Opinber fjárfesting kemur ekki alltaf þótt hún hafi verið áformuð
Útboðsþing Samtaka iðnaðarins er jafnan haldið í upphafi árs. Þar kynna opinberir aðilar þær verklegu framkvæmdir sem áformað er að bjóða út á árinu. Niðurstöður síðustu þriggja ára benda til þess að langt sé á milli hugmynda og yfirlýsinga um opinberar fjárfestingar sem koma fram á þinginu og þess að koma þeim í framkvæmd.
Á síðasta útboðsþingi í lok janúar voru kynnt opinber verkefni fyrir um 139 ma.kr. Á þinginu í fyrra voru kynnt verkefni fyrir um 132 ma.kr. þannig að áætlað umfang nú er rúmum 7 mö.kr. meira en í fyrra.
Eftir þingið birtu Samtök iðnaðarins samanburð á þeim áætlunum sem komu fram á þinginu 2020 og því sem framkvæmt var á árinu. Þar kemur í ljós að töluvert var í land með að áætlanir aðila gengju upp. Af tölunum að dæma sést að í kringum 70% áætlana hafi komist til framkvæmda.
Heildarumfang opinberrar fjárfestingar birtist jafnan í þjóðhagsreikningum, bæði birt miðað við ársfjórðunga og heil ár. Á útboðsþingi ársins 2019 voru kynnt áform stærstu aðila upp á um 128 ma.kr. Niðurstaða þjóðhagsreikninga varðandi opinbera fjárfestingu á 2019 var um 108 ma.kr., eða um 80% af áformum. Birt voru áform um opinber verkefni upp á 132 ma.kr. í upphafi ársins 2020. Bráðabirgðaniðurstaða þjóðhagsreikninga fyrir fyrstu þrjá fjórðunga ársins 2020 er um 66 ma.kr., eða innan við helmingur þess sem stefnt var að. Verði niðurstaða 4. ársfjórðungs í samræmi við þá þrjá fyrstu má ætla að opinber fjárfesting verði um 87 ma.kr. á árinu 2020, eða um 65% af áformum.
Niðurstöður síðustu þriggja ára benda til þess að langt sé á milli hugmynda og yfirlýsinga um opinberar fjárfestingar og þess að koma þeim í framkvæmd. Því má segja að ákveðin léttúð tengist umræðu um komandi fjárfestingar opinberra aðila - það ætti að liggja fyrir að oft sé erfitt að koma þeim í framkvæmd, en þess er yfirleitt ekki getið í yfirlýsingum.
Minnkandi opinberar fjárfestingar eru óneitanlega nokkuð úr korti í ljósi þess að opinbert fjárfestingarátak hefur verið margboðað, t.d. í tengslum við endurskoðun fjármálastefnu vorið 2019, í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sl. vetur um aðgerðir vegna veirufaraldursins og í fjáraukalögum stuttu seinna. Allar þessar yfirlýsingar voru gerðar í ljósi þess að almenn atvinnuvegafjárfesting væri í lágmarki og nú væri rétti tíminn fyrir opinbera aðila að láta til sín taka. Fjárfesting ríkissjóðs var um 67 ma.kr. á árinu 2019 og með fjárlögum og fjáraukalögum hafði verið ákveðin aukning upp á 25 ma.kr. frá síðasta ári, eða 37%. Og aftur var boðað fjárfestingarátak í tengslum við fjármálaáætlun sem lögð var fram í þingbyrjun.
Því miður segir sagan að sum áforma um fjárfestingar séu hugsanlega birt full snemma og ekki sé víst að þau komi til framkvæmda. Auðvitað hefur faraldurinn á síðasta ári haft áhrif í þessu sambandi, en ítrekaðar yfirlýsingar stjórnvalda um stóraukna opinbera fjárfestingu, ekki síst í innviðum, hafa alls ekki staðist og ekki ólíklegt að stór opinber fjárfestingarbylgja kunni að koma samtímis því sem almenn atvinnuvegafjárfesting tekur við sér.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Opinber fjárfesting kemur ekki alltaf þótt hún hafi verið áformuð