Ríkisreikningur 2020 – neikvæð afkoma en ódýrara að fjármagna mikinn halla
Fjársýsla ríkisins hefur nú birt ríkisreikning fyrir árið 2020 og er niðurstaðan sú að rekstrarafkoman var neikvæð um 144 ma.kr. til samanburðar við 42 ma.kr. afgang árið 2019. Tekjur ríkissjóðs námu samtals 801 mö.kr. á árinu 2020 og lækkuðu um 3,4%. Rekstrargjöld voru 990 ma.kr. og jukust um 22,4%. Þar með er ekki öll sagan sögð. Afkoma ríkissjóðs samkvæmt ríkisreikningi er ekki alveg sambanburðarhæf við tölur í fjármálaáætlun og fjárlögum. Til að fá réttan samanburð þarf að aðlaga niðurstöðu ríkisreiknings að þeim hagskýrslustaðli sem notaður er í fjárlögum og fjármálaáætlun.
Á þeim grunni var heildarafkoma ríkissjóðs neikvæð um 218 ma.kr. í fyrra sem er um 208 ma.kr. lakari niðurstaða en endurskoðuð áætlun ársins gerði ráð fyrir. Fjárlög ársins 2020 gerðu hins vegar ráð fyrir að heildarafkoma yrði neikvæð um 10 ma.kr.
Heildarskuldir ríkissjóðs eins og þær birtast í efnahagsreikningi voru um síðustu áramót um 2.300 ma.kr., og höfðu hækkað um tæp 20% milli ára að nafnvirði. Langtímaskuldir voru um 1.085 ma.kr. og hækkuðu um tæp 15%. Ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar voru 746 ma.kr. í lok árs 2020 og jukust um rúm 3% sem er mun minna en var árin þar á undan. Skammtímaskuldir jukust mikið á milli ára eða um tæp 83%.
Skuldir ríkissjóðs sem hlutfall af landsframleiðslu jukust úr 63% upp í 78% miðað við þessa skilgreiningu, en landsframleiðslan dróst líka saman í fyrra. Til samanburðar fóru skuldir ríkissjóðs upp undir 110% af landsframleiðslu á árinu 2011.
Þrátt fyrir skuldaukningu lækkuðu vaxtagjöld ríkissjóðs um rúm 3% milli 2019 og 2020, en vaxtatekjur þrefölduðust milli ára. Vaxtajöfnuður batnaði þannig um u.þ.b. 10 ma.kr. milli ára og var um 46 ma.kr. á árinu 2020.
Þrátt fyrir verulega skuldaaukningu á síðasta ári er nokkuð ljóst að mun ódýrara er nú fyrir ríkissjóð að fjármagna hallarekstur en var í síðustu kreppu. Á árinu 2009, í upphafi fjármálakreppunnar, námu vaxtagjöld ríkissjóðs rúmum 19% af tekjum ársins. Í fyrra var þetta hlutfall 7,6% og var og var óbreytt frá fyrra ári þrátt fyrir skuldaaukninguna og lækkun tekna. Kjör á lánsfjármörkuðum eru nú verulega betri en var í síðustu kreppu þannig að fjármögnun mikils halla er mun ódýrari.
Lesa Hagsjána í heild:
Hagsjá: Ríkisreikningur 2020 – neikvæð afkoma en ódýrara að fjármagna mikinn halla