Seðlabanki Íslands birti í morgun gögn um veltu innlendra greiðslukorta í janúar. Samanlagt jókst kortavelta um 10% milli ára miðað við fast gengi og fast verðlag, sem er minnsti vöxtur sem hefur mælst síðan í júlí í fyrra og mögulega til marks um að mikill fjöldi veirusmita í mánuðinum hafi dregið úr neysluvilja og -getu fólks. Til samanburðar var vöxturinn 14% milli ára í desember og 20% í nóvember.
Alls nam velta tengd verslun og þjónustu innanlands 66 mö.kr. og jókst um aðeins 1% milli ára á föstu verðlagi. Kortavelta Íslendinga erlendis nam 15 mö.kr. og jókst um 84% milli ára miðað við fast gengi. Helsta breytingin sem nú sést á neyslumynstri Íslendinga er að neyslan færist meira út fyrir landsteinana og er vöxturinn nú nær alfarið tilkominn vegna aukinnar neyslu hjá erlendum söluaðilum.
Kortavelta Íslendinga erlendis mælist svipuð og í janúar 2020 fyrir faraldur, aðeins 1% minni miðað við fast gengi. Brottfarir Íslendinga í gegnum Leifsstöð voru aftur á móti aðeins 40% af því sem þær voru í janúar fyrir faraldur sem sýnir að fólk geri talsvert betur við sig í utanlandsferðum nú en áður, auk þess sem netverslun verður sífellt vinsælli.
Lesa Hagsjána í heild:









