Í lok árs 2020 stóð evran í 156,1 krónu. Verðið á evrunni hélt sig á frekar þröngu bili í janúar 2021 og endaði síðan mánuðinn í sama gildi, þ.e. 156,1. Vegna innbyrðis hreyfinga hækkaði verð á Bandaríkjadal og sterlingspundi í krónum talið í janúar, en þessir tveir gjaldmiðlar styrktust á mót evru í janúar.
Velta á millibankamarkaði með gjaldeyri var 32,5 ma.kr. (208 m.evra) í janúar og dróst saman um 61% milli mánaða. Þar af var hlutdeild SÍ 14,6 ma.kr. (93 m.evra), sem er 45% af heildarveltunni. Auk reglulegrar sölu á 3 m.evrum hvern viðskiptadag greip SÍ inn í markaðinn einn dag í janúar, en miðvikudaginn 27. janúar seldi SÍ erlendan gjaldeyri fyrir 4,7 ma.kr. (30 m.evra) til viðbótar við reglulega sölu. Seðlabankinn hefur tilkynnt að hann muni halda reglulegri sölu áfram til og með loka febrúarmánaðar.