbólga hjaðnaði úr 4,3% í 3,7% í nóvember og hefur ekki verið minni frá því í desember 2020. Áhrif af afsláttardögum í nóvember komu mun skýrar fram í mælingu Hagstofunnar nú en síðustu ár og flugfargjöld til útlanda lækkuðu mun meira en við bjuggumst við.
Byggingakrani
24. nóv. 2025
Vikubyrjun 24. nóvember 2025
Seðlabankinn lækkaði vexti í síðustu viku með það fyrir augum að stemma stigu við því aukna peningalega aðhaldi sem hefur hlotist af breyttu lánaframboði í kjölfar vaxtadómsins. Auk þess spáir Seðlabankinn nú auknum slaka í hagkerfinu, minni hagvexti og minni verðbólgu en í síðustu spá. Hagstofan birtir verðbólgumælingu nóvembermánaðar á fimmtudaginn og þjóðhagsreikninga fyrir þriðja ársfjórðung á föstudaginn.