Óljós merki um ró­legri vinnu­markað

Á allra síðustu mánuðum hefur mátt greina merki um að dregið hafi úr spennu á vinnumarkaði sem tók að þenjast hratt út eftir faraldurinn. Hlutfall fyrirtækja sem vilja fjölga starfsfólki hefur lækkað, vinnuaflsnotkun eykst hægar en áður og lausum störfum á hvern atvinnulausan hefur fækkað aftur. Þó sýnir mæling Hagstofunnar á slaka að spenna hafi aukist lítillega í haust eftir að dregið hafði úr henni í sumar. Aðflutningur fólks til landsins er í sögulegu hámarki sem ætla má að geti dregið úr spennu á vinnumarkaði.
Krani með stiga
1. desember 2022

Atvinnuleysi stóð í stað á milli mánaða í október, bæði samkvæmt mælingu Hagstofu Íslands og Vinnumálastofnunar. Samkvæmt Vinnumálastofnun var atvinnuleysi 2,8% í október og hélst óbreytt milli mánaða í fyrsta skipti í átta mánuði. Það hefur þar til nú farið minnkandi með hverjum mánuðinum frá því í febrúar á þessu ári, þegar faraldurinn leið undir lok og spenna tók að einkenna vinnumarkaðinn. Óvíst er hvort atvinnuleysi geti yfir höfuð farið lægra og því er óbreytt atvinnuleysi ekki endilega merki um að spennan á vinnumarkaði fari minnkandi. Hagstofugögnin, sem byggja á spurningakönnun, svokallaðri vinnumarkaðsrannsókn, sýna mun meira flökt en samkvæmt þeim var atvinnuleysi 2,7% í september og október.

Vinnuaflsnotkun snarminnkaði í faraldrinum, þegar atvinnuleysi rauk upp í tæp 12%, en tók að aukast aftur strax í maí 2021 og hefur aukist síðan. Hún jókst mest um 12,2% milli ára í maí á þessu ári. Í júní og júlí dró þó snögglega úr aukningunni þegar horft er á breytingar milli ára, starfandi fólki fjölgaði mun minna en mánuðina á undan og vinnustundum fækkaði.

Það er ekki gott að segja hvers vegna hægði snögglega á í júlí. Að einhverju leyti skýrist þetta af grunnáhrifum, sveiflurnar í vinnuaflsnotkun hafa verið mun minni yfir sumarmánuðina en vetrarmánuðina og því ekki endilega furða þótt aukningin sé hófstilltari yfir þá mánuði í ár.

Mat á vinnuaflsþörf minna afgerandi en áður

Í september vildu 33,4% fyrirtækja fjölga starfsfólki, samkvæmt könnun sem Gallup gerir meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækjanna. Í júní var hlutfallið 37,7%. Þetta er enn annað merki þess að hugsanlega hafi dregið lítillega úr spennu á vinnumarkaði. Mest virðist vanta starfsfólk í byggingarstarfsemi og veitum, en þar vildu 51,9% stjórnenda fjölga starfsfólki í september. Næstmest er vöntunin í verslunum, þar sem 48,7% vildu fjölga starfsfólki í september. Það er aðeins í tveimur greinum sem hlutfall fyrirtækja sem vilja fjölga starfsfólki jókst milli mælinga í júní og september, í verslun annars vegar og í samgöngum, flutningum og ferðaþjónustu hins vegar. Þetta eru greinar sem sveiflast mjög með umfangi ferðaþjónustunnar. Enn telja þó tæp 54% stjórnenda vera skort á starfsfólki og hlutfallið stóð nokkurn veginn í stað milli mælinga í júní og september. Seðlabankinn leiðréttir fyrir árstíðasveiflum og því ættu þessar breytingar að vera marktækar.

Lausum störfum fækkar milli fjórðunga en þó sögulega mörg

Fjöldi lausra starfa og hlutfall þeirra af fjölda atvinnulausra gefur ágætis vísbendingu um spennu á vinnumarkaði. Því fleiri sem lausu störfin eru og því fleiri sem þau eru á hvern atvinnulausan, því meiri spenna má ætla að sé á vinnumarkaði. Hvort tveggja er sögulega hátt en minnkaði milli annars og þriðja ársfjórðungs. Gera má ráð fyrir að það skýrist af miklum umsvifum í ferðaþjónustu í sumar og hröðum vexti greinarinnar eftir faraldurinn. Laus störf á þriðja ársfjórðungi þessa árs voru álíka jafnmörg og á sama ársfjórðungi í fyrra. Laus störf á hvern atvinnulausan eru þó nokkuð fleiri en á sama tíma í fyrra, enda hefur atvinnulausum fækkað statt og stöðugt.

Slaknaði á í haust en aftur mælist spenna

Hagstofan mælir slaka á vinnumarkaði með því að reikna hlutfall af mögulegu vinnuafli af mannfjölda. Þegar faraldurinn fór að segja til sín slaknaði hratt á vinnumarkaðnum og það var ekki fyrr en í nóvember 2020 sem þróunin snerist við. Samkvæmt þessu slaknaði aftur á markaðnum í sumar, en þau áhrif virðast gengin til baka og það er erfitt að segja til um það hvað býr að baki þessu flökti.

Atvinnuþátttaka dróst saman á þriðja ársfjórðungi þessa árs, samanborið við ársfjórðunginn á undan. Ef atvinnuþátttaka á 3. ársfjórðungi er borin saman við þátttökuna á sama fjórðungi árið áður sést að hún stendur í stað, en ársbreytingin hafði verið jákvæð fimm ársfjórðunga í röð þar á undan. Svipaða sögu er að segja um hlutfall starfandi sem jókst mun minna milli ára á þriðja ársfjórðungi þessa árs en síðustu fimm ársfjórðungana þar á undan.

Vinnutími hefur styst á síðustu þremur árum, m.a. vegna kjarasamningsbundinnar styttingar vinnuvikunnar. Fleiri eru starfandi á vinnumarkaði en árið 2019, áður en faraldurinn skall á, en hægt hefur á fjölguninni sem stóð í stað milli þriðja ársfjórðungs þessa árs og þess síðasta.

Fólksflutningar í sögulegu hámarki og ættu að draga úr spennu

Fólksflutningar hingað til lands eru í sögulegu hámarki; aldrei hafa jafnmargir flutt til landsins umfram þá sem fluttu burt á fyrstu þremur ársfjórðungum eins og í ár. Líkt og Seðlabankinn kom inn á í síðustu útgáfu Peningamála er óljóst hver áhrif aðflutningsins verða á atvinnuþátttöku enda kemur aðeins hluti fólksins í þeim tilgangi að vinna - óvenjumargir koma nú hingað til þess að flýja stríð og aðrar hörmungar, flestir frá Úkraínu. Enn er einnig óvíst hversu margir koma frá Úkraínu til viðbótar, hversu margir snúa til baka og hvenær.

Það er ljóst að enn ríkir mikil spenna á vinnumarkaði, laun hafa haldið áfram að hækka á síðustu mánuðum þrátt fyrir að engar kjarasamningsbundnar launahækkanir hafi komið til og atvinnuleysi er í eða nálægt lágmarki. Þó virðist hafa hægt á þenslunni á síðustu vikum, lausum störfum á hvern atvinnulausan fækkað í haust og dregið hefur úr áformum fyrirtækja um að fjölga starfsfólki. Aðflutningur vinnuafls til landsins er til þess fallinn að draga úr spennunni en erfitt er að segja til um framhaldið, enda standa nú yfir kjarasamningsviðræður sem ekki sér fyrir endann á.

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
Evrópsk verslunargata
22. júlí 2024
Vikubyrjun 22. júlí 2024
Í síðustu viku birtust gögn sem gáfu til kynna talsverðan kraft á íbúðamarkaði um þessar mundir. Vísitala íbúðaverðs hækkaði um 1,4% milli mánaða í júní og vísitala leiguverðs um 2,5%.
Hús í Reykjavík
18. júlí 2024
Spenna á íbúðamarkaði
Vísitala íbúðaverðs hækkaði um 1,4% á milli mánaða í júní. Árshækkun vísitölu íbúðaverðs jókst úr 8,4% í 9,1% en svo mikil hefur árshækkunin ekki verið síðan í febrúar 2023. Leiguverð hækkaði einnig á milli mánaða í júní, alls um 2,5%. Mikil velta var á íbúðamarkaði í júní og ljóst að íbúðamarkaður hefur tekið verulega við sér.
Gönguleið
15. júlí 2024
Vikubyrjun 15. júlí 2024
Erlendir ferðamenn voru 9% færri í júní á þessu ári en í júní í fyrra. Atvinnuleysi var 3,1% í júní og er áfram lítillega meira en á sama tíma í fyrra.
Fataverslun
10. júlí 2024
Spáum að verðbólga aukist lítillega og verði 5,9% í júlí 
Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,15% á milli mánaða í júlí og að verðbólga aukist úr 5,8% í 5,9%. Við gerum ráð fyrir að júlímánuður verði nokkuð dæmigerður þar sem sumarútsölur verða til lækkunar á vísitölunni en flugfargjöld til útlanda til hækkunar. Við spáum nokkurn veginn óbreyttri verðbólgu í ágúst og september, en að verðbólga hjaðni í 5,4% í október. 
8. júlí 2024
Vikubyrjun 8. júlí 2024
Hátt vaxtastig hefur hvatt til sparnaðar og hægt á eftirspurn í hagkerfinu. Innlán heimila voru 20% meiri í maí síðastliðnum en í maí í fyrra, samkvæmt nýbirtum Hagvísum Seðlabanka Íslands. Óbundin innlán hafa aukist langmest.
1. júlí 2024
Fréttabréf Hagfræðideildar 1. júlí 2024
Mánaðarlegt fréttabréf frá Hagfræðideild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
Litríkir bolir á fataslá
1. júlí 2024
Vikubyrjun 1. júlí 2024
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,48% í júní. Verðbólga mældist því 5,8% og lækkaði úr 6,2%. Velta samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum í mars og apríl dróst saman um 4,6% að raunvirði og launavísitalan hækkaði um 0,2% í maí, samkvæmt tölum sem Hagstofan birti í síðustu viku.
Flugvél á flugvelli
27. júní 2024
Verðbólga í takt við væntingar – lækkar í 5,8%
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,48% á milli mánaða í júní og við það lækkaði ársverðbólga úr 6,2% í 5,8%. Reiknuð húsaleiga, hækkandi flugfargjöld til útlanda og verðhækkun á hótelgistingu höfðu mest áhrif til hækkunar á vísitölunni. Á móti lækkaði verð á fötum og skóm, húsgögnum og heimilisbúnaði og ökutækjum á milli mánaða í júní.
25. júní 2024
Velta í hagkerfinu minnkar á milli ára
Velta samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum dróst saman um 4,6% að raunvirði í mars og apríl og um 2% í janúar og febrúar samkvæmt nýbirtum gögnum Hagstofunnar. Þróunin er ólík eftir útflutningsgreinum. Ferðaþjónusta eykst lítillega á milli ára, velta í sjávarútvegi og álframleiðslu minnkar en velta í lyfjaframleiðslu eykst til muna.
Bílar
25. júní 2024
Merki um lítilsháttar kólnun á vinnumarkaði
Atvinnuleysi er nú aðeins meira en á sama tíma í fyrra og laun hækka minna. Nýbirt launavísitala sýnir 0,2% hækkun á milli mánaða í maí og hafa laun nú hækkað um 6,7% á síðustu tólf mánuðum. Allar líkur eru á að á þessu ári hækki laun mun minna en á síðasta ári, enda hafa nýir kjarasamningar minni hækkanir í för með sér en þeir síðustu.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur