Seðlabanki Íslands birti fyrir helgi gögn um veltu innlendra greiðslukorta í júlí. Samanlagt jókst kortavelta um 8% milli ára miðað við fast gengi og fast verðlag. Alls nam velta tengd verslun og þjónustu innanlands 85,6 mö.kr. og jókst um tæp 2% milli ára á föstu verðlagi. Kortavelta Íslendinga erlendis nam 15 mö.kr. og jókst um 71% milli ára miðað við fast gengi. Þetta er mesta kortavelta erlendis frá því í janúar 2020 og mælist aðeins 18% minni að raunvirði en í júlí 2019, áður en faraldurinn skall á.
Júlímánuður er gjarnan neyslumikill þar sem landsmenn eru margir í fríi og vilja gera vel við sig. Neyslan nú er talsvert meiri en áður hefur sést og mælist til að mynda meiri en í júlímánuði fyrir tveimur árum, fyrir faraldur, og einnig meiri en í desember síðastliðnum. Aukin ferðalög til útlanda skýra hluta þróunarinnar, en 31.000 Íslendingar fóru til útlanda í júlí, sem er 133% fleiri en í fyrra. Fjöldinn er þó helmingi minni en fyrir tveimur árum, þegar yfir 60.000 Íslendingar lögðu land undir fót.