Nokkuð gott jafnvægi að myndast á vinnumarkaði
Í vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands er áætlað að um 210.200 manns hafi verið á vinnumarkaði í nóvember 2021, sem jafngildir 78,7% atvinnuþátttöku. Af þeim voru um 203.100 starfandi og um 7.100 atvinnulausir og í atvinnuleit, eða um 3,4% af vinnuaflinu. Starfandi fólki fjölgaði um 18.900 milli ára í nóvember og atvinnulausum fækkaði um 7.100 á sama tíma. Hlutfall starfandi var 76% í nóvember og hækkaði um 5,8 prósentustig frá nóvember 2020. Allt eru þetta skýr merki um sterkari vinnumarkað.
Atvinnuþátttaka hefur aukist stöðugt á þessu ári og var 78,7% nú í nóvember sem er 3,1 prósentustigum meira en í nóvember í fyrra. Sé miðað við 12 mánaða hlaupandi meðaltal var atvinnuþátttaka mest um mitt ár 2017, en þá fór hún upp í 82%. Samsvarandi tala nú er 78,7% og hefur atvinnuþátttaka aukist nokkuð stöðugt á þann mælikvarða.
Atvinnuleysi, samkvæmt mælingum Hagstofunnar, var 3,4% í nóvember sem er 3,8 prósentustigum lægra en á sama tíma í fyrra. Almennt atvinnuleysi skráð hjá Vinnumálastofnun var hins vegar 4,9% og hafði minnkað um 5,7 prósentustig milli ára.
Starfandi fólki í nóvember fjölgaði um 10,3% miðað við sama tíma í fyrra. Vinnutími styttist um 1,3% á sama tíma þannig að heildarvinnustundum fjölgaði um 8,9% milli ára. Þetta er áttundi mánuðurinn í röð sem við sjáum fjölgun heildarvinnustunda, en þeim var tekið að fækka nokkru áður en faraldurinn brast á og tók svo að fjölga aftur í apríl á þessu ári.
Á fyrstu þremur ársfjórðungum síðasta árs var meðalatvinnuleysi 6,5%, samkvæmt vinnumarkaðskönnun. Á sama tíma var atvinnuleysi ungs fólks (16-24 ára) 13,3%. Atvinnuleysi ungs fólks er jafnan mun meira heldur en heildarinnar.
Sé staða þessara tveggja hópa skoðuð yfir tíma hvað atvinnuleysi varðar kemur ýmislegt í ljós. Í samanburðinum er notast við fjögurra ársfjórðunga hlaupandi meðaltal til þess að losna við áhrif árstíðasveiflu. Atvinnuleysi yngsta aldurshópsins fór hæst á árinu 2010, minnkaði svo fram til 2018 en jókst síðan fram á þetta ár.
Það er athyglisvert að skoða hversu mikið hærra atvinnuleysi ungs fólks er á hinum ýmsu tímabilum. Meðalatvinnuleysi hefur verið 4,8% frá árinu 2003 og atvinnuleysi ungra 13,3%. Atvinnuleysi ungra hefur því að meðaltali verið 2,2 sinnum hærra en meðaltalið. Hlutfallið var mjög hátt í upphafi tímabilsins, lækkaði svo fram til ársloka 2016, en tók þá tímabundið stökk upp á við. Miðað við tölur Hagstofunnar hefur hlutfall atvinnuleysis ungra miðað við heildina aldrei verið lægra en á þessu ári þar sem það hefur verið 1,8 sinnum hærra en allra.