Ný íbúðalán að mestu verðtryggð

Frá lokamánuðum síðasta árs hefur straumurinn legið yfir í verðtryggð lán, þar sem greiðslubyrði slíkra lána er töluvert lægri en af óverðtryggðum lánum þegar vextir eru háir eins og nú. Í maí voru hrein ný íbúðalán banka til heimila 4,4 ma.kr., þar sem ný verðtryggð lán voru 8,7 ma.kr. en ný óverðtryggð lán neikvæð um 4,3 ma.kr.
Þegar Seðlabankinn lækkaði vexti sem viðbrögð við heimsfaraldrinum, jókst áhugi fólks á óverðtryggðum lánum. Frá árinu 2020 jukust óverðtryggð íbúðalán banka töluvert. Fyrst með breytilegum vöxtum en þegar vextir tóku aftur að hækka um mitt ár 2021 fór fólk að festa óverðtryggðu vextina. Þar hafa væntingar um frekari vaxtahækkanir líklega haft mest áhrif. Síðustu mánuði, þegar stýrivextir hafa hækkað enn frekar og eru nú komnir upp í 8,75%, og vextir á óverðtryggðum íbúðalánum eru um eða yfir 10%, eru hrein ný íbúðalán bankanna að mestu verðtryggð. Þar spila þrengri lánaskilyrði og hækkandi vextir stórt hlutverk, þar sem fólk uppfyllir frekar lánaskilyrði verðtryggðra lána, vegna lægri mánaðarlegra afborgana.
Séu hrein ný íbúðalán lífeyrissjóða og banka tekin saman sést að frá ágúst í fyrra hafa hrein ný verðtryggð íbúðalán verið umfram uppgreiðslur slíkra lána. Síðustu mánuði hefur svo hlutfall verðtryggðra lána aukist jafnt og þétt og frá apríl hafa hrein ný óverðtryggð íbúðalán verið lægri en uppgreiðslur. Samanlögð hrein ný íbúðalán innlánastofnana og lífeyrissjóða námu 9,8 ma.kr. í maí þar sem ný verðtryggð lán námu 11 ma.kr en óverðtryggð lán voru neikvæð um 1,2 ma.kr.
Breyting á samsetningu útistandandi lána
Í byrjun árs 2019 var hlutfall útistandandi íbúðalána á verðtryggðum vöxtum 77% á móti 23% hlutfalli óverðtryggðra lána. Með lækkandi stýrivöxtum jókst hlutfall óverðtryggðra lána og í ágúst 2021 var meira en helmingur útistandandi íbúðalána á óverðtryggðum vöxtum. Þá stóðu stýrivextir í 1,25%, og höfðu þá hækkað frá lægstu stýrivöxtum frá upphafi, eða 0,75%, frá aprílmánuði þess árs. Hlutfall óverðtryggðra íbúðalána náði hámarki um mitt síðasta ár þegar þau voru 56% útistandandi lána. Nú þegar stýrivextir eru orðnir 8,75% og meirihluti nýrra íbúðalána eru verðtryggð er hlutfallið farið að minnka aftur og var hlutur óverðtryggðra lána undir 53,5% í maí. Líklegt verður að teljast að þessi þróun haldi eitthvað áfram og hlutfall verðtryggðra íbúðalána aukist á meðan vextir haldast háir.
Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara. Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti. Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.








